Miðvikudagurinn 25. maí 2022

Vaxandi andúð á afskiptum annarra


Styrmir Gunnarsson
11. febrúar 2011 klukkan 10:33

Í athyglisverðri grein í Wall Street Journal í dag (sem sagt er frá í frétt hér á Evrópuvaktinni) er fjallað um viðbrögð fólks í ýmsum Evrópulöndum vegna afskipta utanaðkomandi aðila af málefnum þessara þjóða. Krafan um niðurskurð opinberra útgjalda hefur verið ráðandi nánast alls staðar á Vesturlöndum frá því að fjármálakreppan skall yfir á árinu 2008 af fullum þunga. Í mörgum tilvikum hefur þessari kröfu verið fylgt eftir utan frá. Yfirleitt er það Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, sem þar er á ferð, sem skilyrðir aðstoð við ríki með kröfum um að fyrirmælum hans í ríkisfjármálum og efnahagsmálum sé fylgt. Í tilviki evrulandanna kemur framkvæmdastjórnin í Brussel einnig við sögu í samvinnu við AGS svo sem á Grikklandi og Írlandi. Og á bak við þessa aðila stendur þýzka ríkisstjórnin, sem segist ekki veita öðrum evrulöndum stuðning nema þau taki upp breytta stefnu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum.

Yfirleitt gera stjórnmálamenn í þessum ríkjum sér fulla grein fyrir því að ekki er um annað að ræða en skera niður útgjöld í verulegum mæli, þótt skiptar skoðanir séu um hversu langt eigi að ganga. Almenningur í þessum löndum gerir sér áreiðanlega grein fyrir því, að ekki er annarra kosta völ.

En það er athyglisvert að á sama tíma þolir fólk illa afskipti annarra af eigin málum. Í grein Wall Street Journal segir, að almennt sé talið að Sinn Fein, sem er flokkur írskra þjóðernissinna muni bæta við sig verulegu fylgi m.a. vegna þess, að flokkurinn berzt hart gegn afskiptum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins af málefnum Íra.

Þar er einnig bent á að alda andúðar á Þjóðverjum hafi risið á Grikklandi og að einhverju leyti á Spáni vegna yfirlýsinga Þjóðverja um, að ekki sé hægt að ætlast til að þýzkir skattgreiðendur greiði fyrir óráðsíu fólks í þessum löndum.

Wall Street Journal veltir því svo fyrir sér, hvort þessir straumar meðal almennings eigi eftir að brjótast fram í úrslitum kosninga bæði á Írlandi og í öðrum löndum á næstu mánuðum og misserum.

Við þekkjum þessar tilfinningar hér. Þótt fjármálaráðherra hafi tekizt býsna vel að leyna því hve afskipti Alþjóða gjaldeyrissjóðsins af íslenzkum málefnum hafa verið mikil undanfarin misseri hafa einstakir þingmenn VG talað skýrt í þeim efnum og þá ekki sízt Lilja Mósesdsóttir. Víst má telja, að andstaðan við afskipti AGS hér væri enn meiri ef meiri upplýsingar hefðu komið fram um athafnir sjóðsins hér.

Andúðin vegna erlendra afskipta kemur skýrt fram í afstöðu fólks til Icesave-málsins. Þar er alveg ljóst að stórþjóðir eru að reyna að kúga smáþjóð með ýmsum hætti til þess að taka á sig skuldbindingar, sem hún hefur aldrei skrifað undir.

Annars vegar birtist í þessum viðbrögðum bæði hér og annars staðar reiði yfir afskiptum annarra af málefnum þessara þjóða. Hins vegar má greina í þeim tregðu til þess að gangast undir yfirþjóðlegt vald, sem nú stefnir hraðbyri í innan Evrópusambandsins. Þar er unnið að því að koma á fót Bandaríkjum Evrópu. Slíkt ríkjabandalag kann að þjóna vel hagsmunum kjarnaríkjanna í Evrópusambandinu en margt bendir til að það sama eigi ekki við um jaðarríkin.

Það eru fleiri en Íslendingar, sem hafa efasemdir um þá þróun sem er að verða innan ESB.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS