Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands, viðurkennir að hann hefði aldrei fengið þýsku þjóðina til að samþykkja upptöku evru í atkvæðagreiðslu og segir að hann hafi beitt sér „eins og einræðisherra“ til að knýja innleiðingu hinnar sameiginlegu myntar.
Þetta kemur fram í viðtali við Kohl sem tekið var árið 2002 og er birtist sem hluti af doktorsritgerð sem Jens Peter Paul hefur skrifað og fyrst kom út nýlega. Sagt er frá efni hennar á vefsíðunni EUobserver þriðjudaginn 8. apríl. Kohl segir að hugmyndin að baki evrunni hafi verið að útiloka styrjöld í Evrópu.
„Þjóðir með sömu mynt hafa aldrei háð stríð sín á milli. Sameiginleg mynt er meira en peningar sem menn nota í viðskiptum,“ sagði hann.
Kohl rifjar upp að Françcois Mitterrand Frakklandsforseti og aðrir evrópskir leiðtogar hafi hvað eftir hann hvatt hann til að vinna að framgangi hugmyndarinnar um sameiginlega mynt sem hafi ekki verið mjög vinsæl í Þýskalandi.
„Þeir töldu – og höfðu rétt fyrir sér – að samþykkti þýska ríkisstjórnin ekki evruna mundi enginn gera það. Um stöðuna í Þýskalandi sögðu þeir: komi Helmut Kohl þessu ekki í gegn getur það enginn. Ákvarðanir voru teknar á grunni þessarar grunnafstöðu,“ sagði Kohl.
Meðal þeirra ákvarðana sem kanslarinn þurfti að taka á þessum tíma var að halda fast í völd sín og víkja ekki fyrir hinum vinsæla innanríkisráðherra sínum, Wolfgang Schäuble fyrir þingkosningarnar árið 1994. Kohl segir að Schäuble, núverandi fjármálaráðherra Þýskalands, hefði ekki getað knúið evruna í gegn meðal þingmanna.
„Schäuble er framsúrskarandi maður, enginn efast um það, en þetta var ekki verkefni fyrir nýliða, til að ljúka því þurfti mann með óskorað áhrifavald,“ sagði Kohl.
Kohl var kanslari Þýskalandi frá 1982 til 1998 og hann segir að það hafi tekið hann „mörg ár“ að skapa traustið og samningsstöðuna til að sannfæra evrópska leiðtoga um hugmyndir sínar og hrinda þeim í framkvæmd.
„Og þetta bar árangur meðal annars með bankanum í Frankfurt,“ sagði Kohl og vísaði þar til þess að Frakkar og Bretar samþykktu að Seðlabanki Evrópu yrði í Frankfurt.
Þegar unnið var að tilkomu evrunnar urðu til stjórnmálaflokkar í Þýskalandi til varnar þýska markinu og meðal kristilegra demókrata, flokksbræðra Kohls, var stuðningur við evruna hálfvolgur. Kohl segir að við þessar aðstæður hafi verið vonlaust að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og fá evruna samþykkta.
„Ég vissi að ég hefðí aldrei unnið þjóðaratkvæðagreiðslu hér í Þýskalandi. Við hefðum tapað öllum almennum atkvæðagreiðslum um upptöku evrunnar. Það er er ljóst. Ég hefði tapað,“ sagði hann.
Kohl segir að kannanir hafi sýnt um 70% andstöðu meðal almennings. Jafnaðarmenn sem voru í stjórnarandstöðu hefðu ekki snúist gegn evrunni en þeir hefðu „örugglega ekki gengið fram á vígvöllinn og barist fyrir evrunni“.
Þá hefðu Austur-Þjóðverjar sem loksins gátu handleikið Deutsche Mark sem eigin mynt aldrei samþykkt að láta markið af hendi og fá í staðinn nýja evrópska mynt.
„Að lokum næst aldrei árangur í fulltrúalýðræði nema einhver standi upp og segi: svona eiga hlutirnir að vera. Ég tengi feril minn við slíka pólítíska afstöðu. Þá höfðar maður til hóps af fólki innan eigin flokks sem segir: Falli hann, fell ég líka. Að lokum snýst þetta ekki um evruna – lífsskoðun kemur til sögunnar.
Ég vildi að evran kæmi til sögunnar af því að í henni fólst að ekki yrði til baka snúið við evrópska verkefnið … í mínum huga var evran tákn fyrir framþróun Evrópu,“ sagði Kohl.
Hann viðurkennir að hann hafi verið „eins og einræðisherra“ við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Þegar hann var spurður hvort hann hafi samþykkt evruna til að tryggja stuðning Frakka við sameiningu Þýskalands svaraði hann:
„Engin fleiri stríð – það var fyrsta boðorðið. Það skipti mestu fyrir menn eins og Mitterrand og Kohl sem stóðu saman hönd í hönd árið 1984 á vígvellinum í Verdun. Þetta snerist ekki fyrst og fremst um sameiningu Þýsklands.“
Kohl bar lofsorð á Danielle, eiginkonu Mitterrands, sem sagði eiginmanni sínum að hafa ekki að engu óskir Austur-Þjóðverja um að sameinast löndum sínum í vesturhluta landsins.
„Mitterrand stóð ekki á sama um sameiningu Þýskalands. Forseti lýðveldisins fékk gögnin frá Quai d'Orsay [franska utanríkisráðuneytinu] og þar var ekki stuðningur við sameiningu Þýskalands. Betra væri að halda þeim [Þjóðverjum] eins fámennum og kostur væri,“ sagði Kohl.
Að lokum hafði eiginkona Mitterrands betur. Berlínarmúrinn féll og Þýskaland sameinaðist að nýju árið 1990. Kohl var hylltur sem kanslari endursameiningarinnar. Enn er á hann deilt fyrir að hafa innleitt evruna án þess að njóta til þess nægilegs almenns stuðnings. Litið er það sem undirrót stöðugs vanda innan evru-svæðisins að evrunni var ekki fylgt eftir með efnahagslegum samruna.
Heimild: EUobserbver, höfundur Valentina Pop
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.