Sunnudagurinn 29. maí 2022

Línan frá Brussel: þegið, bíðið eftir því, sem að ykkur er rétt


Björn Bjarnason
5. ágúst 2010 klukkan 09:58

Baldur Þórhallsson, prófessor við Háskóla Íslands, ritar grein í Fréttablaðið 5. ágúst, þar sem hann leggur áherslu á, hve góða samningamenn Íslendingar hafi haft í viðræðum við Evrópusambandið til þessa. Íslendingar hafi náð nær öllum kröfum sínum fram í samningaviðræðum við ESB um fríverslunarsamning, EES og Schengen. Telur Baldur árangurinn í raun stórmerkilegan, hann hafi hins vegar ekki náðst átakalaust. Má skilja Baldur þannig, að átökin hafi verið á milli fulltrúa Íslands og erlendra viðsemjenda þeirra. Hér innan lands hafi menn staðið þétt að baki íslenskum samningamönnum til að auðvelda þeim að ná hagstæðri niðurstöðu.

Grein Baldurs endurspeglar áhyggjur í Brussel og meðal ESB-aðildarsinna af því, að gagnrýnt sé, hvernig Össur Skarphéðinsson stóð að því að handvelja og skipa viðræðunefndina um aðild ESB. Þá finnst aðildarsinnum ómaklegt, að vikið sé gagnrýnisorðum að framgöngu einstakra viðræðunefndarmanna til þessa. Baldur segir: „Það að grafa undan samninganefnd Íslands er að grafa undan hagsmunum þjóðarinnar.“

Þetta er einkennilegur málflutningur. Baldur jafnar því á við að „grafa undan hagsmunum þjóðarinnar“, að gagnrýni sé beint að viðræðunefnd Íslands og málflutningi einstakra nefndarmanna, þegar þeir telja verkefni sitt fyrst og síðast að koma Íslandi í Evrópusambandið. Þeir eru sömu skoðunar og Baldur, að þannig sé hagsmunum Íslands best borgið.

Hitt er beinlínis rangt hjá Baldri, að samstaða hafi verið meðal þjóðarinnar um fríverslunarsamning við ESB á sínum tíma eða um aðildina að EES eða Schengen. Minnstur ágreiningur var um aðildina að Schengen. Um hin tvö málin var harkalega deilt á heimavelli. Tekist var á um menn og málefni. Nú krefjast ESB-aðildarsinnar þess hins vegar, að ekki sé haldið uppi neinni gagnrýni, hvorki á viðræðunefnd utanríkisráðherra né málflutning einstakra nefndarmanna, svo að ekki sé talað um hina svonefndu viðræðuafstöðu, hvar sem hana er að finna.

Sé þetta línan frá Brussel á þessu stigi málsins, um leið og ESB-aðildarsinnar slá sér á brjóst með heitstreningum um „upplýsta umræðu“, er ekki mikils að vænta í framhaldinu af málefnalegu framlagi ESB eða aðildarsinna til umræðnanna. Þeir hefðu átt að gefa færi á meiri umræðum á heimavelli, áður en gripið var til þess í fljótræði að senda umsóknina til Brussel. Þá væri meiri samstaða að baki viðræðunefndinni. Þeir hefðu einnig átt að sjá til þess, að utanríkisráðherra veldi aðra en ESB já-bræður í viðræðunefndina.

Samfylkingin knúði ESB-umsóknina í gegn í stjórnarmyndunarviðræðum við vinstri-græna. Þar hétu menn málstaðnum hollustu á bakvið luktar dyr, þrátt fyrir aðrar yfirlýsingar fyrir kosningar. Nú á að banna umræður um form og efni aðildarviðræðnanna í nafni þjóðhollustu.

Línan frá Brussel og ESB-aðildarsinnum er þessi: Hagsmunum Íslands er best borgið með því að málstaður þjóðarinnar sé ekki ræddur á heimavelli. Þjóðin að þegja og bíða eftir því, hvað Brussel-valdið réttir íslensku viðmælendunum, sem eru handvaldir til að koma Íslandi í ESB. Þjóðin getur þá kosið um það, sem að henni er rétt. Fyrir þann tíma mun hafa tekist að búa svo um hnúta með aðlögun, fjáraustri og innrætingu, að þjóðin segi já. Varla dirfast Íslendingar að móðga ESB með því að segja nei?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS