Laugardagurinn 28. maí 2022

Dráttur á að draga aðildarumsóknina til baka er óviðunandi


Styrmir Gunnarsson
14. febrúar 2014 klukkan 07:24

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók formlega við völdum hinn 23.maí á síðasta ári. Þá lýsti hún því yfir að hún mundi láta gera skýrslu um stöðu viðræðna við Evrópusambandið og um þróun þess. Þá skýrslu átti að leggja fyrir Alþingi sl. haust. Nú er kominn 14. febrúar 2014 og þessi skýrsla hefur enn ekki séð dagsins ljós. Síðast var sagt að það yrði „fljótlega“. Ríkisstjórnin hefur gert „hlé“ á viðræðum við Evrópusambandið en Ísland er enn „umsóknarríki“, þrátt fyrir að hér hafi setið bráðum í 9 mánuði við völd flokkar, sem lýstu því yfir fyrir kosningar að þeir mundu binda endi á þetta mál.

Nú ber að sýna því skilning að ný ríkisstjórn þarf að fá tíma til að koma stefnumálum sínum í farveg en það segir ekki góða sögu um skilvirkni íslenzkrar stjórnsýslu hvað afgreiðsla þessa máls hefur tekið langan tíma. Það er ekki hægt að skýra það á nokkurn hátt með frambærilegum rökum. Þetta eru einfaldlega léleg vinnubrögð. Þau lofa því miður ekki góðu. Hvað ætli taki svo langan tíma fyrir ríkisstjórn og Alþingi að að komast að niðurstöðu um endanlega afgreiðslu málsins?

Það er vont fyrir samfélagið að hafa þetta mál hangandi í lausu lofti. Það þvælist fyrir öðrum málum, sem mikilvægt er að takast á við í samskiptum við Evrópuríkin. Fyrir nokkrum dögum hafði meðlimur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins orð um að nálægt 80% af brezkri löggjöf, sem nú er afgreidd á þingi Bretlands komi frá Evrópusambandinu. Getur þetta verið? Hver er staðan hjá EES-ríkjunum? Hver er staðan hér á Íslandi? Það er tímabært að ræða þessi mál og fleiri en það verður ekki gert svo vit sé í á meðan aðildarumsóknin liggur í skúffu í Brussel.

Þar að auki er ljóst að það þarf að ganga frá þessu máli til þess að við getum snúið okkur að því að móta uppbyggilega utanríkisstefnu fyrir framtíðina. Það var ekki tekizt á við það verkefni í ljósi þeirra breyttu aðstæðna, sem sköpuðust, þegar bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott. Sjálfsagt vegna þess að Samfylkingin tók við utanríkisráðuneytinu vorið 2007 og hafði ekki annað í huga en að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Nú er kominn tími á að vinna hefjist við mótun utanríkisstefnu 21.aldarinnar á þeim grundvelli að Ísland standi utan Evrópusambandsins en forsenda fyrir því er sú aðaðildarumsóknin verði dregin til baka.

Það er ekki hægt að una lengur við þann drátt, sem á þessu máli hefur orðið.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS