« 16. september |
■ 17. september 2011 |
» 18. september |
Þýzkaland: Rætt um stjórnarsamstarf stóru flokkanna
Innan flokks Kristilegra demókrata (CDU) í Þýzkalandi er nú rætt um að æskilegt væri að rjúfa stjórnarsamstarfið við Frjálsa Demókrata (FDP) og mynda nýja ríkisstjórn með jafnaðarmönnum (SDP) til þess að takast á við kreppuna á evrusvæðinu. Þetta kemur fram á netútgáfu Der Spiegel.
Vextir á neyðarlánum Íra lækka-spara 10 milljarða evra
Fjármálaráðherrar ESB-ríkja hafa samþykkt að lækka vexti á neyðarlánum til Írlands að því er fram kemur í Irish Times í dag. Sparnaður Íra af þeim sökum nemur 10 milljörðum evra. Jafnframt segir blaðið að Michael Noonan, fjármálaráðherra Íra muni ræða í dag við Trichet um óskir Íra um að láta eigendur skuldabréfa Anglo Irish Bank taka á sig töp vegna þeirra.
Portúgal uppgötvar „gat“ á Madeira
Seðlabanki Portúgal hefur uppgötvað 1,1 milljarðs evra gat í fjármálum Portúgala. Ástæðan er sú, að Madeira hefur vantalið skuldir sínar frá 2004 sem nemur þessari upphæð. Um er að ræða skuld, sem er til komin vegna samninga stjórnvalda á Madeira og verktakafyrirtækja. Wall Street Journal segir að málið sé alvarlegt.
Gordon Brown: evran lifir ekki af óbreytt
Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sagði á fundi World Economic Forum í Dalian í Kína, að evran gæti ekki lifað í óbreyttri mynd. Hún yrði að taka róttækum breytingum. Brown sagði að evrusvæðið stæði frammi fyrir bankakreppu en ekki skuldakreppu fyrst og fremst. Evrópskir bankar væru undirfjármagnaðir svo skipti háum fjárhæðum og væru mun skuldsettari en bandariskir bankar.
María Fekter furðar sig á ráðum Bandaríkjamanna-staða þeirra sé verri
Maria Fekter, fjármálaráðherra Austurríkis er helzti heimildarmaður BBC um það sem fram fór á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna, sem hófst í Póllandi í gær og Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna situr. Fundinum lýkur i dag.
Ábending til Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um ræðumann
„Evrópuríki sem eiga í vanda þurfa að nútímavæðast og auka framleiðni. Nýsköpun gegnir lykilhlutverki við að auka hagvöxt. Þetta segir Philippe de Buck, framkvæmdastjóri Buisnesseurope, sem eru samtök evrópskra atvinnurekenda.
„Sigrar“ Jóhönnu Sigurðardóttur
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir er rekin til baka með hugmyndir sínar og Alþingi stoppar hana af í viðleitni hennar til að sölsa meiri völd undir framkvæmdavaldið segir hún rangt að í því felist ósigur. Þessi túlkun forsætisráðherrans á ósigri hennar í stjórnarráðsmálinu kemur fram í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag.