Sunnudagurinn 29. maí 2022

Eiga „eiginlegar“ aðildar­viðræður að fara fram í felum?


Styrmir Gunnarsson
27. júní 2011 klukkan 09:27

Í dag hefjast það, sem kallað hefur verið hinar „eiginlegu“ samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands. Svonefndri rýnivinnu er lokið. Í þessu felast ákveðin þáttaskil. Hingað til hafa samskipti Íslands við Evrópusambandið vegna aðildarumsóknar verið lokuð inni í utanríkisráðuneytinu. Mjög takmarkaðar upplýsingar hafa komið fram um það, sem gerzt hefur til þessa. Jafnvel Alþingi sjálft, sem setti þetta ferli af stað hefur litlar upplýsingar fengið enda lítið gert af því að kalla eftir þeim. Nú hlýtur þetta að breytast. Það er ekki boðlegt að þessi feluleikur með aðildarumsókn Íslands haldi áfram. Nú verða allar upplýsingar að liggja fyrir frá degi til dags. Það er hins vegar ekki ástæða til að ætla að utanríkisráðuneytið hafi frumkvæði að því.

Þess vegna er komið að stjórnarandstöðunni á þingi að taka afgerandi frumkvæði í þessu máli. Stjórnarandstöðuflokkarnir hljóta að kalla eftir umræðum á þessum tímamótum um stöðu mála, ekki bara í viðræðunum sjálfum heldur í Evrópu og innan Evrópusambandsins og evrusvæðisins.

Þegar aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi voru þeir, sem hana samþykktu þeirrar trúar að í henni væri fólgin einhver björgun fyrir Ísland. Það sem síðan hefur gerzt er þó fyrst og fremst það að Evrópusambandið og evrulöndin sérstaklega hafa hvert á fætur öðru lent í hremmingum, sem að mörgu leyti má jafna til hrunsins hér. Að vísu er staðan í Grikklandi enn verri.

Af óskiljanlegum ástæðum fóru nánast engar umræður fram á Alþingi áður en það fór í sumarfrí um ástand mála í Evrópu í ljósi aðildarumsóknar Íslands. Nú þegar eiginlegar aðildarviðræður eru að hefjast eins og stjórnvöld lýsa því verða þessar umræður að fara fram. Auðvitað er þetta mál svo stórt að kalla ætti þingið sjálft saman til þess að ræða stöðu málsins en það verður ekki gert. Hins vegar er hægt að fara þá leið að kalla utanríkisnefnd þingsins saman til opins fundar þar sem þessi viðhorf yrðu rædd fyrir opnum tjöldum og útvarpað og sjónvarpað þannig að almenningur hafa möguleika á að fylgjast með því, sem raunverulega er að gerast.

Stjórnarandstaðan á að kalla eftir slíkum opnum fundum utanríkisnefndar Alþingis nú á næstu dögum og vikum, sem standi reglulega fram á haust, þegar þing kemur saman. Með þeim hætti geta þingmenn staðið við þá skyldu, sem á þeim hvílir að sjá til þess að viðræðurnar við ESB fari fram fyrir opnum tjöldum en ekki í felum eins og þær hafa verið fram að þessu.

Leyndin, sem verið hefur yfir þessari málsmeðferð er ekki samboðin samfélagi, sem byggir á lýðræði og opnum stjórnarháttum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki einkamál nokkurra embættismanna í utanríkisráðuneytinu. Þetta er mál þjóðarinnar allrar og hún á kröfu á því að fylgjast með gangi málsins eins nákvæmlega og kostur er.

Ríkisstjórnin mun ekki hafa frumkvæði að slíkri opinni málsmeðferð. Þingmenn stjórnarflokkana munu ekki gera það. Þingmenn Vinstri grænna munu ekki gera það. Reynslan sýnir að það er ekkert að marka, sem þeir segja um ESB-mál. Þeir hugsa um það eitt að halda stöðu sinni innan ríkisstjórnar.

Þess vegna verður að gera þá kröfu til stjórnarandstöðuflokkanna að þeir hafi frumkvæði að því og berjist fyrir því, að hinar „eiginlegu“ aðildarviðræður fari fram í almanna augsýn en ekki í skúmaskotum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS