Í skrifstofu kanslara Þýskalands í Berlín eiga menn tæplega nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á ákvörðun George Papanadreous, forsætisráðherra Grikklands, um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skuldbindingar Grikkja til lausnar á skuldavanda þeirra og evru-svæðisins. Hið sama er að segja um þýska þingmenn. Hvorki þeir né aðrir ráðamenn í Berlín vita hvaðan á sig stendur veðrið eftir að talið var að á leiðtogafundi evru-ríkjanna í Brussel fyrir tæpri viku hefði loks tekist að skapa ró á fjármálamörkuðum. Nú væri allt í lausu lofti að nýju og í kauphöllinni í Frankfurt hefði verð á bréfum lækkað um 5%.
„Þetta verður okkur öllum dýrkeypt,“ sagði háttsettur embættismaður sem ég hitti síðdegis 1. nóvember í kanslaraskrifstofunni, glæsilegri byggingu sem hýsir 500 starfsmenn og stendur skammt frá þinghúsinu við Brandenborgarhliðið.
Hann taldi ákvörðunina varpa skugga á leiðtogafund G20 ríkjanna í Cannes 3. og 4. nóvember. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefði ætlað að nota hann til að hefja viðræður um efnahagsmál upp fyrir evru-svæðið, nú beindist athygli allra að nýju að því. Hvernig tekið yrði á málum þar og hvort Kínverjum eða öðrum kæmi til hugar að leggja evrunni lið þegar slíku uppnámi væri valdið.
Þegar ég spurði hvort ekki lægi beinast við að Grikkir færu af evru-svæðinu minnti hann á að Angela Merkel hefði heitið því að Grikkland yrði áfram evru-land, vissulega kynni það að breytast. Vandinn væri sá færi Grikkland yrði Ítalía næsta „evru-fórnarlamb“ markaðanna. Í Þýskalandi eins og annars staðar á evru-svæðinu er talið æskilegt að sem fyrst verði gengið til kosninga á Ítalíu til að fá þar starfhæfa ríkisstjórn. Ekki þurfi annað en segja orðið Berlusconi til að minna menn á að Ítalía væri í raun forystulaus.
Í þriðja lagi taldi embættismaðurinn að með ákvörðuni sinni hefði Papandreou skapað tortryggni og óvissu að nýju sem mundi ráða meiru á mörkuðunum en trú manna á að unnt yrði að framkvæma það sem ákveðið var í Brussel í síðustu viku. Löngum hefði verið sagt að taka yrði skjótar ákvarðanir til að bregðast við markaðsaðstæðum. Nú yrði ekkert gert í margar vikur eða mánuði á meðan beðið væri niðurstöðu í Grikklandi.
Áhrifamaður meðal þýskra þingmanna sagði ákvörðun Papandreous, forsætisráðherra Grikklands, um að boða þjóðaratkvæðagreiðslu um samningana sem hann hefði gert við evru-ríkin til að bjarga eigin þjóð úr skuldakreppu væri stórundarleg og áhættusöm. Undarleg vegna þess að hann hefði ekki gefið neitt slíkt til kynna á leiðtogafundi evru-ríkjanna í Brussel fyrir tæpri viku. Áhættusöm vegna þess að við blasti gjaldþrot Grikklands ef aðstoð annarra ríkja yrði hafnað, Grikkir yrðu þá ekki lengur gjaldgengir á evru-svæðinu.
Þingmaðurinn sagði að í Þýskalandi væri nógu erfitt fyrir stjórnmálamenn að sannfæra eigin kjósendur um réttmæti þess að veita Grikkjum aðstoð þótt slíkar uppákomur ættu sér ekki stað. Hann taldi víst að Papandreou yrði fyrir miklum þrýstingi um að falla frá þessum áformum sínum. Hins vegar sýndist sér að allar slíkar tilraunir yrðu árangurslausar. Forsætisráðherrann hefði þegar stigið of örlagaríkt skref til að hörfa til baka.
„Hvað myndi gerast ef við ákvæðum hér að spyrja fólkið?“ spurði þingamaðurinn og benti út um gluggann á glæsilegri skrifstofu í skjóli þinghússins mikla við Brandenborgarhliðið. „Við vitum að það er ekki sjálfsagt mál að mati kjósenda okkar að leggja Grikkjum lið, við gerum það samt, öxlum ábyrgð og stöndum við orð okkar.“
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.