Þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

Umsókn jörðuð á fimm ára umsóknarafmæli


Björn Bjarnason
16. júlí 2014 klukkan 16:38

Í dag miðvikudaginn 16. júlí eru rétt fimm ár frá því að alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú liggur fyrir að ný framkvæmdastjórn ESB undir forsæti Jean-Claudes Junckers mun ekki á starfstíma sínum, næstu fimm árin, til 2019, vinna að stækkun ESB. Til málamynda verður rætt við einhver umsóknarríki, þeim „haldið upp á snakki“ en ekki markvisst unnið að því að ljúka viðræðum við neinn.

Undanfarin fimm ár hefur ákveðinn hópur Íslendinga neitað að horfast í augu við staðreyndir ESB-málsins. Hann hefur neitað að viðurkenna aðlögunar-eðli umsóknarferlisins og stundað þá blekkingu að unnt sé að sækja um ESB-aðild undir þeim formerkjum að sjá hverju viðræðurnar skila og bera það sem út úr þeim kemur undir þjóðina.

Í þessari afstöðu felst að af Íslands hálfu verði ekki haldið svo fast í nokkurt samningsmarkmið að upp úr viðræðunum slitni. Það er sett sem sjálfstætt ofurmarkmið að ljúka viðræðunum. Þetta hefur vissulega veikt stöðu Íslands í viðræðunum.

Snemma árs 2011 var lokið rýniferli vegna sjávarútvegsmála. Að því loknu skyldi hvor aðili um sig skila rýniskýrslu. Hún barst hins vegar aldrei frá ESB og neituðu Íslendingar að kynna samningsmarkmið sín í sjávarútvegsmálum yrði þessi skýrsla ekki afhent. Leit ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur svo á að ríkjaráðstefna 18. desember 2012 markaði þáttaskil í málinu. Þá létu Brusselmenn skýrsluna þó ekki af hendi.

Í janúar 2013 sló Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra frekari viðræðum við ESB á frest. Gengið var til kosninga í apríl 2013 og galt Samfylkingin, ESB-flokkurinn, afhroð. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur settust við völd en báðir flokkarnir boðuðu fráhvarf frá ESB-viðræðunum í kosningabaráttunni í samræmi við niðurstöður landsfunda sinna.

Sumarið 2013 fóru utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson til Brussel og kynntu stefnu ríkisstjórnarinnar. Viðræðum um ESB-aðild yrði ekki fram haldið. Síðsumars var viðræðunefnd Íslands aflögð.

Á fyrri hluta árs 2014 lagði Gunnar Bragi Sveinsson fram tillögu til þingsályktunar um afturköllun ESB-umsóknarinnar, naut hún stuðnings meirihluta þingmanna. Ráðherranum tókst hins vegar ekki að tryggja framgang tillögunnar fyrir þinglok. Þvældist helst fyrir mönnum hvort, hvernig og hvenær skyldi efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-málið á þessu stigi þess.

Allt frá upphafi hefur ESB-aðildarumsóknin valdið miklum deilum og klofið þjóð og flokka. Þessi ágreiningur náði hámarki eftir að tillagan um afturköllun umsóknarinnar var kynnt. Hin ólíku sjónarmið er einfaldlega ekki unnt að sætta. Það er ekki unnt að finna málamiðlun milli þess að vera með eða á móti aðild að Evrópusambandinu. Tilraunir til sátta hafa snúist um aðferðina við töku ákvarðana í málinu.

Áður en alþingi tók afdrifaríka ákvörðun sína 16. júlí 2009 hafnaði þingmeirihluti sáttatillögu um að þjóðin skyldi spurð hvort hún vildi að sótt yrði um aðild. Á þingi fyrri hluta árs 2014 lýstu fulltrúar allra flokka stuðningi við það sjónarmið að ekki yrði haldið áfram viðræðum við ESB án þess að þjóðin vildi það. Hins vegar var deilt um hvað ætti að spyrja og hvenær.

Hinn 15. júlí 2014 var gengið til atkvæðagreiðslu í ESB-þinginu um val á forseta framkvæmdastjórnar ESB sem tekur við völdum 1. október 2014. Jean-Claude Juncker, fyrrv. forsætisráðherra Lúxemborgar, var kjörinn. Í stefnuyfirlýsingu sem hann kynnti af þessu tilefni segir:

„Að því er varðar stækkun geri ég mér fulla grein fyrir að við höfum náð sögulegum árangri, sem hefur tryggt álfu okkar frið og stöðugleika. Hins vegar verður sambandið og borgarar þess að melta 13 ríkja stækkun á síðustu 10 árum. Evrópusambandið þarf að gera hlé á stækkun svo að við getum fest í sessi það sem áunnist hefur með 28 ríkjum. Af þessum ástæðum verður, á meðan ég er í forsæti, aðildarviðræðum fram haldið, og einkum þurfa ríkin á vesturhluta Balkanskaga að huga að evrópskri vídd, en engin frekari stækkun verður á næstu fimm árum (but no further enlargement will take place over the next five years).“

Juncker víkur sérstaklega að Balkanríkjunum vegna þess að þar tengja menn saman aðlögun þeirra að kröfum ESB um lýðræðislega stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum og rétti og viðleitni til að tryggja frið í samskiptum þjóða og þjóðarbrota. Hann tekur þessa almennu afstöðu gegn stækkun af því að hann veit að hún fellur að vilja meirihluta ESB-þingmanna.

Að fella Ísland undir ríki í viðræðum við ESB er í besta falli langsótt en í raun rangt þegar litið er til þess sem gerðist í janúar 2013 og síðan eftir kosningarnar 2013. Engar viðræður hafa farið fram í þrjú misseri og viðræðunefndir hafa verið aflagðar. Hið eina sem eftir stendur af umsóknarferlinu er Evrópustofa sem beitir sér fyrir kvikmyndasýningum og tónleikum, minnir helst á MÍR, Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, Sovétvinafélagið í kalda stríðinu.

Í tilefni af skipan nýrrar framkvæmdastjórnar ESB með yfirlýst fimm ára stækkunarbann hlýtur ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir að umsókn Íslands hafi verið úrskurðuð dauð og ómerk af ESB og sé því sjálfkrafa afturkölluð. Umsóknin var reist á von um skjóta niðurstöðu sem leggja mætti undir þjóðina – ekkert slíkt er í augsýn.

Þeir stjórnmálamenn eða aðrir sem ætla að lengja dauðastríð ESB-umsóknarinnar enn frekar sanna einfaldlega enn og aftur að þeim er um megn að horfast í augu við staðreyndir.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS