Sunnudagurinn 29. maí 2022

Stefan Füle vill rækta sérstakt samband Íslands og ESB á grundvelli aðlögunarviðræðnanna og EES-samstarfsins - vinsamlegar viðræður við Gunnar Braga Sveinsson


13. júní 2013 klukkan 18:08
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkísráðherra og Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, á blaðamannafundi í Brussel 13. júní 2013.

Ṥtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, gaf til kynna á blaðamannafundi í Brussel með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra síðdegis fimmtudaginn 13. júní að finna mætti leið til öflugra og nánara samstarfs við Íslendinga á grundvelli þess sem áunnist hefði í ESB-viðræðunum og EES-aðild Íslands. Fyrir blaðamannafundinn hafði Gunnar Bragi gert stækkunarstjóranum grein fyrir ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að gera hlé á ESB-viðræðunum. Vinsamlegur gagnkvæmur tónn var á blaðamannafundinum.

Füle hóf blaðamannafundinn með því að árétta að ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar sem Gunnar Bragi hefði kynnt sér breytti engu um stefnuna sem Evrópusambandið hefði mótað gagnvart Íslandi. Sambandið væri áfram reiðbúið til að ræða aðild Íslands og innan þess væru menn sannfærðir um að viðræðunum mætti ljúka á viðunandi hátt. ESB virti hins vegar lýðræðislega ákvörðun Íslendinga og mundi nú bíða eftir niðurstöðu í ferlinu sem ríkisstjórnin ætlaði að hefja á heimavelli. Mati á gangi viðræðnanna og stöðunni innan ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikilvægt væri að Íslendingar tækju ákvörðun eftir „proper reflection“ að vandlega athuguðu máli án þess að menn ætluðu sér „unlimited time“, ótakmarkað tíma, til þess.

Gunnar Bragi skýrði afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar. Báðir stjórnarflokkar hefðu kynnt þá kosningastefnu að gera ætti hlé á viðræðunum og ekki halda þeim áfram nema með samþykki þjóðarinnar. Þetta væri lýðræðisleg ákvörðun og hann hefði kynnt hana fyrir Füle á „very fruitful“ – mjög gagnlegum fundi þeirra. Íslendingar vildu eiga náið samstarf við Evrópusambandið og það væri stefna ríkisstjórnarinnar. Dagsetning atkvæðagreiðslu hefði hvorki verið ákveðin né um hvað yrði spurt.

Björn Malmquist, fréttamaður ríkisútvarpsins, spurði Füle hvort hann hefði orðið fyrir persónulegum vonbrigðum við að heyra boðskap nýs „prime minister“ frá Íslandi en með orðum sínum ætlaði Björn að vísa til utanríkisráðherra.

Füle hugsaði sig um en sagði að skipta mætti svari sínu á milli persónunnar Füle og framkvæmdastjórans Füle, persónan hefði orðið fyrir vonbrigðum en framkvæmdastjórinn væri fagmaður sem virti vilja lýðræðislega kjörinna fulltrúa og vilja kjósenda. Hann vitnaði til orða Gunnars Braga um vilja til náins samstarfs við ESB og sagðist vona að á grunni þess sem áunnist hefði í aðildarviðræðunum til þessa og reynslunnar af þeim mætti standa þannig að málum að tengsl Íslands og ESB yrðu sterkari en ekki veikari og það tækist að „strengthen the priviliged partnership“ – að styrkja hið sérstaka samband sem hefði skapast á undanförnum árum.

Þá spurði blaðakona hvort Füle liti á það sem ágalla á aðlögunarferlinu að Íslendingar hefðu hætt viðræðunum, ekki væri unnt að líta á ákvörðun ríkisstjórnarinnar og andstöðu meirihluta Íslendinga við aðild á annan veg en þann að þeir vildu ekki inn í ESB.

Gunnar Bragi svaraði og sagði að ástæðulaust væri að túlka ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar sem vantraust á ESB-aðlögunarferlið, ákvörðunin fæli það ekki í sér heldur hitt að gert yrði hlé á viðræðunum og staðan endurmetin.

Í lokaorðum sínum endurtók Füle það sem hann hafði áður sagt að reisa yrði náin samskipti við Íslendinga á því sem áunnist hefði í ESB-viðræðunum til þessa og einnig með hliðsjón af EES-aðildinni en innan ramma hennar hefðu Íslendingar innleitt ESB-ákvarðanir sem ekki hefðu verið innleiddar í öllum ESB-ríkjum og hefði hann orðið undrandi fyrir skömmu þegar það rann upp fyrir honum. Sameiginlega yrði unnið að leiðum til að styrkja samband Íslands og ESB þrátt fyrir hlé á aðildarviðræðunum.

Blaðamannafundurinn stóð í 10 mínútur.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS