Franskir fjölmiðlar þögðu um heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar foresta Íslands til Frakklands í síðustu viku fyrir utan blaðið Le Figaro sem birti fimmtudaginn 28. febrúar frétt um Frakklandsferð forsetans og birti af honum mynd með François Hollande Frakklandsforseta. Þar er tekið fram í upphafi að forseti Íslands sé ekki málsvari aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Le Figaro segir að annað ástand ríki á Íslandi en í Evrópu sem þjökuð sé af kreppu. Þrátt fyrir hrun fjármálakerfis sem hafi verið tífalt stærra en landsframleiðsla Íslands sé efnahagur þjóðarinnar að ná sér á strik, nú sé hagvöxtur 2,2% annað árið í röð og atvinnuleys sé 5,4%, en það er meira en 10% í Frakklandi. Íslendingar hafi nýlega unnið sigur á ESB í dómsmáli í hinni erfiðu Icesave-deilu.
Í fréttinni er minnt á að Ólafur Ragnar hafi verið kjörinn forseti Íslands í fimmta sinn sumarið 2012. Sagt er að hann haldi fram þeirri stefnu sem Íslendingar hafi mótað til að sigrast á kreppunni og segi hana eiga að verða ráðamönnum annarra Evrópulanda fyrirmynd. Haft er eftir Ólafi Ragnari:
„Við fórum ekki eftir bókinni. Við létum bankana verða gjaldþrota, tókum upp gjaldeyrishöft og við höfum ekki fylgt sambærilegri aðhaldsstefnu og ráðið hefur ferðinni í mörgum Evrópuríkjum. Við höfum lagt áherslu á að verja velferðarkerfið einkum á sviði mennta- og heilbrigðismála.“
Le Figaro segir að hina hröðu endurreisn á Íslandi megi rekja til mikillar lækkunar á gengi krónunnar sem hafi ýtt undir útflutning. „Á mörgum sviðum, í sjávarútvegi, nýrri tækni, ferðaþjónustu hefur samkeppnisstaðan batnað,“ segir Ólafur Ragnar.
Le Figaro segir að þessi reynsla Íslendinga og fjármálakreppan sem ekki sé lokið á evru-svæðinu valdi því að Íslendingar séu ekki að flýta sér inn í ESB og því síður að taka upp hina samgeinilegu mynt. Bent er á Ólafur Ragnar hafi efasemdir um ágæti ESB. Hann segir:
„Við höfum á fjörutíu árum þokast frá því að vera þróunarland til þess að verða ein auðugasta þjóð Evrópu með litla, sjálfstæða mynt í hendinni.“ Ólafur Ragnar minnir á að næstu nágrannaþjóðir Íslendinga, Grænlendingar og Norðmenn, hafi snúið baki við Evrópusambandinu. „Fyrir utan Finna sem nota evru hafa norðlægar þjóðir Evrópu valið aðra leið. Og þar er ástandið nú betra en meðal þjóða annars staðar í Evrópu,“ segir Ólafur Ragnar.
Le Figaro segir að Íslendingar hafi stigið skref til náins sambands við ESB með aðild að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og þeir fái á þann hátt aðgang að innri markaði ESB og verði að innleiða reglur sem gildi um hann. Nú fari fram aðildarviðræður við ESB en gert hafi verið hlé á þeim fram yfir þingkosningar í apríl, enn sé ólokið að ræða viðkvæmustu viðræðukaflana um sjávarútveg. Úrslit kosninganna muni ráða framhaldi málsins.
Almennt gerðu frönsk stjórnvöld ekki mikið veður út af heimsókn Ólafs Ragnars. Cecile Duflot húsnæðismálaráðherra tók á móti forsetanum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hún kemst einkum í fréttir þegar rætt er um málefni húsnæðisleysingja og hrakhólafólks í París. Þá vakti hún þjóðarathygli fyrir að klæðast gallabuxum á fyrsta ríkisstjórnarfundinum sem hún sat.
Ef litið er til frétta í frönskum blöðum af íslenskum stjórnmálum hefur hæst borið undanfarið að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi kynnt áform að setja upp „klámskjöld“ um Ísland í netheimum.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.