Sunnudagurinn 29. maí 2022

Úrslitatilraun Grikklandsforseta til að koma á nýrri ríkis­stjórn - annars þingkosningar í júní


12. maí 2012 klukkan 18:25

Karolos Papoulias, forseti Grikklands, á nú engra annarra kosta völ en að hefja bein afskipti af stjórnarmyndun í landinu eftir að þrjár tilraunir formanna jafnmargra flokka til stjórnarmyndunar hafa mistekist. Heppnist forsetanum ekki að leggja grunn að stjórn verður gengið að nýju til þingkosninga í Grikklandi.

Evangelos Venizelos, formaður Pasok og Karolos Papoulias, forseti Grikklands.

Forseti Grikklands boðaði laugardaginn 12. maí formenn stjórnmálaflokka landsins til fundar sunnudaginn 13. maí. Fyrst ætlar forsetinn að hitta formenn þriggja stærstu flokkanna eftir kosningarnar 6. maí, Antonis Samaras frá Nýja lýðræðisflokknum (mið-hægri), Alexis Tsipras frá Syriza, bandalagi róttækra vinstri manna, og Evangelos Venizelos frá Pasok, jafnaðarmannaflokknum.

Að fundi með þessum þremur loknum ætlar forsetinn að hitta formenn fjögurra annarra flokka sem fengu menn á þing í kosningunum. Þetta eru flokkar yst til hægri og vinstri, nasistar og kommúnistar.

Grísk stjórnlög gera ráð fyrir að formenn þriggja stærstu flokkanna fái umboð til stjórnarmyndunar. Takist þeim ekki að mynda stjórn kemur í hlut forsetans að leiða flokka saman til samstarfs. Mistakist honum ber að efna til kosninga að nýju.

Jafnaðarmenn og Nýi lýðræðisflokkurinn vilja að staðið verði við neyðarsamninga við ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en Syriza er á móti samningunum.

Papoulias mun reyna að sannfæra að minnsta kosti einn smáflokk til að taka höndum saman við Nýja lýðræðisflokkinn og Pasok um myndun ríkisstjórnar. Venizelos gaf til kynna að hugsanlega tækist sér að semja við Lýðræðislega vinstrisinna um aðild að stjórn en flokkurinn ræður yfir 19 af 300 þingmönnum. Flokkurinn hafnaði hins vegar stjórnaraðild án þátttöku Syriza.

Takist Papoulias ekki að koma nýrri ríkisstjórn á laggirnar verður að boða til nýrra kosninga, annaðhvort 10. eða 17. júní. Ein skoðanakönnun bendir til þess að Syriza, sem nú er annar stærsti flokkurinn, kunni að skjóta stærsta flokknum, Nýja lýðræðisflokknum, ref fyrir rass.

Grikkir búa nú við samdrátt fimmta árið í röð og framkvæmdastjórn ESB breytti föstudaginn 11. maí hagspá sinni með neikvæðari horfum en áður árið 2012, spáir hún 4,7% efnahagssamdrætti.

Náið er fylgst með framvindu grískra stjórnmála í höfuðborgum annarra ríkja, einkum evru-ríkjanna. Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði laugardaginn 12. maí að Grikkir yrðu að halda óbreyttri stefnu:

„Ef ný grísk ríkisstjórn mundi einhliða hafna neyðarsamkomulaginu yrði ekki um frekari evrópska neyðaraðstoð að ræða. Við viljum að Grikkir sigrist á vanda sínum. Þess vegna leggjum við þeim lið. Grikkir verða hins vegar að standa við loforð sín,“ sagði Westerwelle við Die Welt 12. maí.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS