Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup sagði í nýárspredikun sinni að vegið væri að öryggi landsmanna í heilbrigðismálum. Á Landspítalanum væri tækjakostur svo bágborinn og úr sér genginn að til vandræða horfði. Þjóðkirkjan ætlaði því að efna til söfnunar fyrir sjúkrahúsið. Enginn sem hlustaði á biskup gat látið sér detta annað í hug en fyrir henni vekti að leggja góðum málstað lið og mælast til þess við presta og aðra að hvetja þjóðina til samstöðu um að efla Landspítalann öllum til góðs.
Nú er komið í ljós að ekki tóku allir því fagnandi að biskup landsins gengi fram fyrir skjöldu í þágu góðs málstaðar. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar alþingis, er hin versta vegna þessara hugmynda biskups eins og heyra mátti í hádegisfréttum ríkisútvarpsins fimmtudaginn 3. janúar. Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri-grænna og formaður fjárlaganefndar alþingis, kveinkar sér undan framtaki biskups á vefsíðu sinni þótt ekki verði þeir kveinstafir raktir hér enda er hann að hverfa af hinum pólitíska vettvangi eftir að hafa stuðlað að falli eigin flokks í könnunum.
Á ruv.is er útskrift á reiðilestri Sigríðar Ingibjargar. Henni þykir „mjög einkennilegt að þjóðkirkjan telji það vera hlutverk sitt að safna fé fyrir Landspítalann eftir að hafa þrýst á um og fengið tugmilljóna aukafjárframlag, vegna meints fjárskorts kirkjunnar“ við gerð fjárlaga ársins 2013. Hvert er samhengið þarna á milli skýrði þingmaðurinn ekki en hún mun leiða annan lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í komandi þingkosningum. Á að skilja þessi orð þannig að kirkjan hefði átt að leggja árar í bát vegna afgreiðslu alþingis á fjárlögum og efna frekar til fjársöfnunar í eigin þágu?
Í gildi er samkomulag milli ríkis og kirkju um fjárhagsleg málefni. Ríkið fór á svig við þetta samkomulag með skerðingum eftir hrun og kirkjan leitast eins og aðrir við að rétta sinn hlut. Að tengja það tækjakaupum fyrir Landspítalann og láta eins og þingmenn hafi velt þeim málaflokki fyrir sér annars vegar og fjármálum kirkjunnar hins vegar er fráleitt.
Sigríður Ingibjörg ræðst einnig að biskupi fyrir að minnast á þetta í nýárspredikun sinni sem þingmaðurinn nefnir að vísu „áramótaspjall“ og lýsir það vel hvaða hug hún ber til helgihalds en orðrétt sagði þingmaðurinn:
„Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að frjáls félagasamtök hafa safnað miklu fé til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og heilbirgðisstofnanir og þau hafa kannski gert það af meiri auðmýkt en kirkjan og ekki básúnað um þessi góðverk sín í áramótaspjalli.“
Að formaður velferðarnefndar tali þannig um það sem af góðum huga er gert og skýrt er frá á prédikunarstóli í Dómkirkjunni þegar biskupinn yfir Íslandi talar á nýársdag til þjóðarinnar lýsir í besta falli virðingar- og þekkingarleysi en í hinu versta illum huga í garð biskups og þjóðkirkjunnar.
Á vefsíðunni ruv.is er fleira haft eftir Sigríði Ingibjörgu sem talin er ein af vonarstjörnum Samfylkingarinnar og var meðal annars orðuð við formannsframboð. Hún er hins vegar yfirlýstur stuðningsmaður Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Á ruv.is er þetta haft eftir henni:
„Mér finnst það nú skjóta svolítið skökku við, ekki það að ég sé ekki þakklát fyrir það eins og aðrir borgarar landsins að það séu keypt tæki á Landspítalann. En í síðustu fjárlögum var bætt við 600 milljónum til tækjakaupa á Landspítalanum. En það var jafnframt, vegna mikils þrýstings frá þjóðkirkjunni, bætt við tugum milljóna til þjóðkirkjunnar, vegna fjárskorts, meints fjárskorts, þar á bæ. Og þá veltir maður fyrir sér, er það eðlilegt að opinber stofnun eins og þjóðkirkjan sem telur sig vera í svo miklum fjárskorti að hún þurfi viðbótarfjárveitingu milli umræðna í fjárlögum, fari í slíka söfnun þegar hún er að þiggja fé frá ríkinu sem hefði annars getað farið í tækjakaup eða niðurgreiðslu skulda. Ég skil vel að þjóðkirkjan vilji láta gott af sér leiða og bæta ímynd sína í leiðinni en spurningin er hvort þetta samræmist hlutverki hennar. Mér finnst það kannski ekkert rangt [að kirkjan standi að fjársöfnun - innskot fréttamanns] en mér finnst það mjög einkennilegt að hún líti á þetta sem hlutverk sitt og er sjálf rekin fyrir ríkisfjármuni og hefur sótt mjög fast á auknar fjárveitingar. Það hefur lengi tíðkast á Íslandi að frjáls félagasamtök hafa safnað miklu fé til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og heilbirgðisstofnanir og þau hafa kannski gert það af meiri auðmýkt en kirkjan og ekki básúnað um þessi góðverk sín í áramótaspjalli.“
Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra og formannsframbjóðandi, sé sammála þessari afstöðu flokkssystur sinnar og stuðningsmanns. Endurspeglar þessi afstaða hug forystu Samfylkingarinnar í garð þjóðkirkjunnar? „Sjálf rekin fyrir ríkisfjármuni“ segir Sigríður Ingibjörg þegar að baki fjárgreiðslna til þjóðkirkjunnar er samningur sem tryggir sjálfstæði hennar í öllum efnum og án þess að skilyrði séu sett fyrir starfi hennar og boðun. Orðalagið gefur til kynna að Sigríður Ingibjörg telji sig hafa eitthvert vald til íhlutunar um innri málefni kirkjunnar í krafti opinberra fjármuna.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...
Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf
„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.
Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrirgreiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...