Þegar dregur að jólum bregst ekki að menn taka til við að deila um hvort sýna megi fæðingu Jesúbarnsins í jötu á opinberum stöðum. Fyrst verða umræður vegna borgarstjórnar í Vendée og síðan beinist athygli á bæjarstjóranum í Melun. Rökin eru alltaf af sama toga um að virða beri hið veraldlega. Um aldamótin við upphaf 20. aldar snerust stjórnmálin mjög um að tryggja framgang hins veraldlega, nú er veraldarhyggjan orðin hugsjónalegt vopn í höndum þeirra sem hafa gert guðlaus stjórnmál að kennisetningu sinni. Þessir einstaklingar, hvort sem þeir aðhyllast frjálsa hugsun eða eru í hópi öfga-vinstrisinna sem enn heillast af efnishyggju marxismans líta ekki á veraldarhyggjuna sem tæki til að stuðla að pólitískum og samfélagslegum friði - sem hún er eða ætti að vera - heldur sem vopn gegn trúarbrögðum, einkum gegn kristni. Þeir leita ekki að almannarými sem mótast af frelsi heldur almannarými sem er fullt af því sem Kostas Papaioannou kallar réttilega „freð-hugsjón“ þeirra. Tilhugsunin ein um að líta megi á Frakkland sem kristið land fær hárin til að rísa á þeim. Hvað sem því líður, má lýsa Frakklandi á þennan hátt. Þrátt fyrir himinhrópandi afkristnun sýnir sagan að kristnin hefur nært Frakkland og hún setur enn þann dag í dag sterkan svip á hug þjóðarinnar. Og það sem virðist einkennilegast er að þessi staðreynd stangast alls ekki á við veraldarhyggjuna. Spurningin er því einfaldlega þessi: eru áhangendur kirkjunnar að reyna að hafa áhrif á stjórnmálavaldið með því að sýna jötur á opinberum stöðum? Það er algjörlega fráleitt að svo sé.
Skýrum málið: Reglan um hið veraldlega vald sem var lögfest í Frakklandi árið 1905 er svar við spurningu sem snertir guðfræði og stjórnmál, hún snýst að öðrum þræði um guðfræði og hinum um stjórnmál. Á tíma Ancien Régime [fyrir frönsku stjórnarbyltinguna í lok 18. aldar] var stjórnmálahefðin reist á því að blanda þessu tvennu saman í mismunandi hlutföllum. Í frönsku byltingunni reyndu menn að leysa þennan hnút með Constitution civile du clergé, borgaralegri stjórnarskrá fyrir kirkjunnar menn, án þess að takast það. Napóleon reyndi að gera hið sama með Concordat án þess að ná því marki sem að var stefnt. Þar til á 20. öld höfðu margir þátttakendur í kaþólsku kirkjunni tækifæri til að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir og móta hugi ungs fólks. Umbótamenn III. lýðveldisins bjuggu yfir nægu innsæi til að átta sig nákvæmlega á kjarna vandans: Samþættingunni milli hins andlega og veraldlega valds. Aðskilnaðurinn þarna á milli fólst í aðskilnaði tveggja valdastofnana, það er ríkis og kirkju. Jafnframt var ákveðið að ríkið viðurkenndi hvorki neina sérstaka trúariðkun né veitti henni fjárhagslegan stuðning ; í 2. grein laganna frá 1905 segir: „Lýðveldið viðurkennir hvorki né launar eða styður fjárhagslega nokkra trúariðkun.“ Í 26. grein laganna segir: „Það er bannað að efna til stjórnmálafunda á stöðum sem að jafnaði eru notaðir til trúariðkunar.“
Þeir sem beita sér gegn því að jólajatan sé til sýnis telja sig geta stuðst við 28. gr. laganna þar sem segir: „Framvegis er bannað að reisa eða setja niður við opinber minnismerki eða á hvaða opinberum stað sem er nokkurt trúarlegt tákn eða merki.“ Þeir telja eftir lestur þessarar lagagreinar að hreinsa beri alla opinbera staði af öllum trúarlegum táknum. Þeir hafa rangt fyrir sér. Þeir skilja ekki lögin og því síður hugsunina að baki þeim. Rétt er að minnast þess að í anda laganna felst að binda enda á öll pólitísk áhrif kirkjunnar á stjórn Frakklands. Réttur skilningur á 28. grein er að hún hindri að stjórnvöld reyni, þó ekki sé það nema á táknrænan hátt, að blanda að nýju saman guðfræði og stjórnmálum. Spurningin er því þessi: felst í ákvörðun um að setja jólajötu á opinberan stað tilraun af hálfu stuðningsmanna kirkjunnar til að hafa áhrif á hið opinbera vald? Fráleitt er að svo sé, fyrir því er augljós ástæða sem oft hefur verið nefnd: jólin – þar á meðal jatan, jólatréð og sleði jólasveinsins – hafa einnig menningarlegt gildi.
Við skulum þó ganga enn lengra og viðurkenna að líta megi á jötuna sem ótvírætt trúarlegt tákn og ímyndum okkur að þeir sem sýni hana vilji afdráttarlaust vísa til kristindómsins. Höfum við þá farið út fyrir hið veraldlega svið? Nei, síður en svo. Hvers vegna? Af því að hér er ekki um pólitískan verknað að ræða, hann snertir á engan hátt ríkisstjórn landsins sem talin er veraldleg af öllum kristnum, trúuðum og ekki síst hinum trúlausu. Hér birtist ekki vitnisburður um vilja til að sameina að nýju ríki og kirkju. Þótt táknið sé trúarlegt, þótt viljinn og gjörðin ráðist af augljósri trú hafa þau ekki neina stjórnmálalega skírskotun, það er að segja jarðneska; hér er eingöngu um andlega upplifun að ræða og hún fellur því algjörlega að kenningunni um hið veraldlega. Villa áhangenda freð-hugsjónarinnar hvort sem þeir eru blaðamenn, menntamenn, stjórnmálamenn eða dómarar er að telja fordóma sína í garð þess sem er trúarlegt eða andlegt þjóna framþróun lýðveldisins og hins veraldlega. Þegar þeir neita annars vegar að sjá Frakkland eins og það var og hins vegar eins og það er nú á tímum sanna þeir þvert á móti lítinn skilning sinn á því hvað lýðveldinu er fyrir bestu, menningarlega og stjórnmálalega, þeir sjá aðeins þann helming myndarinnar sem höfðar til þeirra en þeir sem sameina kristna og veraldlega sýn á samfélagið sjá það allt og tileinka sér það í heild.
Kristindómurinn er Frökkum meira en trúarbrögð, hann er jarðvegur. Hann tengist að sjálfsögðu kirkjunni traustum böndum, hann er þó meira en hún, hann er kirkja utan veggja. Hann nærir menningarlíf og samfélag þeirra sem taka við honum án þess að fara nokkru sinni á skjön við lögin eða stuðla að röskun á almannafriði. Hvernig má þetta vera? Einfaldlega vegna þess að kristindómurinn umlykur þetta grundvallaratriði jafnvel þótt litið hafi verið fram hjá þeirri staðreynd, viljandi eða ekki, í aldanna rás. Kristindómurinn er á sinn hátt stjórnmál í æðra skilningi. Hann er eitthvað sem er ofar skilningi okkar. Í honum felst umfram allt fyrirheit, ekki aðeins um morgundaginn, heldur daginn í dag, skýrt fyrirheit, menningarlegt fyrirheit, samfélagslegt, gagnlegt, heillavænlegt, sem getur blásið eldmóði í líf og hugsun þeirra sem vilja vinna að réttlátara þjóðfélagi með virðingu fyrir hinu veraldlega. Hvers vegna er þetta haft að engu í Frakklandi?
Greinin birtist upphaflega í Le Figaro 22. desember 2014.
Höfundur er stærðfræðingur og hagfræðingur að mennt. Hann starfaði að almannatengslum fyrir forsætisráðherra Frakklands (2005 til 2007). Hann er nú sjálfstæður ráðgjafi.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.