Miðvikudagurinn 25. maí 2022

Schengen-stríð milli ríkis­stjórna og framkvæmda­stjórnar ESB og ESB-þingsins - ríkis­stjórnir unnu fyrstu orrustuna - málið fyrir ESB-dómstólinn


10. júní 2012 klukkan 12:37

Innanríkisráðherrar ESB ríkjanna komust að þeirri niðurstöðu fimmtudaginn 7. júní að þeir ættu að eiga síðasta orðið um hvort loka ætti landamærum einstakra Schengen-ríkja tímabundið í öryggisskyni. Niðurstaðan vekur hvorki fögnuð innan framkvæmdastjórnar ESB né í ESB-þinginu.

Til þessa hafa einstök ríki getað tekið upp tímabundið eftirlit við landamæri sín við sérstakar aðstæður. Íslenska dómsmálaráðuneytið ákvað að gera það fyrir fáeinum árum til að stöðva komu Vítisengla til landsins. Þá var ákvörðunin tilkynnt til Brussel. Pólverjar hafa ákveðið að grípa til eftirlits við landamæri sín núna vegna EM í knattspyrnu til að koma í veg fyrir að fótboltabullur streymi til landsins. Þá er heimilt að taka upp eftirlit samkvæmt núgildandi reglum vegna náttúruhamfara eða til að verjast hryðjuverkamönnum.

Almenna Schengen-reglan er hins vegar sú að unnt er að ferðast vegabréfalaus á milli aðildarríkjanna sem eru auk ESB-ríkja (utan Bretlands og Írlands) Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss.

Á ráðherrafundinum í Lúxemborg fimmtudaginn 7. júní varð niðurstaðan sú að ásókn flóttamanna gæti einnig leitt til þess að gripið yrði til landamæraeftirlits. Fyrst höfðu menn áhyggjur af straumi flóttamanna til Ítalíu frá ríkjum Norður-Afríku, nú beinist athyglin að Grikklandi.

Grikkjum hefur ekki tekist að tryggja landamæri sín gagnvart Tyrklandi. Vegna aðildar Grikklands að Schengen geta þeir flóttamenn sem komast inn í Grikkland haldið áfram ferð sinni til hvaða lands sem er á Schengen-svæðinu.

„Ástandið er þannig á landamærum Grikklands og Tyrklands að það verður að grípa til sérstakra ráða til að bregðast við því,“ segir Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis.

Í þessu skyni hafa innanríkisráðherrarnir samþykkt neyðarreglur sem grípa má til „þegar eftirlit við ytri landamæri duga ekki lengur vegna sérstakra aðstæðna“.

Hans-Peter Friedrich, innanríkisráðherra Þýskalands, leggur áherslu á einn þátt málsins: „Lokaákvörðun í málinu er í höndum ríkisstjórnar viðkomandi lands því að við berum ábrygð á öryggi borgara okkar.“

Að formi til verður málum þannig háttað áfram að meðmæli þarf frá framkvæmdastjórn ESB eða ráðherraráði ESB þegar tekin er ákvörðun um landamæraeftirlit en viðkomandi ríki þarf ekki að hlíta þeim meðmælum.

„Við getum ekki sætt okkur við að einhver annar taki ákvörðun um landamæraeftirlit,“ segir Simonetta Sommaruga, innanríkisráðherra Sviss. Svisslendingar eru hvorki í ESB né EES.

Þessi skoðun svissneska ráðherrans gengur þvert á sjónarmið Ceciliu Malmström, innanríkismálastjóra ESB. Hún segir að með henni sé grafið undan Schengen-samstarfinu.

„Komi til þess við sérstakar aðstæður að taka verði upp eftirlit,“ segir hún „verður um sameiginlega ákvörðun innan Evrópusambandsins að ræða; eitt ríki getur ekki tekið slíka ákvörðun.“

Malmström barðist fyrir því að um sam-ESB ákvörðun yrði að ræða enda væri ekki unnt að færa fyrir því nein rök að flóttamannastraumur til þessa ógnaði almannahagsmunum. Hún óttast að neyðarreglurnar leiði til misnotkunar og þeim verði beitt gegn frjálsri för fólks. Það ætti að verja þann „evrópska árangur“ sem náðst hefði með Schengen-samstarfinu.

Innanríkisráðherra Þýskalands lítur viðfangsefnið ekki jafn alvarlegum augum og Malmström. Hann segir að ráði ríki ekki lengur við að tryggja landamæri sín eigi fyrstu viðbrögð að snúa að því að aðstoða það við að loka ytri landamærunum.

„Neyðarreglunum yrði ekki beitt fyrr en allt annað hefði mistekist, þær yrðu í raun neyðarúrræði,“ segir ráðherrann.

Í huga framkvæmdastjórnar ESB og ESB-þingsins snýst málið hins vegar um mikilvæga meginreglu. Hver skuli eiga síðasta orðið: einstakt ríki eða ríkjahópurinn undir merkjum ESB.

Ríkin hafa á þessu stigi máls unnið orrustuna við framkvæmdastjórn ESB um Schengen en stríðinu er þó ekki lokið. Ráðherrarnir hafa ef til vill ekki verið með hugann við ESB-þingið sem telur sig hafa verið sniðgengið við töku þessara ákvarðana og íhugar að fara með málið fyrir ESB-dómstólinn.

„Við leggjum til að ESB-dómstóllinn skoði lagalega hlið málsins,“ segir Manfred Weber, þýskur þingmaður kristilegra demókrata á ESB-þinginu. Hann er í sama flokki og innanríkisráðherra Þýskalands og sýnir að viðhorfin eru ólík eftir því hvort menn líta á málið frá ESB-sjónarhóli eða þýskum.

Stuðst við Deutsche Welle

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS