Sunnudagurinn 29. maí 2022

Skýr meirihluti á alþingi gegn ESB-aðildarviðræðum


Björn Bjarnason
1. mars 2014 klukkan 12:27

Eftir að Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, beitti sér fyrir sáttum á þingi fimmtudaginn 27. febrúar var ákveðið að utanríkismálanefnd alþingis tæki tvær tillögur til meðferðar í nefndaviku þingsins sem hefst mánudaginn 3. mars.

Annars vegar er tillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra sem lögð var fram 21. febrúar svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.“

Hins vegar er tillaga frá þingflokki vinstri-grænna (VG) sem var lögð fram á alþingi 25. febrúar svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að gera formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og felur ríkisstjórninni að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri afstöðu. Enn fremur ályktar Alþingi að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi ályktar að efnt skuli til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.“

Í báðum tillögum er gert ráð fyrir að alþingi bindi enda á umsóknarferlið. Í tillögu utanríkisráðherra er mælt með afturköllun umsóknar í tillögu VG er talað um „formlegt hlé“. Þarna er vissulega munur. Í báðum tilvikum er hins vegar ljóst að þingið tekur ákvörðun um að stöðva ESB-viðræðurnar. Ekki yrði farið af stað að nýju án þess að meirihluti alþingis samþykkti það.

Myndaðist nýr meirihluti á alþingi sem vildi ræða við ESB yrði að senda inn nýja umsókn til ESB ef tillaga utanríkisráðherra yrði samþykkt en um formleg lok á hléi yrði að ræða ef tillaga VG yrði samþykkt. Leið VG hefur verið nefnd „svissneska leiðin“ vegna þess að Svisslendingar settu umsókn sína í frysti fyrir um það bil tveimur áratugum og þar hefur hún legið síðan enda er enginn áhugi meðal Svisslendinga að ræða um aðild við ESB. Maltverjar gerðu á sínum tíma viðræðuhlé í tvö ár vegna stjórnarskipta.

Málið kynni að horfa öðru vísi við Brusselmönnum eftir því hvort tillaga utanríkisráðherra er samþykkt eða tillaga VG. Þeir gætu sagt í fyrra tilvikinu: Íslendingar verða að hefja umsóknarferlið frá upphafi. Þeir kynnu einnig að segja að haldið yrði áfram þar sem frá var horfið í báðum tilvikum: Stál í stál vegna ágreinings í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. Mat manna í Brussel mundi vafalaust ráðast af því hver væri pólitískur styrkur þeirra sem stæðu að endurnýjaðri umsókn Íslands í hvaða mynd sem hún yrði.

Í báðum tillögunum sem liggja fyrir utanríkismálanefnd er mikilvægur fyrirvari: Ekki verður gengið til viðræðna að nýju við ESB nema umboð til þess verði veitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi þarf með öðrum orðum bæði að ákveða að endurnýja umsókn og einnig að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ályktun VG segir að efnt skuli til slíkrar atkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins, skömmu fyrir alþingiskosningar. Þetta er skrýtið ákvæði og erfitt að sjá rök fyrir því. Miklu nær væri að árétta að efnt skuli til tveggja þjóðaratkvæðagreiðslna, fyrst um að hefja viðræður og síðan um niðurstöðu viðræðnanna, ljúki þeim á þann veg að aðilar séu sammála.

Eftir allt uppnámið undanfarna daga, útifundi á Austurvelli og stóryrði á alþingi, munu nefndarmenn í utanríkismálanefnd ræða þessar tvær tillögur í næstu viku. Augljóst er að tillögurnar ganga báðar gegn hugmyndum ESB-aðildarsinna. Þær eru staðfesting á að Samfylkingin og Björt framtíð eru í minnihluta á alþingi. Miklu skiptir að tekið sé af skarið um meirihlutavilja alþingis í ESB-málinu með ályktun.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS