Utanríkisþjónustan hefur reynzt mörgum fyrrverandi stjórnmálamönnum skeinuhætt. Þeim hættir til að missa tengslin við íslenzkan veruleika og sjá tilveruna í þess stað út frá þröngu sjónarhorni diplómata, sem lifa í lokuðum heimi, sem á ekkert skylt við daglegt líf venjulegs fólks.
Það vakti athygli, þegar aðal pólitíski arftaki gömlu kommúnistana á Íslandi, Svavar Gestsson, hætti afskiptum af stjórnmálum og gerðist sendiherra og ekki síður að það gerðist með stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Mörgum þótti það vísbending um að lengi lifði í gömlum glæðum frá myndun nýsköpunarstjórnarinnar á sínum tíma. Svavar reyndist frábær sendiherra eins og við var að búast.
En nú er komið í ljós, að ESB-veiran hefur snert hann eins og skýrt kemur fram í grein hans í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann hvetur til sundrungar í hreyfingum andstæðinga ESB-aðildar, sem flokksbræður hans áttu mestan þátt í að koma á fót og hafa leitt jafnan síðan. Svavar Gestsson hvetur sem sagt til stofnunar sérstakrar hreyfingar andstæðinga ESB, sem séu engu að síður hlynntir umsóknarferlinu. Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð flokksbræðra Svavars, Ragnars Arnalds, sem var helzti hvatamaður að stofnun Heimssýnar, þverpólitískra samtaka, sem vinna gegn ESB-aðild og fyrsti formaður þeirra og Ásmundar Einars Daðasonar, alþingismanns VG og núverandi formanns Heimssýnar verða við þessum hugmyndum Svavars, sem augljóslega stefna að því að kljúfa samtök andstæðinga ESB-aðildar eða eru hugmyndir hans kannski þær að reka alla Sjálfsstæðismenn úr Heimssýn?!
Svavar Gestsson verður að horfast í augu við það að sumarið 2009 hafnaði flokkur hans tillögu, sem fram kom á Alþingi um að þjóðin sjálf tæki ákvörðun um, hvort sækja ætti um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Var hann sammála þeirri afstöðu? Hvers vegna mátti íslenzka þjóðin sjálf ekki taka slíka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Nú liggur fyrir Alþingi tillaga um að draga umsókn um aðild Íslands að ESB til baka. Það er lýðræðislegur réttur þingmanna að bera fram slíka tillögu. Er ekki sjálfsagt að hún komi til atkvæða? Flokksráðsfundur Vinstri grænna, sem haldinn var undir lok júnímánaðar komst að þeirri niðurstöðu, að forsendur hefðu breytzt fyrir aðildarumsókn og þess vegna bæri að efna til sérstaks málþings á vegum VG í haust til þess að taka málið til skoðunar á ný. Svavar Gestsson lýsir umræðum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um að umsóknin verði dregin til baka sem „belgingi“. En hvað um þessa ákvörðun og afstöðu flokksráðs VG. Er þá ekki einhver „belgingur“ fólginn í henni?!
Þær hugmyndir, sem Svavar Gestsson setur fram í grein sinni í dag eru vísbending um vaxandi vandræðagang í forystu VG vegna ESB. Forystumönnum flokksins er ljóst, að yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna Vinstri grænna eru eindregnir andstæðingar aðildar Íslands að ESB. Þeim er ljóst, eins og fram hefur komið í könnunum, að einungis innan við 20% af kjósendum VG eru hlynntir aðild að ESB. Þeir gera sér grein fyrir, að í síðustu þingkosningum fékk VG stuðning frá kjósendum annarra flokka, sem töldu, að VG væri bezt treyst til að berjast gegn aðild Íslands að ESB. Þeim er ljóst að flokkur þeirra er að missa stuðnings þessa fólk.
Allt snýst þetta um að halda ríkisstjórninni saman og til þess eru forystumenn VG tilbúnir til að fórna miklu – of miklu.
En gera þeir sér grein fyrir því, hvað er að gerast í hinum stjórnarflokknum? Samfylkingin er orðin dauðþreytt á samstarfinu við VG, a.m.k. jafn þreytt og VG er á samstarfinu við Samfylkinguna! Þess vegna eru áhrifamenn í Samfylkingunni að hvíslast á um það við áhrifamenn í röðum Sjálfstæðisflokksins, hvort ekki sé rétt að þeir tveir flokkar taki höndum saman til þess að koma uppbyggingu atvinnulífsins í gang á ný, sem VG þvælist fyrir með andstöðu sinni við stóriðju. Og það er ekkert saklaust hvísl.
Forystumenn Vinstri grænna óttast ekkert meir en lenda utan ríkisstjórnar á ný til lengri tíma. En það er ekki bæði hægt að halda og sleppa. Þeir sem það reyna lenda utan garðs að lokum.
Forystumenn Vinstri grænna eiga athyglisverða og eftirsóknarverða (fyrir þá) kosti í þeirri pólitísku stöðu, sem nú er uppi á Íslandi. En þeir sýna engin merki þess, að þeir hafi áhuga á að notfæra sér þau tækifæri. Nema síður sé, eins og grein Svavars Gestssonar í Fréttablaðinu í dag er skýrt dæmi um.
Vinstri grænir standa á krossgötum.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...