Við lok kalda stríðsins fyrir rúmlega tveimur áratugum voru skiptar skoðanir um það í lýðræðisríkjum Vesturlanda m.a. hér á Íslandi, hvernig standa ætti að uppgjöri við kommúnismann og glæpaverk hans. Sumir vildu láta kné fylgja kviði þegar í stað. Aðrir voru þeirrar skoðunar, að nóg væri komið af átökum og tími kominn til að skapa friðsamlegra andrúmsloft þjóða í milli og innan einstakra ríkja.
Í þessu ljósi er fundur dómsmálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins sl. föstudag afar athyglisverður. Þar var samþykkt ályktun, sem veitir stuðning Evrópusambandsins við að slíkt uppgjör fari fram í einstökum aðildarríkjum þess, en nokkur þeirra voru meðal leppríkja Sovétríkjanna.
Frá þessu er sagt í frétt hér á Evrópuvaktinni í dag. Þar kemur fram, að það eru Litháar, sem hafa haft forgöngu um að fá slíka samþykkt fram og stuðning aðildarríkjanna í heild við þá afstöðu. Ljóst er af fréttum af þessum fundi, að átökin í Líbýu og Sýrlandi hafa að einhverju leyti verið kveikjan að því, að dómsmálaráðherrar ESB-ríkjanna hafa komizt að þessari niðurstöðu. Víða um heim en ekki sízt í Evrópu er gerð krafa um að einræðisherrar Arabaríkjanna verði látnir standa ábyrgir gerða sinna en bæði Gaddafí og Assad Sýrlandsforseti hafa verið iðnir við það undanfarna mánuði að láta drepa fólk.
Á sama tíma og Evrópuríkin gera slíkar kröfur á hendur alræðisstjórnum í öðrum heimshlutum og reyndar líka nær sér eins og á Balkanskaga hlýtur sú spurning að vakna, hvort þau eigi ekki óuppgerð mál heima fyrir. Og það blasir auðvitað við að svo er.
Í nafni kommúnismans og nazismans voru framin fjöldamorð og það í stórum stíl. Tölur, sem teknar hafa verið saman benda til að mesti fjöldamorðingi okkar tíma hafi verið Maó, formaður í Kína. Í öðru sæti er Jósef Stalín og í því þriðja Adolf Hitler. Lærisveinar þeirra voru svo á ferð á Balkanskaga fyrir aðeins rúmum áratug og nú er verið að draga þá fyrir dóm í Haag.
Uppgjör við nazismann fór fram í Nuremberg að stríðinu loknu og áratugum saman hafa stríðglæpamenn þeirra tíma verið dregnir fyrir dómstóla. Uppgjör við glæpi kommúnismans hefur ekki farið fram og vafalaust er ein af ástæðunum sú, að lykilmenn frá dögum Sovétríkjanna ráða enn ferðinni í Rússlandi og áhrif þeirra í alþjóðamálum mikil. Það kanna að vera að það hafi ekki hentað öðrum hagsmunum Vesturlandaþjóða að ganga of hart fram gagnvart fortíð rússneska lýðveldisins.
Meðferðin á þeim þjóðum, sem búa í Eystrasaltsríkjunum svonefndu, þegar þau voru hernumin af Sovétríkjunum, var hryllileg ekki síður en meðferðin á öðrum þjóðum, sem lutu valdi þeirra. Þess vegna er mjög skiljanlegt að ein þeirra þjóða, Litháar, hafi nú forgöngu um að uppgjör fari fram við þessa fortíð og þeir dregnir til ábyrgðar, sem þátt tóku í þeim glæpum, sem framdir voru í þessum löndum og öðrum í nafni kommúnismans.
Hér á Íslandi hafa umræður um þann anga þessa máls, sem að okkur snýr, verið mjög takmarkaðar frá lokum kalda stríðsins. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. Íslenzka þjóðin var klofin í herðar niður áratugum saman og raunar mest alla 20. öldina vegna þessara alþjóðlegu átaka og tilrauna kommúnismans til þess að ná hér fótfestu.
Bók Þórs Whiteheads, prófessors, sem út kom fyrir síðustu jól um Sovét-Ísland, markar ákveðin þáttaskil í þeim umræðum. Hún kallar á að saga Íslands á 20. öldinni verði endurskoðuð eins og hún hefur verið kennd í skólum landsins. Þór sýnir fram á með sterkum rökum að meiri vopnasöfnun hafi farið fram hér en menn hafa áður gert sér grein fyrir og meiri hætta á ferðum en við höfum gert okkur grein fyrir. Hann sýnir líka fram á, að lögreglumenn urðu fyrir meiri áverkum og voru í meiri hættu en við höfum hingað til horfzt í augu við.
Og auðvitað er ljóst að þeir, sem frömdu glæpina í ríkjum Evrópu áttu sér stuðningsmenn hér, sem ekki fóru leynt með stuðning sinn við það stjórnarfar, sem ríkti í þessum löndum um skeið. Hitler og hans menn áttu sér stuðningsmenn hér en mest fór þó fyrir þeim, sem studdu kommúnismann af heilum hug og voru tilbúnir til að horfa fram hjá þeim glæpaverkum, sem framin voru í hans nafni. Þar voru á ferð málsmetandi Íslendingar, sem þjóðin af skiljanlegum ástæðum hefur átt svolítið erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfri sér. Sumir þeirra gerðu hreint fyrir sínum dyrum að eigin frumkvæði og þar er Halldór Laxness fremstur í flokki.
Þær umræður, sem nú eru augljóslega að hefjast í Evrópu og innan Evrópusambandsins um þessi mál og það uppgjör, sem þar stendur fyrir dyrum hlýtur a.m.k. að kalla á að hér á Íslandi verði allar upplýsingar dregnar fram í dagsljósið og liggi fyrir um það sem að okkur snýr.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...