Nýr stjórnmálaflokkur, Zmiana, Breyting, hefur verið stofnaður í Póllandi og gerir sér vonir um að fá allt að 12% fylgi í kosningum síðar á árinu. Flokkurinn er hallur undir Rússa. Formaður hans, Mateusz Piskorski, hafnar fréttum að Rússar sæki inn í Úkraínu, styður aðskilnaðarsinna holla Rússum í Úkraínu, segir að þjóðaratkvæðagreiðslan á Krímskaga hafi verið opin, frjáls og lögleg auk þess sem hann gagnrýnir ríkisstjórn Póllands fyrir að „stofna til árekstra“ og fylgja „and-rússneskri“ stefnu.
Þetta kemur fram í pistli sem Paulina Pacula í Varsjá birtir á vefsíðunni EUobserver þriðjudaginn 24. mars. Hún hefur eftir Piskorski sem er stjórnmálafræðingur að það sé ekki annað en eðlilegt að Rússar styðji aðskilnaðarsinna í Úkraínu þar sem samlöndum Rússa hafi verið hótað af þjóðernissinnuðum Úkraínumönnum.
Bent er á að í landi þar sem ríkisstjórnin gagnrýnir stefnu Pútíns harðlega og berst fyrir að ESB sýni hörku í garð Rússa kunni að vekja undrun að flokkur með þessa stefnu komi fram á sjónarsviðið – það kemur þó sérfræðingum ekki á óvart.
Rafal Chwedoruk stjórnmálafræðingur segir við EUobserver að enginn skuli ætla að Pólverjar standi einhuga að baki ríkisstjórninni í stuðningi hennar við Úkraínustjórn, þá séu skoðanir Pólverja á Rússum einnig skiptar.
Sumir telja að Zmania-flokkurinn sé til marks um að áróður Pútíns nái eyrum stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna í Póllandi. Rússar hafi hert áróðurssókn sína með nýjum stöðvum eins og Sputnik og alls konar vefsíðum. Megi meðal annars nefna síður þar sem Pólverjar eru hvattir til þess að leggja Vilníus, höfuðborg Litháens, að nýju undir Pólland og borgina Lviv í Úkraínu.
Gregorz Schetyna, utanríkisráðherra Póllands, hefur varað við þessum áróðri og þeim sem kosta hann eða standa að baki honum.
Þjóðaröryggisráð Póllands hefur skoðað Zmiana-flokkinn, hverjir standa að honum eða fjármagna, án þess að finna nokkur bein tengsl við Rússland eða Rússa.
Af sögulegum ástæðum hafa margir Pólverjar andúð á Úkraínumönnum, má t.d. rekja það til fjöldamorða í Volhynian eftir að Sovétmenn og nazistar gerðu griðasáttmála og Pólverjum var útrýmt í þessu pólska héraði sem var sett undir Sovétmenn og Úkraínu. Í könnun sem var gerð í mars kom fram að rúmlega þriðjungur Pólverja taldi ástæðulaust að styðja Úkraínumenn í átökum við Rússa. Um 75% Pólverja óttast að ástandið í Úkraínu kalli beina hættu yfir Pólland.
Mateusz Piskorski telur að Zmiana-flokkurinn geti fengið allt að 12% í næstu kosningum. EUobserver segir að stjórnmálafræðingum finnist þetta mat ráðast af of mikilli bjartsýni.
Piskorski stóð á sínum tíma nærri bændaflokknum Samoobrona. Nú ætlar Zmiana ekki síst að höfða til bænda sem eiga um sárt að binda vegna þess að ESB hafi beitt Rússa refsiaðgerðum og þeir síðan brugðist við með því að setja landbúnaðarvörur frá ESB á bannlista.
Þá segist Zmiana ætla að beita sér gegn „bandarískri íhlutun“ í Evrópu og að „Atlantshafssamstarf“ sé vænlegur kostur í efnahags- og öryggismálum.
Kannanir sýna að Pólverjar hafa aldrei stutt aðild að NATO jafnmikið og um þessar mundir. Alls segjast 80% styðja aðild Póllands að NATO en aðeins 3% vilja standa utan bandalagsins.
Stjórnmálaskýrendur segja við EUobserver að ólíklegt sé að Zmiana-flokkurinn fái menn kjörna á þing í kosningunum í Póllandi í október 2015. Til að koma að þingmönnum þurfa flokkar að fá 5% eða meira fylgi.
Líklegt er talið að í kosningabaráttunni verði fleiri en frambjóðendur Zmiana-flokksins sem hafi efasemdir um að standa eigi alfarið með Úkraínumönnum gegn Rússum.
Jan Tomaszewski, þingmaður fyrir Borgaralegan vettvang, mið-hægriflokk forsætisráðherra Póllands, sagði nýlega að Rússar létu ekkert að sér kveða í Úkraínu, öll átökin væru „sök Porósjenkós“ Úkraínuforseta vegna þess að hann vildi „draga Evrópu í þriðju heimsstyrjöldina“.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...
Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf
„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.
Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrirgreiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...