Er þungamiðja Evrópu að færast til austurs? Er nýtt bandalag Þýzkalands og Rússlands að taka við sem ráðandi aðili í Evrópu af því bandalagi Þýzkalands og Frakklands sem þar hefur ráðið ferð frá stríðslokum? Þetta eru grundvallarspurningar, sem fjallað er um í nýrri grein á vefsíðu bandaríska tímaritsins Foreign Affairs, sem er einn virtasti vettvangur vestan hafs fyrir umfjöllun fræðimanna og sérfróðra um alþjóðamál. Frá þessari grein var sagt á stjórnmálavakt Evrópuvaktarinnar fyrir helgi.
Þessar spurningar eru ekki út í hött. Þjóðverjar standa eins og venjulega í miðju átaka milli austurs og vesturs í Evrópu. Þeir hafa ræktað tengslin við Rússland (og þar áður Sovétríkin) frá því að Willy Brandt, fyrrum borgarstjóri í Vestur-Berlín og síðar kanslari Vestur-Þýzkalands hóf boðun Ostpólitíkur, sem snerist um að koma á eðlilegu og heilbrigðu samstarfi við stórveldið austur af Þýzkalandi. Frá þeim tíma hafa Þjóðverjar ræktað tengslin við Rússa og á milli ríkjanna eru nú víðtæk viðskiptatengsl og pólitísk tengsl. Um þriðjungur þeirrar orku, sem Þjóðverjar nota kemur frá Rússlandi. Þjóðverjar selja mikið af framleiðsluvörum sínum til Rússlands. Ríkin tvö eru tengd sterkum viðskiptalegum hagsmunaböndum.
Þau tengsl hafa þau áhrif að spurningar vakna um hve langt Þjóðverjar vilji ganga í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna Krímskaga og Úkraínu. Sumir fræðimenn telja að fari Þjóðverjar sér hægt sé það til marks um að þeir telji náin samskipti við Rússa skipta meira máli þegar hér er komið sögu en samskiptin við Bandaríkin.
Pólverjar eru á ný orðnir virkur þátttakandi í þessu valdatafli. Þeir vilja sýna Rússum hörku. Þeir vilja náið samstarf við Bandaríkin. Þeir hafa vonda reynslu af báðum nágrönnum sínu, Þjóðverjum og Rússum.
Það mun ekki sjást í einu vetfangi hver þróunin verður. Hitt er ljóst að þær hugleiðingar, sem settar eru fram í fyrrnefndri grein í Foreign Affairs að ráðandi afl í Evrópu framtíðarinnar verði þýzkt-rússneskt bandalag en ekki þýzkt-franskt eru ekki fráleitar. Og jafnframt fer ekki á milli mála að Þýzkaland ræður nú ferðinni innan Evrópusambandsins.
Þessar spurningar og þessi framvinda mun hafa áhrif á önnur aðildarríki ESB. Bretar vilja ekki ganga lengra í átt til sameiningar Evrópu. Það er alveg ljóst eftir grein, sem David Cameron skrifaði í Daily Telegraph um helgina.
Frakkar hafa lengi gælt við þann valkost fyrir sig að mynda eins konar bandalag Miðjarðarhafsríkja undir sinni forystu. Á Norðurlöndum eru nú umræður um aukið og nánara samstarf þeirra í varnarmálum.
Það Evrópusamband, sem Samfylkingin leggur svo mikla áherzlu á að verða aðili að kann að verða Evrópusamband, sem er stjórnað af þýzk-rússnesku bandalagi.
Þjónar það hagsmunum Íslendinga að verða smápeð í slíku bandalagi?
Það er kominn tími til fyrir Samfylkinguna að endurmeta stefnu sína í þessum málum.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...