Fimmtudagurinn 26. apríl 2018

Umskipti í afstöðu NATO - íslensk stjórnvöld verða að móta skýra stefnu


Björn Bjarnason
13. ágúst 2014 klukkan 19:11

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, kom í kveðjuheimsókn til Reykjavíkur í dag, miðvikudaginn 13. ágúst og hverfur að nýju af landi brott fimmtudaginn 14. ágúst að loknum viðræðum við forsætisráðherra, utanríkisráðherra og þingmenn auk þess sem hann skoðar varðskipið Þór. Allt annar tónn er í boðskapnum af hálfu framvkæmdastjóra NATO til Íslendinga nú en þegar Fogh Rasmussen tók við stöðu sinni fyrir fimm árum.

NATO
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum fimmtudaginn 13. ágúst 2014.

Anders Fogh Rasmussen (f. 1953) er fyrrverandi forsætisráðherra Dana og formaður Venstre-flokksins. Hann sat á danska þjóðþinginu 1978 – 2009 og var forsætisráðherra 2001 til 2009 þegar hann varð framkvæmdastjóri NATO hinn 5. apríl. Það orð hefur farið af honum sem æðsta embættismanni NATO að hann sé stórlátur og hafi jafnvel frekar beint samband við ríkisstjórnir aðildarrikjanna en að ráðgast við Norður-Atlantshafsráðið í Brussel þar sem fastafulltrúar aðildarríkjanna sitja.

Hinn 29. janúar 2009 skömmu áður en Anders Fogh Rasmussen varð framkvæmdastjóri NATO, stóðu íslensk stjórnvöld og NATO fyrir málstofu hér á landi um öryggishorfur á norðurslóðum undir heitinu Security Prospects in the High North.

Markmið málstofunnar var að varpa ljósi á breytingar á norðurslóðum með tilliti til hefðbundins öryggis og að ræða hvernig koma mætti í veg fyrir að norðurslóðir yrðu vettvangur spennu, deilna og hernaðarvæðingar. Sérstaklega var litið til „núverandi öryggisáskorana, framtíðarhorfa í öryggismálum og með hvaða hætti byggja [mætti] upp traust á svæðinu og tryggja aukið samstarf NATO-ríkjanna við þau ríki sem standa utan bandalagsins, svo sem Rússland, Svíþjóð og Finnland,“ eins og það var orðað í tilkynningu um málstofuna en þar var Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdarstjóri NATO, aðalræðumaður.

Í tilkynningu íslenska utanríkisráðuneytisins að lokinni málstofunni hinn 29. janúar 2009 sagði að um 300 manns frá öllum NATO-ríkjunum 26 auk fulltrúa frá Albaníu og Króatíu (sem síðan hafa gerst aðilar að NATO) hefðu sótt málstofuna og þar hefði verið talið mikilvægt að norðurslóðir yrðu vettvangur friðsamlegrar samvinnu, ekki síst í ljósi þeirra öryggisáskorana sem blöstu við á svæðinu. Þá sagði orðrétt:

„Þátttakendur voru sammála um að tryggja þyrfti að komið yrði í veg fyrir óhefta hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum og halda spennu áfram í lágmarki í þessum heimshluta. Undirstrikað var að samvinna og samráð allra hlutaðeigandi ríkja og fjölþjóðastofnanna á norðurslóðum, þ. á m. Norðurskautsráðsins, væri forsenda friðsamlegrar þróunar. Í því samhengi var sérstaklega hvatt til aukinnar samvinnu við Rússland um sameiginlega hagsmuni á svæðinu á grundvelli alþjóðasamninga, gagnsæis og trausts.

Samstaða var um að NATO hefði hlutverki að gegna á norðurslóðum og þyrfti því að auka þekkingu og vitund um málefni svæðisins. Mikilvægt væri að NATO markaði skýra stöðu í því tilliti, t.a.m. á sviði björgunar á hafi og um viðbrögð við umhverfisslysum í náinni samvinnu við einstök ríki og stofnanir, bæði borgaralegar og hernaðarlegar.“

Í stuttu máli má segja að mál hafi þróast á allt annan veg á norðurslóðum í tíð Anders Foghs Rasmussens en þarna er lýst. NATO hefur einfaldlega skilað auðu sé litið til ályktana bandalagsins og leitað að skýrum ákvæðum um hlut þess á norðurslóðum. Þar ræður mestu afstaða sem Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, kynnti á leiðtogafundi NATO í Strassborg/Kehl í apríl 2009 þegar Fogh Rasmussen tók við embætti framkvæmdastjóra.

Skjöl frá Bandaríkjastjórn sem WikiLeaks birti sýna að Harper sagði á sínum tíma við Anders Fogh Rasmussen að NATO ætti „ekkert erindi“ á norðurslóðir (in the Arctic) og að þrýstingur um að bandalagið léti að sér kveða þar kæmi frá þjóðum sem vildu koma ár sinni fyrir borð á svæði „þar sem þær [ættu] ekki heima“.

Í kanadískum fjölmiðlum má nú lesa vangaveltur um að afstaða Harpers forsætisráðherra kunni að hafa breyst í þessu efni. Hann hefur kveðið fast að orði í gagnrýni sinni á framferði Rússa gegn stjórnvöldum í Úkraínu og heimsótt Pólland til að árétta stuðning sinn við öryggi þeirra þjóða sem búa næst Rússlandi.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur árum saman mælt fyrir um aukinn hernaðarmátt Rússa á norðurslóðum. Nýlega voru kynnt áform um smíði nýrra kafbáta fyrir norðurflota Rússlands. Ferðum rússneskra herflugvéla á norðurslóðum hefur fjölgað. Kanadamenn og Rússar gera kröfu til sama svæðis á botni Norður-Íshafs utan 200 mílna efnahagslögsögu ríkjanna. Um þessar mundir stunda Kanadamenn rannsóknir sem þeir telja að leiði fram sannanir um eignarhald þeirra á landgrunni á sjálfum norðurpólnum.

Anders Kogh Rasmussen kemur til Íslands við allt aðrar aðstæður á alþjóðavettvangi en ríktu þegar hann tók við embætti sínu. Í fréttatilkynningu frá upplýsingadeild NATO í tilefni af komu framkvæmdastjórans hingað segir að „einstakt hlutverk“ NATO sem samstarfsvettvangur þjóðanna við Atlantshaf hafi verið „lykilþema“ í viðræðum hans hér á landi. Haft er eftir honum:

„Atlantshafstengslin eru við hjartastað NATO. Samvinnan milli Norður-Ameríku og Evrópu eykur öryggi borgara okkar og eykur styrk landa okkar – og Ísland er tákngervingur Atlantshafstengslanna.“

Þá er sagt frá því að framkvæmdastjórinn hafi rætt um undirbúning leiðtogafundar NATO í Wales (4. til 5. september) við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra og sagt að á leiðtogafundinum yrðu menn að efla enn frekar sameiginlegar varnir NATO, samvinnu við samstarfsþjóðir NATO og vináttutengslin yfir Atlantshaf.

Minnt er á að Íslendingar hafi tekið þátt í aðgerðum NATO í Afganistan og í aðgerðum bandalagsins til stuðnings aðildarþjóðum vegna hættuástandsins í samskiptum Rússa og Úkraínumanna. Íslendingar hafi einnig verið gestgjafar við flughersæfinguna Iceland Air Meet 2014 með þátttöku frá samstarfsríkjunum Finnlandi og Svíþjóð í febrúar á þessu ári og þar með lagt sitt af mörkum til að efla samvinnuna milli NATO og samstarfsríkja bandalagsins.

Í tilkynningunni frá Brussel segir að framkvæmdastjórinn hafi lagt áherslu á að hvert aðildarríki NATO gegndi áfram virku hlutverki við að laga NATO að verkefnum líðandi stundar og þess sem framtíðin bæri í skauti sér. Þá er haft eftir Anders Fogh Rasmussen:

„Ég hvet Íslendinga eins og allar aðildarþjóðirnar til að taka virkan þátt í aðgerðum vegna þeirra áskorana sem við okkur blasa. Til dæmis með því að nýta sér hina góðu reynslu af Iceland Air Meet til að víkka umsvifin og láta þau ná til leitar og björgunar – og til að leita leiða til að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra NATO-verkefna í því skyni að efla getu okkar.

Á þessum óvissutímum höfum við meiri þörf fyrir NATO en nokkru sinni. Ég treysti á stuðning Íslendinga þegar við vinnum að því að bæta bandalagið með auknum krafti, hraða og sveigjanleika.“

Áherslan á mikilvægi Atlantshafstengslanna og að Ísland sé tákngervingur þeirra minnir á orð sem féllu við svipuð tækifæri þegar keppni var háð milli austur og vesturs og hún jókst stig af stigi á Norður-Atlantshafi. Á þeim árum var ekki talað um Norður-Íshafið á sama hátt og nú sem mikilvægt forðabúr fyrir olíu og gas sem tæknilega megi nýta vegna loftslagsbreytinga.

Við sjáum í Mið-Austurlöndum hve mikil harka er í baráttunni um ráð yfir þessum auðlindum þar. Allir vilja forðast sambærilega spennu svo að ekki sé talað um ástand á norðurslóðum. Það verður ekki gert nema NATO marki skýrari afstöðu en kom fram í orðum framkvæmdastjóra NATO í heimsókn hans til Íslands 13. ágúst 2014. Íslensk stjórnvöld hljóta að vinna að því í aðdraganda leiðtogafundarins í Wales að horfið sé frá þagnarbindinu um norðurslóðir í ályktunum leiðtogafunda NATO.

Ummæli Anders Fogh Rasmussens um flughersæfinguna hér á landi í febrúar með þátttöku Svía og Finna undir forystu Norðmanna staðfesta að æfingin skipti miklu í augum stjórnenda NATO þótt hún hafi verið kynnt á annan veg í aðdraganda hennar.

Að framkvæmdastjóri NATO hvetji íslensk stjórnvöld til að færa út kvíarnar með því að fella leit og björgun undir sameiginlegar æfingar á Keflavíkurflugvelli fellur vel að hinu borgaralega hlutverki sem Íslendingar gegna innan NATO. Heimsóknin um borð í varðskipið Þór er viðurkenning á að Íslendingar ráða yfir tækjum og þekkingu undir merkjum Landhelgisgæslu Íslands til að sinna þessum mikilvægu verkefnum og hafa um þau forystu meðal bandalagsþjóða hér í Norður-Atlantshafi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS