Föstudagurinn 22. febrúar 2019

Rússneski sendiherrann hótar Dönum kjarnorkuárás - utanríkis­ráðherrann bregst við af hörku - sér­fræðingar segja áróðursstríð geta breyst í vopnuð átök


22. mars 2015 klukkan 10:48

Dönum brá í brún laugardaginn 21. mars þegar Mikhail Vanin, sendiherra Rússlands í Kaupmannahöfn, boðaði í Jyllands-Posten að dönsk herskip kynnu að verða skotmörk rússneskra kjarnorkuflauga ef Danir tækju þátt í eldflaugavörnum NATO. Viðbrögðin við hótuninni hafa verið hörð hjá stjórnmálamönnum og sérfræðingum auk þess sem heimildarmenn innan NATO telja þetta brot á öllum eðlilegum samskiptareglum.

Mikhail Vanin, sendiherra Rússa.

Martin Lidegaard, utanríkisráðherra Dana úr Radikale venstre, róttæka vinstriflokknum (miðjuflokkur), er brugðið vegna hótana sendiherrans eins og sjá má af yfirlýsingu hans:

„Ég verð að segja að greinin vekur djúpa undrun hjá mér. Mér finnst fráleitt að sætta sig við að vera hótað með svo alvarlegum hætti. Ég tel einnig að um sé að ræða rangan boðskap á röngum tíma af því að á þessari stundu reynum við að milda orðræðuna og ágreininginn við Rússa. Þess vegna mælist ég eindregið til þess við rússneska sendiherrann hér á landi en vissulega einnig við ríkisstjórnina í Moskvu að menn hætti hatursorðræðu af þessu tagi og hætti að ógna með hlutum sem eru úr öllu hófi miðað við það sem um er að ræða.“

Martin Lidegaard utanríkisráðherra

Í dönskum fjölmiðlum segir að sérfræðingar sem fylgjast með samkiptum Rússa og Austur-Evrópuþjóða óttist að hraðvaxandi kuldi milli Rússlands og Vesturlanda kunni að leiða til átaka með hefðbundnum vopnum þar sem hótanir og ásakanir séu við að fara úr böndunum.

Minnt er á að í nýlegri heimildarmynd um innlimun Krímskaga í Rússland fyrir réttu ári hafi Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagt að hann hefði verið til þess búinn að setja rússneska kjarnorkuheraflann í viðbragðsstöðu yrði reynt að bregða fæti fyrir áform Rússa á skaganum með hervaldi.

Á árum kalda stríðsins hótuðu sovésk yfirvöld oft Íslendingum með kjarnorkuárás ef Bandaríkjamönnum yrði heimilað að hafa kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli.

Í Jyllands-Posten segir að Karsten Jakob Møller, fyrrverandi sérfræðingur við Dansk Institut for Internationale Studier, DIIS, Dönsku alþjóðamálastofnunina, sem hafi áður verið hermálafulltrúi í sendiráðum Dana í Moskvu, Kænugarði og Minsk hafi áhyggjur af þróuninni:

„Orðræðan verður sífellt skarpari og æsi menn sig upp í nýja krísu kunna þeir auðveldlega að missa stjórn á gangi mála. Leggi stjórnir Vesturlanda til dæmis Úkraínustjórn til vopn og sendi þeim hernaðarráðgjafa munu Rússar líta á það sem stríðsyfirlýsingu. Þá getur eitthvað gerst með hraði án þess að nokkur hafi stjórn á því.

Þá stöndum við frammi fyrir einhvers konar stríðsátökum. Það er vissulega ekki óraunhæft. Þessi krísa er við það að fara af sporinu. Þess vegna hef ég áhyggjur.“

Søren Riishøj lektor við Syddansk Universitet óttast einnig að ágreiningurinn við Rússa kunni að leiða til stríðs. Hann segir við Jyllands-Posten:

„Orðræða rússneska sendiherrans hefur skerpst til mikilla muna á sama tíma og menn standa frammi fyrir auknum áróðri og gagn-áróðri frá báðum hliðum. Rússar er nú veikari og einangraðri en þeir voru í fyrsta kalda stríðinu – þess vegna tala þeir meira um vopnaeign sína og sérstaklega kjarnorkuvopnaeign. Áður höfðu Rússar yfirburði á sviði hefðbundinna vopna, staðan er ekki þannig lengur. Þess vegna ógna þeir æ oftar með kjarnorkuvopnum.

Við verðum að vona að menn láti áróðursstríðið duga svo að allt springi ekki í loft upp, við urðum vitni að því við upphaf frystu heimsstyrjaldarinnar sem hófst með morði í Sarajevo. Verði árekstur í lofti milli flugvélar frá Rússlandi og annarrar frá Vesturlöndum kann ástandið að versna mjög hratt. Í versta tilviki kynni það að leiða til kjarnorkurstríðs í Evrópu.“

Sten Rynning, prófessor og forstöðumaður Center for War Studies við Syddansk Universitet, málar myndina ekki eins dökkum litum:

„Þetta er vissulega hörð og ógeðfelld orðræða hjá rússneska sendiherranum en ég er ekki þeirrar skoðunar að Rússar muni kasta á okkur sprengjum á morgun. Stöðu Rússa í Úkraínu er ekki ógnað og ekkert bendir til að NATO hefji stríð vegna Úkraínu. Þess vegna hef ég ekki miklar áhyggjur af stríði einmitt á þessari stundu.

Samband okkar við Rússa er hins vegar slæmt og þess vegna verðum við að læra að taka á málum með hliðsjón af því að við getum ekki lengur litið á Rússa sem samstarfsaðila. Við verðum að læra hvernig við náum utan um núverandi ágreining. Í því felst að NATO-ríkin neyðast til að móta nýja Rússlands-stefnu.“

Sten Rynning segir að rússneski sendiherrann hafi látið hin hörðu ummæli falla í Jyllands-Posten laugardaginn 21. mars að vel yfirlögðu ráði og í samráði við ríkisstjórnina í Moskvu. Tilganginum hafi auk þess verið náð:

„Þetta er þaulhugsuð aðgerð og Rússar hafa ansi góða tilfinningu fyrir því hvernig þeir geta haft áhrif á almenningsálitið í öðrum löndum. Ég held að boðskapurinn hafi langvinn áhrif. Það tókst bæði að hafa áhrif á stjórnmálamenn í Kristjánsborg [danska þinginu] og almenning á þann veg að skapa þyrfti breiðara jafnvægi í stefnu okkar í öryggismálum.

Stóra spurningin er hver verða viðbrögð jafnaðarmanna og radíkala en orðum Rússa er beint til þeirra.“

Jyllands-Posten segir að allan laugardaginn hafi boðskapur sendiherrans verið aðalfréttin í dönskum fjölmiðlum auk þess sem hann hafi vakið athygli meðal annars í Noregi og höfuðstöðvum NATO í Brussel.

Ekki leið langur tími þar til Oana Lungescu, talsmaður NATO, brást við orðum sendiherrans og sagði við Jyllands-Posten:

„Danmörk er traust NATO-ríki og NATO mun verja öll bandalagsríkin gegn hvaða ógn sem er. Við höfum sagt á skýran hátt að langdrægum varnareldflaugum NATO er ekki beint gegn Rússlandi eða nokkru öðru landi heldur er þeim ætlað að vera vörn gegn eldflaugaógn. Ákvörðunin var tekin fyrir löngu og við undrumst að sendiherra Rússlands í Danmörku skuli velja þennan tíma, þennan tón og þessi orð í yfirlýsingu sinni. Yfirlýsingar af þessu tagi efla hvorki traust né stuðla að trú á frið og stöðugleika.“

Heimildarmenn Jyllands-Posten hjá NATO segja að líta beri á yfirlýsingar sendiherrans sem lið í árásargjörnum áróðri Rússa um alla Evrópu. Fyrir skömmu vakti athygli að sonur sendiherra Rússlands gagnvart NATO í Brussel skrifaði langa, rökfasta grein í nemendablað Evrópu-skólans í Brussel til að réttlæta innlimun Rússa á Krím.

Pólverjar og Tékkar hafa áður sætt hótunum frá Rússum vegna mannvirkjagerðar í löndum þeirra í þágu eldflaugavarna NATO.

Bj. Bj.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleira í stjórnmálavaktinni

Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópu­vaktarinnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópu­vaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópu­vaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópu­sambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópu­sambandsins. Þá hefu...

Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...

Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf

„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætis­ráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.

Engar haldbærar tillögur um umbætur liggja enn fyrir frá Grikkjum - unnið dag og nótt vegna ótta við greiðsluþrot

Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkis­stjórnar­innar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrir­greiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS