Vatn-orka-umskipun fyrir flutninga til og frá Asíu
Ísland hafði mikla hernaðarlega þýðingu í heimsstyrjöldinni síðar legu sinnar vegna og í kalda stríðinu, sem fylgdi í kjölfarið og stóð í um fjóra áratugi. Þessi hernaðarlega þýðing færði þessari fámennu þjóð áhrif á alþjóðavettvangi langt umfram það, sem ella hefði orðið. Þau áhrif tryggðu okkur sigur í baráttu, sem stóð í aldarfjórðung um yfirráð yfir auðlindunum í hafinu í kringum Ísland auk þess að tryggja okkur sérstöðu á erlendum mörkuðum fyrir afurðir okkar og aðra atvinnustarfsemi, ekki sízt í Bandaríkjunum.
Klaus Naumann, fyrrverandi hershöfðingi í Þýzkalandi, lýsti vel breytingunni, sem varð á stöðu Íslands og stöðu ríkjanna við Norður-Atlantshaf í kjölfar loka kalda stríðsins í erindi, sem hann flutti fyrir nokkru á vegum Samtaka um vestræna samvinnu, þegar hann sagði að öryggismál í okkar heimshluta hefðu mjög fljótlega horfið úr huga ráðamanna á Vesturlöndum og það svæði veraldarinnar, sem við byggjum hefði einfaldlega horfið af hinum pólitíska radar Atlantshafsbandalagsins. Erindi þetta er birt í heild hér á Evrópuvaktinni og er nauðsynleg lesning fyrir alla þá, sem á annað borð hafa áhuga á að skilja þróun alþjóðamála og velta fyrir sér hvað framtíðin kann að bera í skauti sér.
Naumann sagði að vegna nýrra ógnana og aðgerða Atlantshafsbandalagsins á Balkanskaga á tíunda áratugnum hafi áherzlan í störfum bandalagsins beinzt að Miðjarðarhafssvæðinu og enn fjarlægari svæðum.
Þessar breytingar á stöðu heimsmála þýddu jafnframt að Ísland missti þau áhrif, sem við þó höfðum á alþjóða vettvangi og í raun má segja að um nokkurra ára skeið höfum við ekki skipt nokkru máli þar. Sá veruleiki var m.a. staðfestur í þeirri útreið, sem við fengum í fáfengilegri viðleitni okkar til þess að ná kjöri í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Í erindi Klaus Naumanns, sem veitir yfirsýn yfir stöðu mála á heimsbyggðinni allri er hins vegar að finna vísbendingar um að þetta kunni að vera að breytast og auðlindir lands okkar annars vegar og lega þess hins vegar kunni á ný að færa okkur stöðu á alþjóða vettvangi, sem getur skipt máli fyrir þjóðarhagsmuni okkar.
Naumann segir, að aðgangur að orku og öryggi í orkumálum verði eitt af því, sem máli skipti fyrir þjóðir heims í framtíðinni. Svo vill til að orkulindir í fallvötnum og iðrum jarðar eru önnur mesta auðlind okkar Íslendinga. Eins og mál eru að þróast í heiminum er ljóst, að þjóðir, sem búa vel að orku hafa mikla möguleika í framtíðinni. Við erum í hópi þeirra þjóða og tímabært að við mörkum langtímastefnu um, hvernig við viljum nýta þær auðlindir.
Naumann sagði í erindi sínu að það sama ætti við um vatn. Nú þegar þurfi 40% af fólki í heiminum að byggja á drykkjarvatni, sem komi frá öðrum. Einn milljarður manna hafi á þessari stundu ekki aðgang að nothæfu vatni. Alþjóðabankinn spái því að eftirspurn eftir mat muni aukast um 30% fram til ársins 2030, sem þýði, að baráttan um vatnið verði eitt af helztu tilefnum átaka þjóða í milli.
Við erum rík að vatni og tímabært að við mörkum langtímastefnu um það, hvernig við ætlum að hagnýta okkur þá möguleika, sem felast í þeim auðævum.
Þetta tvennt, vaxandi þörf annarra þjóða fyrir orku og vatn, gerir það að verkum að framtíðarhorfur okkar eru góðar en um leið mikilvægt að við kunnum fótum okkar forráð og förum vel með þá möguleika, sem í þessu felast. Í þeim efnum væri skynsamlegt að byggja á reynzlu Norðmanna, sem hafa nýtt sér olíuauðlindir sínar til þess að byggja upp mikinn sameiginlegan sjóð, sem líta má á sem varasjóð norsku þjóðarinnar.
Til viðbótar við þau tækifæri, sem augljóslega felast í yfirráðum okkar yfir orku og vatni vék þýzki hershöfðinginn að opnun siglingaleiðanna á norðurslóðum, sem aðrar þjóðir hafa að vísu meiri aðgang að en við en hann benti á þá stöðu, sem Ísland og Spitsbergen mundi hafa sem umskipunarhafnir. Flutningsskipin, sem munu sigla milli Atlantshafs og Kyrrahafs, milli Evrópu og Asíu þurfa að vera sérstaklega búin fyrir þær siglingar. Og þess vegna skiptir máli að farmar þeirra verði fluttir yfir í önnur og ódýrari skip sem flytji varninginn frá upprunastað og til hins endanlega áfangastaðar. Þar komum við Íslendingar til sögunnar legu lands okkar vegna.
Orkan, vatnið og lega landsins, sem getur orðið lykilþáttur í nýju flutningakerfi, sem byggir á því, að það tekur mun skemmri tíma að flytja vörur norður um en í gegnum Súezskurðinn til austurs gerir það að verkum, að Ísland öðlast á ný mikla þýðingu fyrir umheiminn.
Þessa stöðu verðum við að kunna að nýta. Til þess að svo megi verða þarf að vinna að framtíðarstefnumörkun, sem tekur þessa þrjá meginþætti til meðferðar.
Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Er Alþingi að ræða þessi nýju viðhorf? Er utanríkisráðuneytið að vinna markvisst að þessum hagsmunamálum þjóðarinnar? Er unnið að því af hálfu íslenzkra stjórnvalda að mikilvægi norðurslóða og staða ríkjanna í þessum heimshluta verði þáttur í þeim nýju áætlunum Nató (Strategic Concept) sem á að taka til meðferðar á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Lissabon síðar í haust? Eru stjórnmálaflokkarnir að vinna í þessum málum? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur í áratugi haft forystu í utanríkismálum Íslendinga markað sér stefnu í þessum efnum?
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...