Laugardagurinn 28. maí 2022

Viðskipta­viðræður ESB og BNA: Harka hlaupin í deilur milli Barrosos og Hollandes vegna fyrirvara um menningarmál


18. júní 2013 klukkan 12:30
José Manuael Barroso og François Hollande

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sætir harðri gagnrýni franskra stjórnvalda vegna ummæla í viðtali við dagblaðið The Internartional Herald Tribune (IHT) sem birtist mánudaginn 17. júní þar sem hann segir það „afturhaldssemi“ að Frakkar vilji halda hljóð- og myndframleiðslu utan fríverslunarsamnings ESB og Bandaríkjanna. Viðræður um samninginn hefjast í Washington í júlí og verður Barroso í forystu viðræðunefndar ESB.

„Hér er um að ræða stefnu gegn alþjóðavæðingu og ég tel hana hreint og beint afturhaldssama,“ segir Barroso í viðtalinu við IHT. Í frönskum blöðum er rifjað upp að á sínum tíma hafi Barroso, sem nú telst til mið-hægrimanna, verið trotskýisti og þá hafi hann oft notað orðið „afturhaldssamur“ eða réactionnaire um andstæðinga sína.

Le Monde segir að menn séu orðlausir af undrun vegna þessara ummæla í Elysée-höll, frönsku forsetahöllinni. Þegar François Hollande Frakklandsforseti kom á G8 fundinn á Norður-Írlandi mánudaginn 17. júní sagðist hann ekki trúa því að forseti framkvæmdastjórnar ESB talaði þannig um tillögur Frakka eða evrópskra listamanna. Hollande sagði að menningarmál hefðu alltaf verið undanþegin í viðskiptaviðræðum og engin ástæða væri til að hverfa frá því núna í viðræðum við Bandaríkjamenn. Le Monde segir að um þetta sé samstaða meðal fjölda forystumanna á vinstri og hægri væng franskra stjórnmála og þetta sjónarmið njóti einnig stuðnings á ESB-þinginu.

„Við höfum hvorki skipað okkur í varnarstöðu né ræður íhaldssemi ferð og því síður afturhaldssemi. Nú er það framkvæmdastjórnin sem er einangruð vegna öfga-frjálshyggju sinnar,“ segir Aurélie Filippetti, menningarmálaráðherra Frakka. Jean-Christophe Cambadélis, alþjóða- og Evrópuritari franska sósíalistaflokksins og varaforseti Evrópska sósíalistaflokksins, fer ekki leynt með skoðun sína, annaðhvort dragi Barroso ummæli sín til baka eða hverfi úr embætti.

Le Monde segir að þessi atburðarás nú sé aðeins einn liður í röð atvika sem hafi leitt til sífellt meiri ágreinings milli framkvæmdastjórnar ESB og frönsku ríkisstjórnarinnar, einkum um viðskiptamál. „Barroso hefur málað sig út í horn. Frá pólitísku sjónamiði er það ekki mjög skynsamlegt af hans hálfu,“ segja samstarfsmenn Frakklandsforseta. Þeir minna á að mikill meirihluti ESB-þingmanna styðji afstöðu Frakka til viðræðnanna við Bandaríkjamenn. „Það verður ekki gengið lengra vilji menn starfa saman af heilindum. Framkvæmdastjórnin er ábyrg gagnvart Evrópubúum, ekki gagnvart Bandaríkjamönnum,“ segja embættismenn í frönsku forsetahöllinni.

Vegna þrýstings frá franska forsetaembættinu hafa nánustu samstarfsmenn Barroso reynt að draga úr spennunni og tjóninu sem orð hans hafa valdið. Þeir segja að hann hafi ekki beint orðum sínum að Hollande og ríkisstjórn hans heldur að listamönnunum sem hafa efnt til aðgerða til stuðnings afstöðu Frakka. Í Le Monde er tekið fram að Barroso sé íhaldssamur og almennt talinn hallur undir Bandaríkjamenn.

Í síðustu viku gengu leikkonan Bérénice Bejo og leikstjórinn Costa-Gavras á fund Barrosos. Þeim þótti hann litlu skila og sendu forseta framkvæmdastjórnar ESB opið bréf að honum loknum þar sem þau lýstu Barroso sem kaldhæðnum, óheiðarlegum og illviljuðum í garð evrópskra hagsmuna.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði á Norður-Írlandi mánudaginn 17.júní að fyrsta viðræðulota vegna viðskiptasamninganna yrði í Washington í júlí. Stefnt er að lyktum viðræðna í árslok 2014. Forsetinn sagðist sannfærður um að unnt yrði að ná samkomulagi. „Það verður rætt um viðkvæm mál fyrir báða aðila en takist okkar að beina athygli að stóru málunum í stað þess að festast í smáatriðum er ég viss um að okkur tekst að ná landi.“ Þessi orð túlka Frakkar sem ábendingu um að Bandaríkjamenn sætti sig ekki við neina fyrirvara vegna hljóð- og myndframleiðslu.

Eftir að viðskiptaráðherrar ESB-ríkjanna 27 komu til móts við sjónarmið Frakka á fundi föstudaginn 14. júní kom í ljós að Frakkar og framkvæmdastjórn ESB voru ekki á einu máli um hvað fælist í samþykkt fundarins. Frakkar segja að hljóð- og myndframleiðslu verði varanlega haldið utan viðræðnanna. Karel de Gucht, viðskiptastjóri ESB, segir að málið verði ekki rætt að frumkvæði ESB en ekki sé unnt að banna Bandaríkjamönnum að hefja viðræður um það og þá muni fulltrúar ESB taka þátt í þeim. Frakkar segjast hafa neitunarvald í þessu máli og framkvæmdastjórnin verði að lúta því.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS