Laugardagurinn 25. júní 2022

Utanríkis­ráðherra lýsir miklum vonbrigðum með framgöngu ESB vegna slita IPA-styrkja­samstarfs - spillir sambandi Íslands og ESB


3. desember 2013 klukkan 21:46
Eitt þeirra verkefna sem nýtur IPA-styrks er Katla jarðvangur og þess vegna eru bekkir og borð innan jarðvangsins merkt ESB. Nú verður samstarfinu um jarðvanginn hætt.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lýsti að kvöldi miðvikudags 3. desember mikilli undrun yfir einhliða og fyrirvaralausri ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um að hætta öllum IPA-verkefnum, það er aðlögunarverkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin muni með segja upp þessum samningum með tveggja mánaða fyrirvara og senda bréf þess efnis á næstu dögum.

Utanríkisráðherra sagði um þetta á vefsíðunni klukkan 20.22 miðvikudaginn 3. desember:

„Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu, í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB og sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að Evrópusambandið myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.“

Fyrr miðvikudaginn 3. desember hafði utanríkisráðuneytið birt tilkynningu vefsíðu sinni, þar er ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB lýst sem „óheppilegri“ og hún sé „ekki til þess fallin að styrkja samband aðila“. Hér birtist tilkynning utanríkisráðuneytisins í heild:

„Skrifstofa stækkunarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) hefur einhliða og án fyrirvara tilkynnt ákvörðun um að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin mun segja samningum upp með tveggja mánaða fyrirvara og verða bréf þess efnis send á næstu dögum.

Í erindi sínu til íslenskra stjórnvalda vísar framkvæmdastjórnin til þess að IPA aðstoð við Ísland hafi verið ætlað að styðja við verkefni sem ráðast þyrfti í vegna áforma um aðild að ESB. Í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telji hún ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lýst vilja til þess að þau verkefni sem hafin eru verði leidd til lykta samkvæmt gerðum samningum. Um það virtist ríkja samstaða.

Í samræmi við niðurstöðu fundar stækkunarstjóra ESB og utanríkisráðherra í júní s.l. hafa fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í sumar og haust farið ofan í saumana á hverju verkefni fyrir sig. Fyrir liggur að styrkþegar hafa í öllum tilvikum staðið við gerða samninga og að mati eftirlitsmanna framkvæmdastjórnarinnar uppfyllt kröfur um framvindu verkefnanna.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu, sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að ESB myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.

Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.

Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg og ekki til þess fallin að styrkja samband aðila.

Helstu verkefnin sem um ræðir eru:

• Verkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands um uppbyggingu á NATURA 2000 samstarfsneti á Íslandi og innleiðing vistgerða- og fuglatilskipana ESB,

• verkefnið Katla jarðvangur á vegum Háskólafélags Suðurlands,

• verkefni á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem felst í víðtækum aðgerðum til að efla menntunarstig og atvinnu,

• verkefni á vegum Hagstofunnar.“

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri fréttir

Kolbeinn Árnason: Óþarfi að ræða frekar við ESB vegna afstöðu Brusselmanna í sjávar­útvegsmálum - tvær Evrópu­skýrslur styðja sjónarmið LÍÚ

Kolbeinn Árnason, framkvæmda­stjóri Lands­sambands íslenskra útvegs­manna (LÍÚ) segir að í tveimur nýlegum Evrópu­skýrslum, frá Hagfræði­stofnun HÍ og Alþjóða­mála­stofnun HÍ, komi fram rök sem styðji þá afstöðu LÍÚ að Ísland eigi að standa utan ESB. Þá segir hann óþarfa að ganga lengra í viðræðum við ES...

Norðurslóðir: Risastórir öskuhaugar fastir í ís?

Rannsóknir benda til að hlýnun jarðar og sú bráðnun hafíss, sem af henni leiðir geti losað um 1 trilljón úrgangshluta úr plasti, sem hafi verið hent í sjó og sitji nú fastir í ísbreiðum á Norðurslóðum. Þetta segja rannsakendur að geti gerzt á einum áratug. Meðal þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós er að slíkir öskuhaugar séu að myndast á Barentshafi.

Þýzkaland: Merkel segir ESB ekki bandalag um félagslega þjónustu

Angela Merkel liggur nú undir harðri gagnrýni fyrir ummæli, sem hún lét falla, nú nokkrum dögum fyrir kosningar til Evrópu­þingsins þess efnis að Evrópu­sambandið væri ekki „socialunion“ eða bandalag um félagslega þjónustu.

Holland: Útgönguspár benda til að Frelsis­flokkur Wilders tapi fylgi

Útgönguspár, sem birtar voru í Hollandi í gærkvöldi benda til að Frelsis­flokkur Geert Wilders muni tapa fylgi í kosningunum til Evrópu­þingsins sem hófust í gærmorgun og að þingmönnumhans á Evrópu­þinginu fækki um tvo en þeir hafa verið fimm. Þetta gengur þvert á spár um uppgang flokka lengst til hægri í þeim kosningum.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS