Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu eyða töluverðu púðri og starfskröftum í að útskýra fyrir fólki ágæti Evrópusambandsins. Þetta er óþarfi. Efast einhver um, að það samstarf, sem hófst á milli ríkja á meginlandinu eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari sé ein af merkilegri tilraunum í sögu okkar samtíma? Evrópusambandið varð til, sem aðferð þjóðanna á meginlandi Evrópu, sem höfðu barizt sín í milli með ólýsanlegum hörmungum fyrir íbúa þessara landa til þess að koma á varanlegum friði. Það hefur tekizt að tryggja slíkan frið í 65 ár og engin sérstök ástæða til að ætla að það verði ekki framhald á því.
Hugsunin á bak við Evrópusambandið er einföld og skýr. Að tengja hagsmuni þessara ríkja saman með þeim hætti, að þau hafi ekki ávinning af því að fara með hernaði hvert gegn öðru heldur þvert á móti hafi þau hag af því að vinna saman. Og smátt og smátt hefur þetta samstarf orðið umfangsmeira og nær til fleiri þátta en í upphafi. Sumir þeirra er umdeildari en aðrir. Það á t.d. við um evruna. Í fyrsta sinn eftir að hún var tekin upp hafa vaknað upp alvarlegar spurningar um framtíð hennar. Það er skiljanlegt. Eins og svo margt annað í samstarfi Evrópuríkja varð evran til sem sameiginlegur gjaldmiðill, sem málamiðlun um annað.
Sameining þýzku ríkjanna gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Helmut Kohl keypti stuðning Gorbasjoffs og Sovétríkjanna með 18 milljörðum þýzkra marka, sem Sovétmenn þurftu á að halda. Síðan sneri hann sér að Mitterand, Frakklandsforseta og keypti stuðning hans við sameiningu Þýzkalands með loforði um upptöku evru. Margrét Thatcher barðist til síðasta dags gegn sameiningu. Bandaríkjamenn gátu ekki gert upp við sig, hvort þeir voru hlynntir sameiningu eða ekki – og kannski var þeim alveg sama.
En nú er svo komið, að til er að verða ríkjasamband í Evrópu með 500 milljónum manna, sem á eftir að láta finna fyrir sér á heimsvísu, því að fjárhagslegu bolmagni fylgir aukið pólitískt vald.
Um þetta er enginn ágreiningur. Það er heldur enginn ágreiningur um að Evrópusambandið byggir á göfugri hugsjón.
Ágreiningur hér á Íslandi stendur ekki um það að andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu séu á móti Evrópusambandinu sem slíku. Hann stendur um það, að andstæðingar aðildar telja, að það henti ekki hagsmunum Íslands að verða aðili að Evrópusambandinu. Alveg með sama hætti hafa Norðmenn ítrekað komizt að þeirri niðurstöðu, að það henti ekki hagsmunum Norðmanna að gerast aðilar. Og augljóst, að Bretar eiga erfitt með að gera upp við sig, hvort þeir vilji taka fullan þátt í samstarfinu innan ESB eða ekki.
Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu þurfa því ekki að eyða miklum tíma eða vinnu í að sannfæra andstæðinga aðildar um ágæti ESB sem slíks en þeir mættu eyða meiri tíma í að ræða rökin, sem færð hafa verið fram gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þeir forðast það eins og heitan eldinn að ræða þau rök og það er skiljanlegt vegna þess, að á undanförnum mánuðum hefur komið í ljós að þeir eru rökþrota.
Ísland hefur aldrei verið aðili að styrjöldunum á meginlandi Evrópu. Okkur koma því ekki við þær aðferðir, sem Evrópuþjóðirnar nota til þess að semja um varanlegan frið sín í milli. Bretar reyndu öldum saman að halda sig frá stríðunum á meginlandi Evrópu, þótt þeir ættu að lokum ekki annan kost, hvað eftir annað, en blanda sér í átökin hinum megin við Ermasundið.
Það er engin tilviljun að Ísland og Noregur hafa kosið að standa utan við Evrópusambandið. Þessi tvö ríki ráða yfir auðugustu fiskimiðum á Norður-Atlantshafi og vilja af skiljanlegum ástæðum ekki afhenda öðrum forræði þeirra.
Þar að auki gera Íslendingar sér mæta vel grein fyrir því, að 300 þúsund manns hafa ekki meiri áhrif í 500 milljóna Evrópusambandinu heldur en 100 manna þorp á Vestfjörðum á málefni íslenzku þjóðarinnar.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...