Þróun Evrópusambandsins í átt til Bandaríkja Evrópu heldur áfram á fullri ferð. Nýjustu fréttir af þeim vettvangi eru tillögur Jean-Claude Trichet aðalbankastjóra Seðlabanka Evrópu um að komið verði á fót sérstöku fjármálaráðuneyti evruríkja. Þessi þróun er bæði skiljanleg og fyrirsjáanleg. Aðildarríki evrunnar hafa lent í slíkum vanda með efnahagsstjórn einstakra ríkja innan þess samstarfs að þau eiga ekki margra kosta völ. Í raun aðeins tveggja: að fara þá leið sem bæði Trichet og fleiri hvetja til þ.e. að efla samstarfið og gera það stöðugt nánara með samræmdri efnahagspólitík, samræmdri skattlagningu og nú stígur Trichet skrefi lengra og leggur til að komið verði á fót sameiginlegu fjármálaráðuneyti ríkjanna allra.
Hinn kosturinn er auðvitað sá, að Grikkland, Írland og Portúgal segi sig frá evrusamstarfinu og taki upp eigin gjaldmiðil á ný. Umræður um þá leið eiga áreiðanlega eftir að aukast í löndunum þremur. Það er nú orðin almenn skoðun að björgunaraðgerðir ESB/AGS við þessi ríki muni ekki duga. Þar hafi verið tjaldað til einnar nætur en ekki til framtíðar.
Hér hefur áður verið lýst þeirri skoðun, að samstarf ríkjanna á meginlandi Evrópu innan Evrópusambandsins sé einhverri merkasti þáttur í evrópskri sögu vegna þess að stofnun ESB hafi verið eina aðferðin sem hafi dugað til þess að koma á friði á milli þessara ríkja, sem öldum saman höfðu háð styrjaldir sín í milli. Í því samhengi er Evrópusambandið merkilegt samstarf þjóða í milli og ósköp skiljanlegt að sum þessara ríkja vilji ganga lengra á þeirri braut.
Það getur hins vegar hentað sumum þjóðum en ekki öllum en ekkert við það að athuga að þær þjóðir sem telja það henta sér haldi áfram á braut aukins samstarfs. Það er t.d. mjög skiljanlegt að Frakkinn Jean-Claude Trichet tali með þessum hætti. Það eru gífurlegir hagsmunir fyrir Frakkland að halda Þjóðverjum við þetta samstarf. Og fyrir Þjóðverja skiptir það líka miklu máli. Þeir eru ekki búnir að gleyma 20. öldinni í sögu sinni.
En það sem hentar Frökkum og Þjóðverjum og nágrönnum þeirra, sem hafa orðið fyrir barðinu á átökum þeirra tveggja hentar ekki öðrum og alls ekki okkur Íslendingum, sem höfum aldrei átt neinn hlut að þeirri arfleifð, sem þessar þjóðir eru að burðast með.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingar á dögunum boðaði Jóhanna Sigurðardóttir samninga við Evrópusambandið í árslok 2012 og jafnvel upptöku evru. Yrði sú draumsýn hennar að veruleika eru meiri líkur en minni að þá yrði fjármálaráðuneytið íslenzka flutt til Brussel og yrði agnarsmá deild í því sameiginlega fjármálaráðuneyti evruríkja, sem Trichet boðaði í gær- kannski eitt skrifborð einhvers staðar út í horni!
Hentar það hagsmunum okkar Íslendinga? Er ekki kominn tími til að forsætisráðherrann færi einhver rök fyrir því að það henti hagsmunum íslenzku þjóðarinnar að hverfa inn í 500 milljóna manna þjóðarhaf í Bandaríkjum Evrópu? Að hún rökstyðji þá skoðun sína að það henti hagsmunum okkar Íslendinga að verða stjórnað frá Brussel.
Um það snýst þetta mál. Hvort við viljum stjórna okkur sjálf eða láta stjórna okkur frá Brussel. Hvort við viljum hverfa aftur til þeirra stjórnskipunar, sem ríkti hér á Íslandi alla vega fyrir fullveldið 1918 og jafnvel fyrir heimastjórn 1904.
Hver eru rök þess fólks, sem heldur því fram, að það henti hagsmunum okkar sem þjóðar að halda áfram á þessari vegferð?
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...