Laugardagurinn 28. maí 2022

Hvatt til vest-norrænnar forystu í leiðtogakvöldverði


Björn Bjarnason
17. ágúst 2013 klukkan 10:33

Ríkisstjórnin rak loks af sér slyðruorðið í stuðningi sínum við Færeyinga föstudaginn 16. ágúst þegar hún ályktaði um deilur þeirra við Evrópusambandið og sagði:

„Á undanförnum mánuðum hefur Evrópusambandið (ESB) ítrekað hótað að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum í því skyni að ná betri stöðu í samningaviðræðum um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Þessi háttsemi brýtur í bága við ýmsar skuldbindingar samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og almennum reglum þjóðaréttar, einkum skuldbindingu strandríkja til að koma sér saman um ráðstafanir sem tryggi vernd og þróun sameiginlegra stofna. Slíkar aðgerðir myndu enn fremur stangast á við skuldbindingar ESB samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og, að því er Ísland varðar, samkvæmt EES-samningnum.

Það er ríkisstjórn Íslands mikið áhyggjuefni að ESB leitist við að skerða rétt annarra strandríkja á svæðinu til frjálsra samningaviðræðna og samninga í því skyni að ná fram hagsmunum tiltekinna aðildarríkja sambandsins. Það er Íslandi einnig áhyggjuefni að ESB sniðgengur vísvitandi þær leiðir til lausnar deilumála sem hafréttarsamningurinn kveður á um.

Ríkisstjórn Íslands mótmælir því harðlega að ESB grípi til hótana um að beita þvingunaraðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum sem leið til að leysa deilur um stjórnun veiða úr sameiginlegum fiskistofnum. Ríkisstjórnin krefst þess að ESB dragi hótanir sínar til baka og virði þannig skuldbindingar sínar samkvæmt þjóðarétti.“

Ályktun í þessa veru var fyrir löngu tímabær. Hún er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði leiðandi afl við gæslu hagsmuna vest-norrænna þjóða. Hér skal endurtekin áskorun um að forsætisráðherra boði til fundar í Reykjavík með forystumönnum Færeyinga og Grænlendinga í því skyni að samræma stefnu þeirra í mikilvægum hagsmunamálum sem ekki njóta viðurkenningar eða virðingar Evrópusambandsins og setja því dönsk stjórnvöld í vanda.

Forsætisráðherra ætti að efna til slíks vest-norræns eyríkjafundar áður en hann heldur til Stokkhólms og hittir Barack Obama Bandaríkjaforseta hinn 4. september. Hann gæti þá kynnt sameiginleg sjónarmið eyríkjanna í Norður-Atlantshafi við kvöldverðarborðið.

Land- og hafsvæðin sem falla undir 400 til 500 þúsund íbúa eyjanna þriggja eru svo stór og auðug af auðlindum að fráleitt er að komið sé fram við þjóðirnar sem hjálendur eða aukastærð í hnattrænu svo að ekki sé rætt um í norrænu samhengi. Í þessu efni hafa íslensk stjórnvöld sérstöku hlutverki að gegn. Íslendingar þekkja og skilja hagsmuni Færeyinga og Grænlendinga og íslensk stjórnvöld hafa forræði í utanríkismálum sem ekki á við um færeysku og grænlensku landstjórnirnar.

Það er ljóður á ráði ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að flökt og hægagangur virðist ríkja við töku ákvarðana. Slíkir starfshættir eiga síst við þegar mikilvægir alþjóðahagsmunir eru í húfi. Forsætisráðherra er eindregið hvattur til að taka ótvíræða vest-norræna forystu fyrir leiðtogakvöldverðin í Stokkhólmi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS