Laugardagurinn 28. maí 2022

Ríkjaráð­stefna í Brussel: Danir á jörðinni - Össur skýjum ofar


Björn Bjarnason
23. júní 2012 klukkan 10:33

Nicolai Wammen ESB-ráðherra dönsku ríkisstjórnarinnar sagði á ríkjaráðstefnunni með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Ŝtefan Füle, stækkunarstjóra ESB, í Brussel föstudaginn 22. júní þegar þrír nýir viðræðukaflar gagnvart Íslandi voru opnaðir að hann vonaði að Kýpverjum tækist að halda sama hraða í viðræðunum við Íslendinga og Dönum hefði tekist undanfarna sex mánuði. Kýpverjar taka við formennsku í ráðherraráði ESB sunnudaginn 1. júlí. Þeir ramba á barmi gjaldþrots og stjórn kommúnista í Nikósíu veit ekki hvort hún á frekar að halla sér til Moskvu eða Brussel í leit að lánsfé.

Wammen flutti auk þess áminningarorð til Kýpverja um hvernig þeim bæri að standa að viðræðunum þegar hann sagði: „Við höldum okkur við allar settar reglur í þessum viðræðum, það er lykilatriði. Enginn getur efast um þá staðreynd að Íslendingar verða að sæta sömu kröfum og önnur umsóknarríki.“

Danski ESB-ráðherrann lýsir með þessum orðum þeirri staðreynd að Danir höfðu að engu kröfur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fundi hennar með Helle Thorning-Schmidt 1. nóvember 2011 um „að langflestir samningskaflanna sem eftir eru“ yrðu opnaðir í tíð dönsku formennskunnar svo að vitnað sé í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins frá þessum tíma.

Jóhanna hitti José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel 8. nóvember 2011 og sagði þá: „Við áttum mjög góðan og gagnlegan fund þar sem við ræddum ýmis mál ítarlega, sérstaklega framhald aðildarviðræðnanna næstu mánuði og áherslur okkar um að reyna að opna sem flesta kafla á tíma formennsku Dana í Evrópusambandinu, fyrir júlí 2012.“

Nú hafa verið opnaðir 18 samningskaflar af 33 eða 35 eftir því hvernig menn kjósa að telja. Þar af voru sjö opnaðir í formennskutíð Dana sem er langt frá því sem Jóhanna Sigurðardóttir lýsti í nóvember. Annaðhvort misskildi hún það sem viðmælendur hennar sögðu við hana á fundunum í Kaupmannahöfn og Brussel, hún vildi ekki skilja orð þeirra eða þeir sögðu henni ósatt um hvað gerast mundi í viðræðum Íslendinga og ESB á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2012. Líklegasta skýringin er raunar sú að Jóhanna og spunaliðar hennar hafi einfaldlega til heimabrúks sagt rangt frá niðurstöðum viðræðna hennar.

Yfirlýsingar Füles og Wammens um að allt gangi ótrúlega hratt fyrir sig í viðræðunum við Íslendinga skipta engu máli nema fyrir íslensku ráðherranna sem vilja láta eins og þeir séu í einhverri sérskúffu í Brussel. Með vísan til þessarar áráttu Jóhönnu sá Wammen ástæðu til að minna Kýpverja á að svo væri ekki, Íslendingar ættu að sæta sömu kjörum og aðrir hvað sem Össur segði.

Hér hefur því verið haldið fram um nokkurra mánaða skeið að ESB-viðræðumenn ríkisstjórnar Íslands sætu í raun strandaðir á skeri. Fyrir því eru tvær meginástæður: ágreiningur um samningsmarkmið innan ríkisstjórnar Íslands og kreppan innan ESB sem snertir ekki aðeins evruna heldur allt samstarf ríkjanna 27.

Össur gortaði sig af því á blaðamannafundi í Brussel 22. júní að ríkisstjórn Íslands gæti kennt evru-ríkjum að sigrast á efnahagserfiðleikum, henni hefði tekist það með miklum ágætum. Þetta segir utanríkisráðherra Íslands í sömu viku og skýrt er frá því að ríkissjóður Íslands sé að borga inn á lán sem eru með 3,0-3,5% vexti með því að taka annað lán í Bandaríkjadölum til 10 ára með föstum 6,0% vöxtum. Á það hefur verið bent að þetta sýni að ríkissjóður Íslands sé álitinn verri skuldari en húsnæðislántaki í Bandaríkjunum sem nú fái lán með 2,99% föstum nafnvöxtum til 15 ára!

Allir sem fylgjast með fréttum af evru-vandanum vita að þar búa ráðherrar sig undir að senda frá sér neyðarkall fari ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréfum í 6%. Í Brussel montar Össur sig hins vegar af miklum efnahagsárangri með slíka vexti á bakinu um leið og hann segist vita að evrunni verði bjargað. Hvað skyldu næstum gjaldþrota Kýpverjar halda þegar þeir taka að ræða við þetta undarlega fólk úr norðurhöfum? Haldi þeir sig við leiðsögn Dana tekst kannski af opna 25 samningskafla fyrir 1. janúar 2013.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS