« 28. ágúst |
■ 29. ágúst 2010 |
» 30. ágúst |
Rússar létta á kröfum vegna siglinga Norðurleiðina til Kína
Í fyrsta sinn í sögunni hafa Rússar heimilað, að skip, sem ekki siglir undir rússneskum fána, fái að flytja lausan farm siglingaleiðina fyrir norðan Rússland. Um er að ræða flutning á járngrýti frá Norður-Noregi til Kína. Leiðin er þriðjungi styttri en hefðbundnar siglingaleiðir.
Stefnir í uppgjör stjórnarflokkanna í ESB-aðildarmálinu
Innan beggja stjórnarflokkanna eru uppi þau sjónarmið, að átökin um ESB-aðildarumsóknina leiði til stjórnarslita, ef ákveðið verið að hverfa frá núverandi stefnu. Meðal ESB-aðildarsinna í stjórnarliðinu vex þeirri skoðun fylgi, að best sé að fá úr stöðu málsins skorið sem fyrst.
Helsingin Sanomat: tækifæri fyrir Finna á norðurslóðum
Finnar líta svo á, að bráðnun íss á Norðurheimsskautinu og opnun siglingaleiða til Asíu bæði til austur og vestur fyrir norðan Rússland og Kanada feli í sér mikil viðskiptatækifæri fyrir Finnland, segir í grein í Helsingin Sanomat, leiðandi dagblaði í Finnlandi. Í blaðinu kemur fram að siglingar frá Evrópu til Asíu styttist um þriðjung auk þess sem miklar auðlindir séu á þessum slóðum.
Nánara samstarf milli NATÓ og ESB og við Rússland
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins vill auka samvinnu bandalagsins og Evrópusambandsins í öryggismálum að því er fram kemur í Berlingske Tidende í dag. Hann gerir sér vonir um að tillögur þess efnis verði tilbúnar fyrir leiðtogafund NATÓ í nóvember.
Skortur á faglærðu fólki í Þýzkalandi
Krafturinn í efnahagslífi Þýzkalands hefur leitt til þess að þar er nú skortur á starfsfólki, sérstaklega fólki, sem býr yfir þekkingu á ákveðnum sviðum. Þótt atvinnuleysi í Þýzkalandi sé nú 7,6% segja 70% fyrirtæki í Þýzkalandi að þau eigi í erfiðleikum með að fá faglært fólk til starfa. Þannig hefur ekki tekizt að ráða í 36 þúsund tæknistörf og 43 þúsund störf í upplýsingageiranum.
Grikkir hafa greitt látnu fólki lífeyri
Grísk stjórnvöld hafa uppgötvað að þau hafa greitt 321 einstaklingi, sem taldir voru hafa náð m eira en 100 ára aldri, lífeyri, þótt fólkið væri látið. Þetta hefur komið í ljós í þeim aðgerðum, sem nú standa yfir til þess að draga úr kostnaði hins opinbera í Grikklandi og skera niður útgjöld. Peningarnir hafa verið lagðir inn á bankareikninga hinna látnu.