Timo Soini, formaður Sannra Finna, stjórnmálaflokksins sem vann stórsigur í þingkosningunum í Finnlandi á dögunum, ritar langa grein í The Wall Street Journal mánudaginn 9. maí, þar sem hann segist hafa gefið hátíðlegt kosningaloforð um að berjast gegn neyðarlánum til evru-ríkja. Slík lán séu bölvun fyrir Evrópu, bölvun fyrir Finnland og fyrir þjóðirnar sem hafi verið neyddar til að taka þau. Í Evrópu sé óhjákvæmilegt að uppræta þá skaðvalda sem leiði þjóðir og einstaklinga til gjaldþrots.
Soini segir að af opinberri hálfu sé því haldið fram að Grikkir, Írar og Portúgalir eigi við greiðsluvanda að stríða, þess vegna þurfi þeir tímabundið á auknu fjármagni að halda, allt komist í rétt horf fái þeir það. Þessi opinbera útgáfa sé hins vegar lygi sem hafi almenning í Evrópu að fíflum. Hann eigi annað og betra skilið frá pólitískum leiðtogum sínum.
Soini segir að sá sem hagnist á þeirri leið sem farin hafi verið til að halda fjármálakerfi evru-svæðisins gangandi sé ekki litli maðurinn. Haft sé af honum fé og logið að honum til að halda lífi í gjaldþrota kerfi. Hann fái lægri laun og verði að greiða hærri skatta til að leggja fram peningana til að halda lífi í Ponzi-kerfinu. Stjórnmálamenn og bankamenn hafi svarist í banvænt fóstbræðralag: Stjórnmálamennirnir taki sífellt meira fé að láni til að greiða bönkunum sem gjaldi greiðann með því að lána sífellt meira fé til ríkisstjórnanna til að kerfið hrynji ekki.
Í sönnu markaðshagkerfi beri menn tjón af því að taka rangar ákvarðanir. Ekki í þessu tilviki. Frammi fyrir staðreyndum um hrun ofurskuldsettra evru-ríkja hafi leynisamningur verið gerður. Í stað þess að viðurkenna tap vegna rangra fjárfestinga hefi verið ákveðið að láta skattgreiðendur borga brúsann. Leiðirnar sem til þess hafi verið valdar geri Enron að barnaleik. Sumir stjórnmálamenn hafi áttað sig á þessu aðrir hafi orðið skelfingu lostnir.
Peningarnir hafi ekki runnið til þess að styrkja efnahag þeirra ríkja sem hlut eiga að máli, þeir hafi runnið í gegnum Seðlabanka Evrópu og þaðan í hirslur stórra banka og fjárfestingasjóða. Þá stæðist ekki hin opinbera röksemd að skuldsettu þjóðirnar hafi beðið um þessa „hjálp“. Fyrir þær hefði verið eðlilegast að viðurkenna greiðsluþrot og láta einka lánveitendur, hvar sem þeir væru, sitja upp með tap sitt. Nú hafi Brian Lenihan, fyrrverandi fjármálaráðherra Írlands, upplýst að Írar hafi verið neyddir til að taka neyðarlánið. Hið sama hafi komið fyrir José Sócrates, forsætisráðherra Portúgals, þótt hann sé ekki jafnfús til að viðurkenna það.
Soini segir að hið versta fyrir stjórnmálamennina og bankamennina sé að leynimakk þeirra hafi ekki heppnast. Grikkland, Írland og Portúgal séu á hausnum þrátt fyrir það. Þjóðunum muni aldrei takast að styrkja efnahag sinn nægilega mikið til að endurgreiða skuldirnar sem Brussel-valdið hafi lagt á þær undir því yfirskyni að verið væri að bjarga þeim.
Soini leggur til að gjaldþrota bönkum og fjármálastofnunum verði lokað. Endurreisa verði lögmál markaðarins um að menn hafi frelsi til að láta sér mistakast. Sé skattfé notað til að endurfjármagna banka eigi skattgreiðendur að eignast hlut í bönkunum og reka eigi stjórnir bankanna, fyrst verði þó að láta skuldabréfaeigendur bera sinn hluta tapsins.
Hið sama eigi við um ríkisskuldir. Þar verði menn einnig að horfast í augu við staðreyndir og hafa „frelsi til að mistakast“. Afskriftir séu óhjákvæmileg forsenda raunverulegrar endurreisnar. Gjaldþrota ríkjum kunni að verða refsað á mörkuðum en þar sé einnig fyrirgefið á skömmum tíma. Með núverandi aðgerðum sé verið að grafa undan efnahag ríkja Evrópu með hækkun skatta og tilfærslu eigna frá venjulegum fjölskyldum til fjárvana ríkja og banka.
Þetta skaði ekki aðeins efnahag þjóða, þær telji sig einnig sviknar. Valdamennirnir í Brussel segi að Finnar verði að standa við skuldbindingar sínar gagnvart samaðilum sínum að evru-svæðinu en þeir þegi um hvort stjórnmálamenn eigi að standa við orð sín gagnvart eigin kjósendum. Í lýðræðisríkjum, þar sem stjórnað sé að fengnu samþykki fólksins, sé vald fengið að láni. „Við gerum það sem við lofum, jafnvel þótt það kosti kvöldverð í Brussel eða “neikvæða„ fjölmiðlaímynd eða sæti í ríkisstjórninni,“ segir Timo Soini.
Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.