Sunnudagurinn 29. maí 2022

Stöðvum ESB-aðlögunarferlið strax - vandræðin vaxa stöðugt


Björn Bjarnason
17. júlí 2010 klukkan 11:30

Lýsingar Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns vinstri-grænna, á því, sem á gekk í þingsalnum 16. júlí 2009, þegar alþingi samþykkti ESB-aðildarumsóknina, eru til marks um, að Samfylkingin lagði líf ríkisstjórnarinnar en ekki hagsmuni þjóðarinnar að veði vegna málsins. Ásmundur Einar segir frá því í Morgunblaðinu 17. júlí, að þingmenn hafi meira að segja verið beittir þrýstingi með sms-boðum undir atkvæðagreiðslunni sjálfri. Hann segir: „Samfelldar sms-sendingar á einstaka þingmenn meðan á atkvæðagreiðslu stóð... innihéldu hótanir um stjórnarslit ef viðkomandi styddi ekki aðildarumsóknina.“

Að ESB-aðildarsinnar berji sér nú á brjóst og lýsi sjálfum sér sem sérstökum lýðræðissinnum, af því að þeir vilji leiða aðlögunarviðræðurnar við ESB til lykta, svo að þjóðin „fái“ að kjósa um niðurstöðuna, er í hróplegri andstöðu við vinnubrögðin, sem var beitt, til að knýja málið í gegn á alþingi. Um þau segir Ásmundur Einar réttilega í grein sinni: „Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð voru í litlum takti við það aukna þingræði, sem báðir stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir.“

Á árinu, sem liðið er, frá því að ESB-aðildarumsókninni var þröngvað í gegnum þing á þennan hátt, hefur sannast, jafnvel skýrar en andstæðingar umsóknarinnar héldu, hve mikið ógæfuspor var stigið.

Gagnrýnt hefur verið, að forgangsraðað sé í þágu ESB-aðlögunarinnar innan stjórnsýslunnar. Önnur verkefni séu brýnni. Fundið hefur verið að því, að mál tengd aðlöguninni séu ekki lögð fyrir Íslendinga á íslensku. Bent hefur verið á, að viðræðunefndin við ESB sé að mestu skipuð jábræðrum aðildarsinna. Nefndarmenn séu í raun sjálfir gengnir í Evrópusambandið og telji hlutverk sitt að draga þjóðina þangað með sér. Eru greinar Þorsteins Pálssonar, viðræðunefndarmanns, skýr sönnun þess. Loks hefur verið vakið máls á óheyrilegum kostnaði við aðildarferlið.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við skilyrðin, sem ESB setur Íslendingum, áður en aðlögunarviðræðurnar sjálfar hefjast. Þrjú liggja þegar á borðinu: Í fyrsta lagi að farið verði að óskum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Í öðru lagi að bundinn verði endir á hvalveiðar Íslendinga. Í þriðja lagi hlíti Íslendingar kröfu ESB og aðildarríkja þess og takmarki veiðar á makríl.

Með ólíkindum er, að enn telji ESB-aðildarsinnar að ýta megi þessum skilyrðum til hliðar, þau skipti ekki máli í því ferli, sem hófst illu heilli fyrir ári. Látið er eins og unnt sé að „kjafta sig“ frá þessum skilyrðum. Sú afstaða fellur vel að þeim málflutningi, að ESB-niðurstaðan að loknum dýrum og langvinnum viðræðum ESB og Íslendinga, komi á einhvern hátt á óvart, af því að ESB muni falla frá grundvallarviðhorfum sínum í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum vegna óska Íslendinga.

Embættismannaveldi ESB er sífellt að festa fleiri rætur hér á landi og býður nú auk þess gull og græna skóga. Eftir því sem á viðræðurnar líður, færir það sig sífellt meira upp á skaftið. Þegar hafa þau boð borist frá Brussel, að embættismenn þaðan ætli að hefja bein afskipti af starfi alþingis og verklagi innan stjórnarráðsins.

Aðdragandi umsóknarinnar, þvinguð afgreiðsla hennar á þingi, aðferðafræðin í aðlögunarviðræðunum, for-skilyrði ESB og íhlutun ESB-embættismannavaldsins með fégjöfum og beinum afskiptum af starfi æðstu stofnana ríkisins, allt mælir þetta með því, að ESB-aðildarumsóknin verði tafarlaust dregin til baka.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS