Laugardagurinn 28. maí 2022

Bruno Le Maire: Þjóðum Evrópu líður illa - ESB sýnir „yfirlætisfullt afskiptaleysi“ og ýtir undir lýðskrumara


10. mars 2013 klukkan 11:31
Bruno Le Maire

Úrslit þingkosninganna á Ítalíu sem leitt hafa til stjórnarkreppu og óvissu meðal Ítala og innan evru-svæðisins eru ekki aðeins til marks um að ítalska þjóðin hafi fengið sig fullsadda af efnahagsþrengingum heldur eru þau einnig viðvörun út á við um að Ítalir hafi fengið nóg af afskiptum annarra og íhlutun. Þetta segir Bruno Le Maire, þingmaður mið-hægri manna (UMP) á franska þinginu og fyrrverandi Evrópu- og landbúnaðarráðherra í forsetatíð Nicolas Sarkozys.

Bruno Le Maire hefur nýlega sent frá sér bókina Jours de pouvoir (Dagar valdsins) þar sem hann lýsir gangi mála í stjórnartíð Sarkozys. Rætt er við Le Maire í franska blaðinu Le Monde sem dagsett er sunnudaginn 10. mars. Hér eru kaflar úr viðtalinu í þýðingu Evrópuvaktarinnar.

Le Monde (LM): Hvaða lærdóm dragið þér af kreppunni á Ítalíu?

Bruno Le Maire (BLM): Ítalíu var stjórnað í eitt ár af manni sem þjóðin hafði ekki kosið. Þegar Mario Monti var tilnefndur forsætisráðherra í lok árs 2011 sagði ég: „Gætið ykkar, með þessu er tekin mikil pólitísk áhætta.“ Með atkvæði sínu vildu Ítalir ekki aðeins senda skilaboð til elítunnar í eigin landi, þeir vildu einnig segja: „Við, þjóðin, viljum sjálf ráða örlögum okkar.“ Raunar hefði hvaða Evrópuþjóð sem er ástæðu til að senda frá sér þessi boð, þar á meðal Frakkar.

LM: Er þetta áhyggjuefni?

BLM: Já, en þetta eru einnig heilbrigð viðbrögð: þetta er ákall um meira lýðræði. Þjóðum Evrópu líður illa. Unga fólkið eygir enga framtíð. Atvinnulausir kveikja í sér fyrir utan skráningarstöðvar. Góðgerðastofnanir hafa ekki lengur undan við að aðstoða þá sem eiga ekki málungi matar. Hvað gerir Evrópusambandið? Það sýnir yfirlætisfullt afskiptaleysi. Afstaða þess ýtir undir lýðskrumara. Evrópu [ESB] verður ekki bjargað nema með annars konar Evrópu [ESB].

LM: Má ekki rekja samdráttinn, atvinnuleysið í Evrópu, að hluta til frú Merkel sem vill þröngva sínu kerfi á aðrar þjóðir?

BLM: Þetta er röng greining. Andstætt því sem menn segja vilja Þjóðverjar ekki að ráða lögum og lofum í Evrópu. Þeir vilja ekki taka pólitíska forystu í Evrópu. Þeir vilja trúverðuga samstarfsaðila. Þeir hafa þörf fyrir öflugt Frakkland. Þess vegna verðum við að hafa hraðan á við að öðlast efnahagslegan trúverðugleika. Okkur tekst það ekki nema kynnt verði til sögunnar nýtt efnahagslegt og félagslegt módel.

LM: Hefur [François] Hollande [Frakklandsforseti] ekki einmitt kynnt það til sögunnar með samkeppnissáttmálanum og þeirri stefnu að ná jöfnuði í ríkisfjámálum á árinu 2017?

BLM: François Hollande talar, hugur hans er hins vegar meira bundinn við að tryggja frið innan Sósíalistaflokksins (PS) en við ástandið í Frakklandi. Hann hefur horfið frá því markmiði að hallinn á ríkissjóði verði innan við 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) á þessu ári, hann ætlar hafna róttækum breytingum í þágu samkeppnishæfninnar. Ég er agndofa yfir seinlæti hans. Hann er eins og Godot: hann bíður eftir að hagvöxtur komi að nýju til sögunnar, hann heldur að hann komi af sjálfu sér og hann nái þannig endurkjöri. Hann er holdgervingur uppgjafar og afneitunar.

LM: Felst afneitun í að minnka ríkisútgjöld um 60 milljarða evra á fimm árum?

BLM: Frakkar heyra ekki talað um annað en skatta. Þjóðin býr við þennan úrelta boðskap: „Við saumum að hinum ríku og hagur hinna fátæku batnar.“ Staðreyndin er að hinir ríku hverfa á braut og fátæktin hverfur ekki.[…]

Lítillega er skorið niður í ríkisútgjöldum án þess að svarað sé grundvallarspurningum um hlutverk ríkisins, fjármögnun eftirlauna og félagslega aðstoð. François Hollande hefur enga burði til að endurskilgreina módel okkar og samstarfsþjóðir okkar átta sig á því.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS