Þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

Brottför Breta úr ESB þýðir þýzk yfirráð á meginlandinu


Styrmir Gunnarsson
25. nóvember 2014 klukkan 07:39

Samskipti Evrópuríkja eru smátt og smátt að falla í sama farveg og einkennt hefur þau í nokkrar síðustu aldir - átök og illdeilur. Munurinn er sá að nú fara þessi átök að verulegu leyti fram innan Evrópusambandsins en ekki á vígvöllum og á því er auðvitað mikill munur.

Hér á landi hefur umbrotuim í Bretlandi vegna aðildar landsins að ESB verið sýndur takmarkaður áhugi. Þó er ljóst að það er raunhæfur möguleiki að Bretar yfirgefi ESB á næstu árum. Uppgangur Ukip, sem sækir fylgi til beggja aðalflokkanna þar í landi veldur því að brottför er ekki lengur óhugsandi. Réttara er kannski að segja að uppgangur Ukip sé birtingarmynd þeirrar megnu óánægju, sem ríkir meðal almennings í Bretlandi með aðildina að ESB.

En hvað mundi brottför Breta þýða fyrir Evrópusambandið sjálft?

Romano Profi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur ákveðnar skoðanir á því.

Hann segir í samtali við ítalska dagblaðið Il Messagero að brottför Breta mundi þýða þýzk yfirráð innan Evrópusambandsins og þar með á meginlandi Evrópu.

Rétt er að skjóta því hér inn að írski sagnfræðingurinn Brendan Simms segir í bók sinni um Evrópu frá 1453 að átökin í Evrópu hafi í 500 ár snúizt um þetta meginatriði: Ráða Þjóðverjar eða ráða þeir ekki.

Prodi segir að áhrif Breta fari þverrandi dag frá degi í Brussel og rekur það til ákvörðunar Camerons um þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi árið 2017 vinni hann sigur í þingkosningum á næsta ári. Hann segir jafnframt að þau aðildarríki ESB sem hafi lagt áherzlu á valdajafnvægi innan ESB milli Þjóðverja, Breta og Frakka séu nú að skipa sér í fylkingu að baki Þjóðverjum.

Þegar rætt er við Þjóðverja um þessi mál má finna að ekki er djúpt á ákveðinni fyrirlitningu í garð Breta, sem þeir segja að hafi misst niður allan framleiðsluiðnaði, sem máli skipti og eftir standi einungis fjármálahverfið í London.

Aðrir benda á að þýzk fyrirtæki hafin keypt upp iðnfyrirtæki í Bretlandi svo sem bílasmiðjurnar þar.

En jafnframt eru áhrifamenn innan Íhaldsflokksins farnir að tala um aðild að EES samfara úrsögn úr ESB, eins og sagt er frá í fréttum Evrópuvaktarinnar. Það er að sjálfsögðu umhugsunarvert sjónarhorn frá sjónarhóli þeirra ríkja sem aðild eiga að EES.

En því miður virðast íslenzkir alþingismenn ekki hafa nokkurn áhuga á þessum málaflokki, þótt enn liggi í Brussel umsókn Íslands um aðild að ESB. Þessi mál eru ekki til umræðu á Alþingi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS