Miðvikudagurinn 25. maí 2022

Ríkis­stjórnin er að falla vegna ESB og Icesave


Styrmir Gunnarsson
23. mars 2011 klukkan 08:14

Ríkisstjórnin er að falla vegna ESB og Icesave. Þetta blasir við. Það má vel vera, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. sitji einhverjar vikur enn en það er framlenging á dauðastríði.

Hvers vegna er fyrstu hreinu vinstri stjórn, sem mynduð hefur verið á Íslandi að mistakast? Hún tók við einhverju erfiðasta búi, sem nokkur ríkisstjórn hefur tekið við en hún hafði það með sér, að almenningur treysti forsætisráðherranum í upphafi til góðra verka og pólitískir andstæðingar lágu í valnum eftir hrunið og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn.

Meginástæðan fyrir því að vinstri stjórnin er að falla er Evrópusambandið. Enn einu sinni kemur það í ljós, að það kann ekki góðri lukku að stýra í samfélagi, sem byggir á lýðræði að ætla að stytta sér leið og þvinga fram niðurstöðu á bak við lokaðar dyr.

Hefði þjóðin fengið tækifæri til sumarið 2009 að greiða atkvæða um það, hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu og meirihlutinn komizt að þeirri niðurstöðu að það bæri að gera, væri staða stjórnarinnar allt önnur í dag. Þá hefðu ekki hafizt þau hjaðningavíg innan Vinstri grænna, sem nú hafa leitt til úrsagnar tveggja þingmanna þeirra.

Samfylkingin mátti ekki til þess hugsa að þessi grundvallarákvörðun um framtíð íslenzku þjóðarinnar yrði tekin af henni sjálfri. Þess í stað beitti hún pólitískum þvingunum til þess að pína fram umsókn á Alþingi. Nú situr hún uppi með afleiðingarnar. Stór hópur Vinstri grænna, alþingismenn, trúnaðarmenn og almennir stuðningsmenn láta ekki bjóða sér svona vinnubrögð.

Þess vegna er ríkisstjórnin að falla og Jóhanna Sigurðardóttir trausti rúin. Innan við 17% landsmanna treysta í dag konunni, sem naut svo víðtæks trausts fyrir tveimur árum.

Evrópusambandið er grundvallarástæðan fyrir þessari stöðu. Svo bættist Icesave við. Saga þess máls er annars vegar skýrt dæmi um ótrúlegt dómngreindarleysi þeirra fjölmörgu, sem þar hafa komið við sögu, sérfræðinga, embættismanna og stjórnmálamanna í flestum flokkum. Það er ekki minni ástæða til að setja á stofn rannsóknarnefnd um Icesave-málið og gang þess en hrunið sjálft.

Það bezta, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon geta gert fyrir það fólk, sem sýnt hefur þeim mikinn trúnað – þ.e. íslenzku þjóðinni – er að standa upp, viðurkenna að þau hafi steytt á skeri og efna til kosninga nú á næstu vikum.

Geri þau það ekki verða afleiðingarnar enn hörmulegri en þær þó eru orðnar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS