Utanríkisráðuneyti Íslands er önugt í yfirlýsingu sem það sendi frá sér þriðjudaginn 3. desember vegna ákvörðunar sem því var kynnt daginn áður um að ESB mundi slíta tafarlaust öllu samstarfi um IPA-styrkina, aðlögunarstyrki ESB. Ráðuneytið sagði meðal annars í yfirlýsingu sinni:
„Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.
Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB er þessi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg og ekki til þess fallin að styrkja samband aðila.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kvað enn fastar að orði vegna sama máls á eigin vefsíðu. Þessi hörðu viðbrögð vekja undrun og verða ekki skýrð á annan hátt en þann að ráðherrann og ráðuneyti hans telji að framkvæmdastjórn ESB hafa gengið á bak orða sinna á einhvern hátt.
Orðin „mjög óheppileg og ekki til þess fallin að styrkja samband aðila“ í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins eru harkaleg í diplómatískum samskiptum og í hróplegri andstöðu við lofsyrðin og ánægjuhljóðin sem jafnan hafa borist frá utanríkisráðuneytinu þegar samskiptin við stækkunardeild ESB og sjálfan Ṥtefan Füle stækkunarstjóra ber á góma.
Sendiráði Evrópusambandsins var nóg boðið með yfirlýsingu utanríkisráðherrans og ráðuneytis hans og sendi frá sér tilkynningu um málið miðvikudaginn 4. desember þar sem segir meðal annars:
„Tilgangur IPA stuðnings er að styðja við land sem vinnur að því að samræma löggjöf sína, staðla og stefnur að Evrópusambandinu, með það fyrir augum að verða nægilega undirbúið fyrir aðild að ESB. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa stöðvað aðildarviðræður er grundvöllur fyrir IPA stuðning ekki lengur til staðar og ekki er hægt að réttlæta hann áfram og standa um leið vörð um góðar starfsvenjur í fjármálastjórnun.“
Í yfirlýsingunni kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekin í Brussel eftir að framkvæmdastjórn ESB hafði „velt vandlega fyrir sér“ hvað fælist í ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að gera hlé á aðildarviðræðunum.
Öll framvinda þessa máls er rökrétt. Undrunarefnið er hvernig í ósköpunum embættismönnum utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherra gat dottið í hug að að ESB mundi halda áfram að styðja aðlögun að ESB eftir að íslensk stjórnvöld höfðu ákveðið að hætta henni. Ráðuneytið hefur að vísu alltaf stungið höfðinu í sandinn þegar orðið „aðlögun“ er nefnt. Enn er ástæða til að spyrja: Er „aðlögun“ ekki besta orðið yfir það sem felst í að „samræma löggjöf sína, staðla og stefnur að Evrópusambandinu“ svo að vitnað sé í yfirlýsingu sendiráðs ESB. Allir með íslenska máltilfinningu sjá að orðalagið „samræma … að“ er ekki gott mál heldur liður í blekkingarleik sem tímabært er að ljúki með brottfalli IPA-styrkjanna, þarna á að standa „laga…að“.
Í yfirlýsingu Evrópusambandsins segir að með því að falla frá greiðslu IPA-styrkjanna til Íslands sé framkvæmdastjórn ESB að standa „vörð um góðar starfsvenjur í fjármálastjórnun“. Þessi orð hljóta að verða þeim sérstakt ánægjuefni sem hafa í tæp 20 ár neitað að árita reikninga ESB vegna þess hve „fjármálastjórnunin“ er léleg.
Miðað við hvernig haldið hefur verið á þessu máli af Íslands hálfu er brýnna en áður að taka af skarið um að takmarka samskiptin við ESB við það eitt sem um hefur verið samið á tryggilegan hátt og hverfa alveg af gráu svæði aðildarumsóknarinnar.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...