Í morgun, sunnudagsmorgun, birtist stutt viðtal við Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, á eyjunni.is um stöðu ESB-mála, sem bendir til að hann hafi misskildar hugmyndir um afstöðu mína til meðferðar málsins, sem ég sé ástæðu til að leiðrétta. Össur segir:
„Þar að auki hefur stuðningsmönnum þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið borist stuðningur úr mjög óvæntri átt. Styrmir Gunnarsson, einn heiftúðugasti andstæðingur ESB er farinn að skrifa um að best sé að láta þjóðina sjálfa ráða málinu. Mæli hann manna heilastur - hann er boðinn velkominn í hópinn, þó hann hafi mætt heldur seint í boðið.“
Rétt er að taka fram, þótt það sé minna mál að ég er ekki „andstæðingur ESB“. Mér finnst samstarf Evrópuríkja innan ESB stórmerkileg tilraun.
Ég er hins vegar andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu og það er allt annað mál eins og fyrrverandi utanríkisráðherra veit manna bezt.
En aðal atriðið er þó þetta:
Ég hef frá vorinu 1997 skrifað kerfisbundið, fyrst í nafni Morgunblaðsins og síðar í eigin nafni um mikilvægi þess að breyta stjórnskipan Íslands á þann veg að beint lýðræði verði þungamiðjan í stjórnskipulagi íslenzka lýðveldisins. Ég hef jafn lengi verið þeirrar skoðunar að þjóðin sjálf ætti að taka allar megin ákvarðanir um aðild að Evrópusambandinu.
Hinn 13. júlí 2013, tæpum tveimur mánuðum eftir myndun núverandi ríkisstjórnar skrifaði ég grein í Morgunblaðið, sem bar fyrirsögnina Ísland er enn umsóknarríki. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði þá grein þá, löngu áður en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði áliti sínu - og raunar áður en hún var beðin um slíkt álit og löngu áður en ríkisstjórnin hafði yfirleitt rætt þann möguleika að leggja fram þingsályktunartillögu um málið- var sú að ég hafði orðið var við ólíkar hugmyndir innan þingflokka beggja stjórnarflokkanna um hvað falizt hefði í fyrirheiti um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem frambjóðendur flokkanna höfðu haldið á lofti í kosningabaráttunni.
Í grein þessari segir:
„Þótt Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra hafi farið til Brussel og tilkynnt að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið felst ekki í þeirri yfirlýsingu annað en “hlé„. Á blaðamannafundi utanríkisráðherra og Stefáns Fule, stækkunarstjóra mátti heyra að notuð voru á ensku orðin “put on hold„. Í þessu felst að Ísland hefur enn stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu.
Að svo miklu leyti sem hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið til umræðu eftir kosningar hafa þær umræður snúizt um hvort og hvenær ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort taka eigi viðræður upp á ný. Frá sjónarhóli þeirra sem andvígir eru aðild að Evrópusambandinu getur það hins vegar ekki verið viðunandi staða málsins, að eina álitamálið sé hvort áfram skuli vera „hlé“ á viðræðum eða hvort þær skuli hefjast að nýju. Á hvorn veginn sem slík atkvæðagreiðsla færi væri Ísland áfram „umsóknarríki“ vegna þess að ekki hefði verið úr því skorið, hvort draga ætti umsóknina til baka.
Grunvallarspurningin er auðvitað sú, hvort þjóðin vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Hvort þjóðin vilji að Ísland sé „umsóknarríki“ eða ekki.
Þegar þingsályktunartillaga um umsókn að Evrópusambandinu var til umræðu á Alþingi sumarið 2009 kom fram tillaga um að eftir því yrði leitað hvort þjóðin vildi sækja um aðild og um þá grundvallarspurningu færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Sú tillaga var felld. Það má færa rök að því að mestu mistök þáverandi ríkisstjórnar í ESB-málinu hafi verið þau að leita ekki eftir slíku umboði frá þjóðinni.
Nú situr ríkisstjórn þeirra flokka sem þá studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Ítrekaðar skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar er andvígur aðild en meiri ágreiningur hefur verið um þá þrengri spurningu, hvort hætta ætti viðræðum eða ljúka þeim úr því sem komið væri.
Ef þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um það hvort halda ætti áfram viðræðum og það yrði samþykkt er auðvitað ljóst að þá yrðu þær hafnar á ný. Yrði slík tillaga felld væri Ísland eftir sem áður „umsóknarríki“ og þá yrði að taka sjálfstæða ákvörðun um það í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort draga ætti umsóknina til baka.
Það er lítið vit í slíkum vinnubrögðum.
Eðlilegast er að núverandi ríkisstjórn fari með málið aftur á þann byrjunarreit sem það var á snemma sumars 2009 og ákveði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili um það, hvort Íslendingar vilji gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Um það grundvallaratriði stendur sá ágreiningur sem er meðal þjóðarinnar - ekki um stöðu viðræðna.“
Þetta er tilvitnun í grein sem ég skrifaði fyrir tæpu ári í Morgunblaðið.
Hinn 1.marz sl., eftir að umræður voru hafnar á Alþingi um skýrslu Hagfræðistofnunar og þingsályktunartillaga utanríkisráðherra var komin fram, skrifaði ég aðra grein í Morgunblaðið, ítrekaði sjónarmið mín frá 13. júlí 2013 og sagði:
„Það ánægjulega við þessar umræður er hins vegar það að spurningin um þjóðaratkvæði í stærstu málum er orðin að lykilatriði í þjóðfélagsumræðum. Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í ræðu á fundi í Valhöll fyrir nokkrum dögum var mjög skýr um þetta efni. Hann sagðist vera einlægur í áhuga sínum á því að þjóðaratkvæði yrði þáttur í stjórnskipan landsins. Og í ljósi þess hvernig forystumenn annarra flokka hafa talað um það mál má ætla að það sé að verða til pólitísk samstaða milli allra flokka um að koma þeirri skipan á.“
Í ljósi þess sem hér hefur verið rifjað upp fer tæpast á milli mála að hafi einhverjir verið „seinir í boðið“, þ.a.,að skipa sér í fylkingu þeirra sem vilja beint lýðræði, séu það Össur Skarphéðinsson og félagar hans.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.