Mánudagurinn 27. júní 2022

Norski dómsmála­ráðherrann ber lof á lög­regluna - verjandi segir Breivik geðveikan


26. júlí 2011 klukkan 14:22

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, segir við NTB-fréttastofuna að hann muni beita sér fyrir því að lögreglunni verði veitt aukið fé til að rannsaka spengjutilræðið og fjöldamorðin föstudaginn 22. júlí auk þess til að takast á við öryggisráðstafanir og annað sem nauðsynlegt sé eftir voðaverkin.

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs.

Dómsmálaráðherrann hitti yfirmenn lögreglunnar á fundi að morgni þriðjudags 26. júlí til að ræða framgang mála eftir atburðina 22. júlí. Lögreglan hefur sætt gagnrýni meðal annars vegna þess hve viðbragðstími hennar vegna skotárásarinnar í Úteyju var langur. Storberget telur enga ástæðu til að gagnrýna lögregluna.

„Ég er tilbúinn til að ræða allar hliðar á viðbrögðum lögreglunnar en frá mínum bæjardyrum séð hefur lögreglan tekið mjög vel á málinu. Lögreglan hefur einnig gefið viðhlítandi skýringar vegna þess sem sætt hefur gagnrýni,“ sagði dómsmálaráðherrann eftir fundinn.

Í norska blaðinu Aftenposten er minnt á gagnrýni á lögregluna vegna þess hve langan tíma tók fyrir hana senda menn í Úteyju. Þá hafi einnig verið spurt hvers vegna sérsveit lögreglunnar hefði ákveðið að aka og síðan bíða eftir „eigin bát“ til að komast út í eyjuna þar sem Breivik beindi skotvopnum sínum að unga fólkinu og drap það.

Johan Fredriksen hjá lögreglunni í Ósló sagði mánudaginn 25. júlí að það hefði tekið sinn tíma fyrir lögregluna að koma eigin þyrlu á loft vegna sumarleyfa og sparnaðar. Þá hefði þyrlan hvort sem er ekki getað flutt sérsveitina. Það hefði þurft að kalla á þyrlu frá hernum. Til þessa hafi ekki verið samþykkt að þyrla hefði aðsetur í Ósló sagði Fredriksen.

„Allt hefur sinn tíma og nú einbeitum við okkur að því að bjarga þeim sem urðu fyrir árás,“ sagði dómsmálaráðherrann.

„Lögreglan á miklar þakkir skildar frá allri norsku þjóðinni fyrir einstaka framgöngu hennar,“ sagði ráðherrann.

Anstein Gjengedal, lögreglustjóri í Ósló, fagnaði heimsókn ráðherrans, hún styrkti sig og samstarfsfólk sitt.

Verjandi segir Breivik geðveikan

Geir Lippestad lögfræðingur Anders Behrings Breiviks

Geir Lippestad, verjandi Anders Behrings Breiveiks, sem sakaður er um fjöldamorð í Noregi, segir að umbjóðandi sinn sé geðveikur. „Hann telur sig vera í stríði og þegar menn séu í stríði sé þeim leyfilegt að ganga fram á þennan hátt. Hann telur að heimurinn skilji ekki viðhorf sitt en muni gera það eftir 60 ár,“ segir Lippestad við erlendar fréttastofur.

Lögfræðingurinn segist hafa hitt skjólstæðing sinn þrisvar og varið mörgum klukkustundum með honum eftir að hann tók málið að sér.

„Allt bendir til þess að hann sé geðveikur. Hann er ekki eins og við hin.“

Lögfræðingurinn segir að Breivik sé undrandi á því að sér hafi tekist að myrða unga fólkið í Úteyju. Hann hafi búist við að verða handtekinn. Blaðið VG segir að hann hefði búist við að verða skotinn eftir sprengjutilræðið.

Breivik hefur sagt lögfræðingi sínum að í Noregi séu tvær sellur á sínu bandi og fleiri erlendis. Hann vill ekki upplýsa neitt frekar um þessar sellur en telur að þær undirbúi nýja árás.

Lippestad leggur áherslu á – eins og saksóknari – að það sé ekki á sínu færi að leggja mat á hvort Breivik sé í raun geðveikur, þar komi réttargeðlæknar til sögunnar. Breivik hefur verið úrskurðaður í átta vikna gæsluvarðhald þar af fjórar vikur í algjörri einangrun.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS