Hér á Evrópuvaktinni hafa verið birt í heild bréf, sem gengu á milli framkvæmdastjórnar ESB og ríkisstjórnar Íslands 7. og 8. október vegna makríldeilunnar svonefndu. Hún á rætur að rekja til þess, að um1,5 milljón lestir af makríl er nú að finna í íslenskri lögsögu. Íslenskum stjórnvöldum hefur til þessa verið neitað um aðgang að fundum svonefndra strandríkja, Noreg og ESB, um skiptingu makrílkvótans. Þau ákváðu því einhliða kvóta í lögsögu sinni fyrir veiðar á þessu ári, 130 þúsund tonn. Færeyingar gripu til sama ráðs innan lögsögu sinnar. Vegna þessa hafa Norðmenn og stjórnvöld ESB haft í heitingum við Íslendinga og Færeyinga. Viðræður fulltrúa strandríkjanna fjögurra verða um málið í London dagana 12. til 14. október. Í tilefni af þeim sendi framkvæmdastjórn ESB íslensku ríkisstjórninni bréf 7. október. Þar með komst makríldeilan á nýtt stig.
Þrír framkvæmdastjórar ESB rita undir bréfið, sjávarútvegsstjórinn, stækkunarstjórinn og viðskiptastjórinn. Það eitt sýnir, að í huga framkvæmdastjórnarinnar snertir makríldeilan starfssvið þessara framkvæmdastjóra. Ekkert er við það að athuga, að sjávarútvegsstjórinn árétti skoðun ESB á málinu. Deilan snýst um stjórn fiskveiða. Að stækkunarstjórinn og viðskiptastjórinn láti sig málið varða sýnir, að málið snýst ekki aðeins um makríl. Embættismennirnir í Brussel tengja makrílinn aðlögunarviðræðum Íslands og ESB og einnig viðskiptahlið samstarfs Íslands og ESB. Skoskir sjómenn hafa beitt valdi til að hindra makríllöndun úr færeyskum skipum í Skotlandi. Þeir hafa krafist viðskiptabanns á Íslendinga og Færeyinga, nafn viðskiptastjórans undir bréfinu ber að skoða í því ljósi.
Í bréfi framkvæmdastjóranna er að finna þennan texta:
„Við treystum því, að þið séuð sammála okkur um, að vandinn vegna makríls er þess eðlis, að hann nær út yfir hreina fiskveiðistjórnun. Takist ekki að finna skjóta lausn kann það að hafa áhrif á trúverðugleika tvíhliða samskipta okkar. Miðað við mikilvægi málsins, vildum við láta í ljós við ykkur einlæga þrá okkar eftir því að finna lausn á deilunni um kvótaskiptinguna.“
Úr diplómatísku orðalaginu verður lesin hótun. Náist ekki viðundandi lausn fyrir ESB um kvótamálið, verður litið til annarra þátta í samskiptum Íslands og ESB. Embættismennirnir vita, að þeir hafa tromp á hendi gagnvart ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur sótt um aðild að ESB. Innan hennar er fólk, sem þráir enn meira aðild að ESB en framkvæmdastjórarnir, að makríldeilan leysist. Í orðunum felst hótun um, að óleyst makríldeila valdi hremmingum í aðlögunarviðræðum ESB og Íslands.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra segja í svarbréf í sínu:
„Við lýsum megnri andstöðu við þá fullyrðingu ykkar, að makrílmálið nái “út yfir hreina fiskveiðistjórnun„. Með því yrði í raun sett hættulegt fordæmi fyrir viðræður um fiskveiðistjórnun almennt.“
Ekki kemur á óvart, að Jón Bjarnason setji nafn sitt undir þennan texta. Hitt vekur meiri athygli, að Össur Skarphéðinsson geri það. Allt undir hið síðasta hefur hann forðast að ræða makrílmálið. Hann hefur látið eins og það sé alfarið á borði annars ráðherra. Hvað veldur sinnaskiptum Össurar? Ritar hann undir bréfið til að halda frið innan ríkisstjórnarinnar? Hefur hann áttað sig á óbilgirni ESB? Sér hann, að fyrir ESB vakir að neita aflsmunar og beita til þess öllum ráðum?
Íslensku ráðherrarnir lýsa „megnri andstöðu“ við málflutning framkvæmdastjóranna þriggja. Ráðherrarnir hefðu einnig átt að mótmæla formi ESB-bréfsins sjálfs og spyrja, hvers vegna í ósköpunum stækkunarstjórinn og viðskiptastjórinn skrifi undir það. Í raun felst meiri hótun í nöfnum þeirra undir bréfinu en því, sem í textanum segir.
Rétt svar íslenskra stjórnvalda við hótunarbréfi ESB er að neita að senda fulltrúa til makrílviðræðnanna í London, nema bréfið sé dregið til baka. Efnt sé þess í stað til viðræðna milli framkvæmdastjóranna þriggja og ráðherranna tveggja til að fá úr því skorið, hvað felst í raun í hótun ESB. Undir henni verða allir makrílsamningar af Íslands hálfu nauðungarsamningar. Að minnsta kosti á meðan hér situr ríkisstjórn, sem hefur ekki dug í sér til að leggja ESB-aðildarumsóknina til hliðar og einbeita sér að lausn raunverulegra hagsmunamála íslensku þjóðarinnar.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...