Laugardagurinn 28. maí 2022

The Spectator: Mesta blessun Íslands að standa utan evru-svæðisins


29. júní 2011 klukkan 10:41

Í leiðara síðasta tölublaðs breska vikublaðsins The Specator (25. júní) er undir fyrirsögninni „Tækifæri í kreppu“ talið að David Cameron, forsætisráðherra Breta, hafi einstakt tækifæri til að semja að nýju um aðild að ESB verði til ríkisstjórnar hans leitað vegna frekari aðgerða til að bjarga evru-svæðinu. Í leiðaranum er Ísland nefnt til sögunnar og sagt að þar megi menn þakka sínu sæla fyrir að vera ekki á evru-svæðinu og hafa þar með orðið að ábyrgjast skuldir einkabanka og standa undir greiðslum þeirra með sköttum sínum.

Leiðarinn hefst á því að lýst er söknuði vegna brotthvarfs drökmunar, gjaldmiðils Grikkja áður en þeir tóku upp evru. Með því að fella hana um allt að 50% við núverandi aðstæður hefðu Grikkir boðið öðrum þjóðum ódýr sumarleyfi og leyst skuldavanda sinn á þann veg að nágrannar þeirra hefðu orðið fyrr lágmarkstjóni. Eins og Rússar 1998 og Argentínumenn 2002 hefðu Grikkir sigrast á sársaukafullum vandræðum sínum á fljótvirkan hátt. Nú sitji þeir hins vegar uppi með þau hörmulegu mistök að hafa tekið upp evruna og búi þess vegna við kreppu, þeir geti hvorki greitt skuldir sínar né fellt gengið til að brjótast út úr vandanum með auknum útflutningi og fjölgun ferðamanna.

The Spectator fagnar því að Bretar geti horft á grísku kreppuna úr fjarlægð. Þeir hafi aldrei látið blekkjast af áróðrinum um ágæti myntsamstarfsins. Með aðild að því hefðu Bretar afsalað sér öflugustu efnahagsvopnum þjóðarinnar: valdinu til að ákveða vexti og til að fella gengi í kreppu. Gengissig pundsins síðan 2009 hafi verið helsti drifkrafturinn í bresku efnahagslífi.

Blaðið telur að ekki líði á löngu þar til aðrar þjóðir Evrópu taki að öfunda þá sem ráði yfir eigin gjaldmiðli. Stjórnendur á evru svæðinu beiti Grikkja aðferðum sem líkist helst sadisma. Neyðarlánin til Grikkja gagnist grísku þjóðinni ekki neitt, þeim sé ætlað að þjóna hagsmunum franskra og þýskra banka sem lánuðu Grikkjum fé. Þetta fé verði aldrei endurgreitt að fullu. Grikkir verði greiðsluþrota á einn eða annan veg. Það sé aðeins spurning um tíma. Til að bjarga evru-svæðinu séu þeir látnir þjást lengi og af miskunnarleysi.

Óttinn á evru-svæðinu sé mikill, falli Grikkland sökkvi Írland og síðan Portúgal, þá Ítalía jafnvel einnig Spánn. Greiðslugetu Seðlabanka Evrópu séu sett takmörk af því að ekki sé endalaust unnt að kreista fé út úr þýskum skattgreiðendum. Þjóðverjar kunni að verða hinir fyrstu sem ákveði að yfirgefa evru-svæðið.

The Spectator vill að David Cameron nýti tækifærið verði Bretar beðnir um að styðja nýjar reglur innan ESB til að bjarga evrunni og semji um nýja aðild Bretlands að ESB og á þann veg að hún samrýmist vilja bresku þjóðarinnar. Nú sendi Bretar meira fé til aðstoðar ESB en samanlagt til þjóða í Afríku og Asíu. Kostnaður við að vera í ESB-klúbbnum hafi tvöfaldast en ekki sé unnt að segja hið sama um hagnaðinn af aðildinni. Rannsóknir á vegum ESB sýni að 60% Breta telji að aðild að ESB „hafi ekki orðið til hagsbóta“ fyrir þá.

Undir lok leiðarans segir The Spectator:

„Í síðustu viku seldi íslenska ríkið skuldabréf í sérstöku útboði fyrir 1 milljarð dollara til erlendra fjárfesta og tókst það með því að greiða þeim aðeins 4,9% vexti. Þetta er sama ríkið og var þar til fyrir skömmu samnefnari fyrir eitraðar fjárskuldbindingar. Ríkisstjórn landsins neitaði að ábyrgjast skuldir bankanna og neyddi þá þess í stað til erfiðs uppgjörs við kröfuhafa sína. Mesta blessun Íslands var að standa utan evru-svæðisins og eiga því ekki aðgang að neinum lánum. Hefði landið verið í þeirri stöðu hefði ríkið örugglega verið pínt til að nota skattfé almennings til að greiða skuldir bankanna.

Tilraunin með evru-svæðið er að renna sitt skeið. Þjóðríkið er komið til sögunnar að nýju. Bretar eiga mikið verk fyrir höndum við að endurheimta þann hluta fullveldis síns sem hefði aldrei átt að færa í hendur annarra. Ríkisstjórnin þarf að semja áætlun um þessa endurheimtu, jafnvel þótt það þurfi að semja hana með leynd [...] Ef Cameron lætur þetta tækifæri ganga sér úr greipum verður ekki auðvelt að fyrirgefa honum.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS