Laugardagurinn 28. maí 2022

Kýpur: Ríkis­stjórnin óttast harðar kröfur þríeykisins vegna neyðarláns - ágreiningur um niðurskurð og skattahækkanir


14. nóvember 2012 klukkan 20:53

Demetris Christofias. forseti Kýpur, sagði miðvikudaginn 14. nóvember að skilyrði sem sett væru vegna neyðarláns frá þríeykinu, ESB, Seðlabanka Evrópu (SE) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), væru hörð og erfitt yrði að samþykkja þau.

Demetris Christofias

„Þetta verða erfiðar samningaviðræður eins og við héldum en pólitísk skilyrði sem þríeykið setur valda okkur erfiðleikum,“ sagði forsetinn í ræðu sem hann flutti á fundi með fulltrúum viðskiptalífsins. Hann sagði að vissulega skipti tíminn miklu en þó væri hitt mikilvægara að komast efnislega að niðurstöðu sem félli að efnahagslífi Kýpur og aðstæðum bankakerfisins. „Efnisleg ákvæði samningsins munu ákvarða framtíð lands og þjóðar á næstu árum,“ sagði forsetinn.

Vakin er athygli á að orð hans stangast á við það sem Vassos Shiarly. fjármálaráðherra Kýpur, sagði í Brussel þriðjudaginn 13. nóvember þegar hann sagðist vænta þess að niðurstaða lægi fyrir í viðræðum við fulltrúa þríeykisins „fyrir lok vikunnar“.

Í frétt AFP kemur fram að svo virðist sem ríkisstjórnin sé óánægð með kröfurnar um niðurskurð opinberra útgjalda og að arðbær ríkisfyrirtæki beri að selja. Fulltrúar þríeykisins komu til Kýpur föstudaginn 9. nóvember og hafa farið í saumana á rekstri ríkisins og kynnt sér erfiða stöðu banka landsins.

Í fjölmiðlum heimamanna telja menn að þetta verði ekki fyrsta og eina ferð fulltrúanna til eyjarinnar heldur þurfi fleiri heimsóknir og fundi til að meta hve mikið fé sé nauðsynlegt til að endurfjármagna bankana.

Kýpverjar fóru fram á neyðarlán í júní þegar stærstu bankar landsins, Cyprus Popular Bank og Bank of Cyprus, fullnægðu ekki skilyrðum um eigið fé vegna þess hve þeir höfðu tapað miklu á viðskiptum við Grikki.

Í fjölmiðlum er sagt frá skjali sem sýni að ríkisstjórn Kýpur vilji frekar hækka skatta en skera niður eins og þríeykið vill. Ekki hefur neitt verið birt opinberlega um fjárþörf Kýpverja en sérfræðingar telja að fjárhæðin sé hærri en 10 milljarðar evra eigi hún að duga til að endurfjármagna kýpverska bankakerfið. Efnahagur Kýpur er talinn nema 18 milljörðum evra.

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að minnka skuldastöðuna um rúmlega milljarð evra í árslok 2016. Þríeykið vill að fyrir árslok 2015 verði skuldahalinn minnkaður um 1 milljarð evra, einkum með niðurskurði ríkisútgjalda, 80% með niðurskurði og 20% með skattahækkunum. Þríeykið er sagt vilja lækka laun ríkisstarfsmanna um 15% og útgjöld til velferðarmála um 10%, stöðva vísitölutengingu og skattleggja ellilífeyri.

Ríkisstjórnin hafnar þessu, segir að slíkar aðgerðir valdi aðeins meiri efnahagslægð. Ríkisstjórnin vill að 60% sé náð með niðurskurði en 40% með skattahækkunum, þar á meðal verði virðisaukaskattur hækkaður um 2% í 19% árið 2014. Eldsneytisgjald verði hækkað um 5% og 150 milljónir evra skornar af ríkisaðstoð.

Framkvæmdastjórn ESB spáir samdrætti á Kýpur um 2,3% af VLF árið 2012, 1,7% 2013 og 0,7% 2014. Fjármálaráðuneyti Kýpur segir VLF muni minnka um 2,12% 2012 og ríkissjóðshalli verði innan við 5% af VLF, en hann var 6,3% árið 2011.

Kýpverjar hafa ekki getað fengið lánsfé á fjármálamörkuðum síðan árið 2011 þegar matsfyrirtæki settu landið í ruslflokk.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Bólgan vex en hjaðnar samt

Nú mæla hagvísar okkur það að atvinnuleysi fari vaxandi og jafnframt að verðbólgan færist í aukana. Það er rétt að atvinnuleysið er að aukast og er það í takt við aðra hagvísa um minnkandi einkaneyslu, slaka í fjárfestingum og fleira. Það er hinsvegar rangt að verðbólgan sé að vaxa.

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS