Miðvikudagurinn 25. maí 2022

Ruglukollar Össurar og byggðastyrkir ESB


Björn Bjarnason
16. október 2012 klukkan 05:47

Innan Evrópusambandsins nota menn skammstöfunina Nuts um reglurnar sem gilda um skiptingu landsvæða á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga til að skilgreina hvort þau séu hæf sem styrkþegar úr byggðasjóðum ESB. Því lægri einkunn sem landsvæði fá þeim mun meiri líkur á að þangað séu veittir byggðastyrkir. Íslenska utanríkisráðuneytið leggur áherslu á í afstöðu sinni í byggðamálum að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims, hrjóstrugt og strjálbýlt á borð við afkimabyggðir í Norður-Finnlandi.

Hér á Evrópuvaktinni birtist mánudaginn 15. október frétt af vefsíðunni EUobserver um hvernig byggðastyrkjamál ESB horfa við Króötum sem stefna að aðild að ESB 1. júlí 2013 og hafa augastað á byggðastyrkjum ESB enda telja þeir sig meðal fátækustu þjóða Evrópu þótt sagt sé að lífskjör í höfuðborginni Zagreb jafnist almennt á við það sem tíðkast í borgum af svipaðri stærð í suðurhluta ESB.

Raunir Króata vegna byggðastyrkjanna eiga rætur að rekja til þess að þeir virðast ekki hafa neitt um það að segja hvernig landi þeirra er skipt af stjórnendum ESB. Þeir telja að um tvö meginsvæði sé að ræða í Króatíu en ekki fimm eins og stjórnvöld Króatíu vildu. Með einhliða ákvörðun um þetta hafa Brusselmenn spillt möguleikum landbúnaðarhéraða til að sækja um styrki. Viðmælandi EUobserver segir að á einni nóttu hafi Brusselmenn ákveðið að verg landsframleiðsla í fátæku landbúnaðarhéraði sé 30% hærri en daginn áður.

Í frétt EUobserver segir að þau byggðarlög séu hæf til styrkja úr byggðasjóði ESB þar sem verg landsframleiðsla á mann er 75% eða minni en meðaltal innan ESB. Nú séu um 270 „grunnsvæði“ innan ESB. Þegar Króatar gangi í sambandið bætist við tvö slík svæði: Mið-Króatía og Adríahafs-Króatía.

Spunaliðarnir sem reka áróður fyrir aðild Íslands að ESB og starfa á vegum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra hafa ekki hampað því í umræðum hér á landi að tekið sé mið af landsframleiðslu á mann annars vegar í einstöku landi eða landshlutum og meðaltali innan ESB hins vegar þegar teknar eru ákvarðanir um byggðastyrki innan ESB.

Spunaliðarnir hafa markvisst ýtt undir vonir forráðamanna byggðarlaga hér á landi um ESB-styrki samhliða því sem þeir tala lífskjör á Íslandi niður gagnvart Brusselmönnum. Þessari sömu aðferð var greinilega einnig beitt í Króatíu þegar rekinn var áróður fyrir ESB-aðild þar. Eftir að Króatar hafa samþykkt aðild kemur hins vegar kaldur veruleikinn í ljós. Brusselmenn segjast ráða, þá hafi þeir ekki heldur fengið neinar óskir um skiptingu Króatíu í fimm byggðasvæði.

Hér á þessum stað hefur verið bent á hve forkastanlegt sé að kynna Ísland í ESB-viðræðunum á þann veg að lífskjör og lífsgæði hér séu líkust því sem gerist í afkimabyggðum í Norður-Finnlandi. Af fréttunum frá Króatíu má álykta að áróðurinn um hið óbyggilega Ísland sé einkum til heimabrúks. Brusselmenn taka ekkert mark á svona tali. Þeir fara eftir eigin reglum. Með áróðri sínum ætla spunaliðarnir að telja okkur Íslendingum trú um að í Brussel sitji menn á digrum sjóðum og bíði þess eins að geta dælt úr þeim til Íslands. Því fer víðs fjarri.

Á ensku lýsa menn ruglukollum með orðinu „nuts“. Að sama orð sé notað um byggðastyrkjaáætlun ESB finnst ýmsum enskumælandi mönnum vel við hæfi. Fyrir okkur Íslendinga er ástæðulaust að hlaupa á eftir því sem ruglukollar Össurar segja hið óbyggilega Ísland sem leitar á náðir ESB. Þeir sem slá um sig á Íslandi með evrum annarra eru marklausir.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS