Lengi hefur verið til umræðu hvort verslanir megi vera opnar í Frakklandi á sunnudögum. Ný skýrsla um málið var birt mánudaginn 2. desember. Þar er mælt með að heimilað verði að opna fleiri verslanir en þær þar sem nú er veitt þjónusta á sunnudögum. Hugmyndum um að kollvarpa núverandi kerfi sem heimilar takmarkaða verslunarþjónustu á sunnudögum er hafnað í skýrslunni. Franski forsætisráðherrann segir að „sunnudagur [verði] ekki eins og hver annar dagur“.
Skýrslan var samin undir formennsku fyrrverandi yfirmanns frönsku póstþjónustunnar og þar er áréttað að „sérstaða“ hins hefðbundna frídags skuli varðveitt þótt heimilað verði að opna fleiri verslanir á sunnudögum án tillits til árstíðar. Heiti skýrslunnar er: „Í átt til þjóðfélags sem varðveitir gildi sín en leyfir aðlögun.“
Lagt er til að borgar- og bæjarstjórar fái heimild til hækka þakið á fjölda verslana sem hafi leyfi til að hafa opið allt árið á sunnudögum úr fimm eins og það er núna í tólf.
Löng hefð er fyrir ströngum reglum í Frakklandi um afgreiðslutíma verslana, þar tala menn af alvöru um „le repos dominical“ - sunnudagshvíldina – og gerðar hafa verið ráðstafanir til að vernda sunnudaginn sem hvíldardag. Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands, segir að staðinn verði vörður um þessa hefð.
„Ég er sammála meginviðhorfunum sem birtast í þessari skýrslu, þau eru einnig í samræmi við viðtekið viðhorf fransks almennings. Sunnudagurinn er ekki eins og hver annar dagur og við viljum ekki að hann verði það,“ sagði Ayrault eftir útkomu skýrslunnar.
Eins og málum er nú háttað eru sumar verslanir í París og öðrum stórum borgum Frakklands ekki bundnar af reglunum um lokun á sunnudögum. Ræðst það af því hvort verslanirnar eru á svæði sem þekkt er undir skammstöfuninni PUCE, eða „périmètre d’usage de consommation exceptionnel“ (sérgreint svæði fyrir neytendur). Þá má hafa nokkrar litlar kjörbúðir og nýlenduvöruverslanir opnar á sunnudögum.
Í borgum þar sem íbúar eru fleiri en ein milljón og í ákveðnum hverfum sem njóta vinsælda meðal ferðamanna eða sem njóta hefðbundinna vinsælda meðal viðskiptavina á sunnudögum verður smásölum leyft opna verslanir sínar en með þeirri ströngu kvöð að þeir neyði enga starfsmenn sína til að vinna á sunnudögum. Í skýrslunni er lagt til að starfsmenn eigi lokaorðið um hvort þeir vilji vinna á sunnudögum eða ekki.
Vegna mikils atvinnuleysis í Frakklandi og samdráttar í efnahagslífinu verða þær raddir háværari í Frakklandi sem segja að ekki megi setja óeðlilegar hömlur á þá sem vilja leggja meira á sig en áður til að ýta undir hagvöxt og styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar.
Nathalie Kosciusko-Morizet (þekkt sem NKM), frambjóðandi mið-hægri flokksins, UMP, til borgarstjóra í París í kosningum á næsta ári vill „fjölga“ verslunum í París sem bjóða viðskiptavini velkomna á sunnudögum. Hún telur að á þann hátt megi skapa 10.000 ný störf.
Í flestum nágrannaríkjum Frakklands á meginlandi Evrópu gilda svipaðar takmarkanir og þar um starfsemi verslana á sunnudögum. Reglurnar hafa verið rýmkaðar á Ítalíu, Spáni og í Portúgal eftir að kreppan hófst á evru-svæðinu.
+Hér birtist í heild bréf sem Víglundur Þorsteinsson afhenti í Alþingishúsinu mánudaginn 10. febrúar. Áður hafði Víglundur skrifað Einari K. Guðfinnssyni forseta Alþingis um sama efni.+ Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Hr. formaður Ögmundur Jónasson Í framhaldi af b...
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópuskýrslum, frá Hagfræðistofnun HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...
Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?
Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.
Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu
Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópuþingsins þess efnis að Evrópusambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.
Holland: Útgönguspár benda til að Frelsisflokkur Wilders tapi fylgi
Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsisflokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópuþinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.