Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Hvernig ætlar Ólafur Ragnar að endurreisa virðingu alþingis með Jóhönnu við hlið sér?


11. september 2012 klukkan 16:06

Við þingsetningu 1. október 2011 greindi Ólafur Ragnar Grímsson tillögur stjórnlagaráðs og sagði meðal annars:

„Það þekkja allir í þessum sal og reyndar þjóðin líka að á undanförnum árum og áratugum hefur oft verið um það deilt hvort forseti lýðveldisins eigi að hafa mikil eða lítil umsvif á vettvangi stjórnkerfisins. Svar stjórnlagaráðsins er skýrt. Tillögur þess fela í sér mun valdameiri forseta.“

Ólafur Ragnar Grímsson og Jóhanna Sigurðardóttir ræða málið í bókhlöðunni að Bessastöðum.

Fyrir tæpu ári ríkti óvissa um hvort Ólafur Ragnar mundi ávarpa alþingi oftar við þingsetningu. Enginn vissi þá, ekki einu sinni hann sjálfur, hvort hann yrði oftar í framboði, hvað þá hvort hann næði endurkjöri í fimmta sinn. Hann bauð sig fram að nýju, náði kjöri og flutti enn á ný ræðu við setningu alþingis.

Hinn 1. október 2011 tók Ólafur Ragnar þá á kné sér sem smíðað höfðu tillögur að nýrri stjórnarskrá. Hann greindi verk þeirra og niðurstaðan var á nokkuð annan veg en textasmiðirnir höfðu sagt. Ólafur Ragnar átti von á að þingmenn tækju tillögurnar til efnislegrar meðferðar. Það hafa þeir ekki gert enn þann dag í dag en hins vegar ákveðið að leggja sex spurningar fyrir þjóðina í 250 milljón króna skoðanakönnun sem verður 20. október 2012.

Ólafur Ragnar ræddi ekki stjórnlagaráð eða tillögur þess sérstaklega við þingsetninguna 11. september 2012. Að þessu sinni veitti hann þeim sem ráða ferðinni á alþingi, ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar, tiltal í ræðu sinni. Hann segir mikilvægt að alþingi njóti trausts ella sé „hætta á að ákvarðanir glati áhrifamætti. Sé virðingin víðtæk og varanleg verður stjórnkerfið farsælt“.

Á komandi vetri sé nauðsynlegt að taka á vanda alþingis, leita lausna til að efla álit þess meðal almennings. Það sé brýnt fyrir flokka, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu og lík fyrir forseta Íslands því ella muni áfram aukast kröfur um afskipti hans af setningu laga umfram það sem hafi tíðkast. Sagðist hafa heyrt þennan boðskap hjá mörgum í aðdraganda forsetakosninganna.

Þetta er merkileg kenning: Vegna virðingarleysis alþingis eru gerðar ríkari kröfur en ella til forseta Íslands um að hann hafi meiri afskipti af lagasetningu en tíðkast hafi til þessa. Hvað felst í þessum orðum? Að Ólafur Ragnar ætli að skjóta fleiri málum til þjóðarinnar? Hver yrðu önnur afskipti hans af löggjafarstarfinu? Hann dró enga dul á vandann og sagði:

„Í ferðum mínum um landshlutana, í viðræðum nú í vor við tugþúsundir Íslendinga, varð mér æ ljósara að undiraldan fer vaxandi; á síðustu dögum fyrir forsetakosningar var þunginn slíkur að vandi Alþingis var helsta umræðuefnið; alls staðar spurt: Hvað er til ráða?

Forseti lýðveldisins getur ekki rækt störf sín á farsælan hátt nema Alþingi njóti virðingar og trausts meðal þjóðarinnar. […]

Það er því í senn skylda mín í kjölfar kosninganna og einlægur vilji að bjóða liðsinni við að efla á ný virðingu Alþingis, traust þess meðal þjóðarinnar; liðsinni sem falist getur í samræðum, hugmyndasmíð og miðlun reynslu, samstarfi sem þjónar hagsmunum allra – forseta, þings og þjóðarinnar.“

Við hvern ætlar forseti Íslands að ræða þessi mál? Varla við núverandi forsætisráðherra? Ólafur Ragnar hefur harmað í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur að hún vilji færa samskipti þeirra á vettvang bréfaskipta í stað þess að mál séu leyst á trúnaðarfundum. Tveimur ágreiningsefnum þeirra hefur Jóhanna lekið í fjölmiðla til að gera á hlut Ólafs Ragnars: ágreiningi um siðareglur um forsetaembættið og um hvernig hagað skuli fylgd forseta í Leifsstöð.

Ólafur Ragnar og Jóhanna leysa ekki nein mál sameiginlega. Vilji forseti standa við það sem hann segir um liðsinni sitt til að auka veg og virðingu alþingis hlýtur fyrsta verk hans að verða að losa þjóðina við Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Málatilbúnaður hennar og framganga á þingi er helsta ástæða þeirrar kreppu sem þar ríkir og dregur úr virðingu þingsins.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS