Laugardagurinn 28. maí 2022

Upplýsinga­gjöf Össurar


Styrmir Gunnarsson
15. maí 2010 klukkan 10:00

Í ræðu sinni á Alþingi í gærmorgun,um utanríkismál sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra m.a.:

„Það er mikilvægt að hafa umsóknarferlið eins opið og gagnsætt og hægt er, ekki sízt til að eyða tortryggni og misskilningi, sem jafnvel örlar stundum á hjá stöku háttvirtum þingmanni og jafnvel dæmi um það hjá beztu mönnum í röðum hæstvirtra ráðherra. Þess vegna birti ég á Netinu á sínum tíma allar spurningar framkvæmdastjórnarinnar og svo svör stjórnsýslunnar, jafnóðum og þau voru í mínum höndum.

Í sama anda hef ég ákveðið að fundargerðir samninganefndar og samningahópa verði birtar opinberlega. Samningsafstaða Íslands í einstökum málum verður opinber, þegar hún liggur fyrir og önnur gögn, svo fremi sem samningafólkið okkar telji það ekki skaða samningshagsmuni Íslands eins og þeir eru á hverjum tíma.

Ég tel líka rétt að veita Íslendingum beina hlutdeild í umsóknarferlinu með því að opna gagnvirka vefsíðu, þar sem borgarar geti í senn haft skoðanir á einstökum málum en jafnframt haft reglulega samræðu við aðalsamningamann, sérfræðinga eða ráðherrann sjálfan eftir því sem tilefni er til. Rafræn stjórnsýsla er á fleygiferð og við Íslendingar eigum að nýta okkur kosti hennar í þessu mikilvæga máli

Í þriðja lagi mun aðalsamningamaður Íslands halda fundi um allt land á næstunni til að upplýsa þá, sem áhuga hafa um næstu skref í umsóknarferlinu. Evrópumálin snerta okkur öll og sjálfsagt að menn fái það sem er að gerast – beint í æð.“

Allt er þetta jákvætt hjá utanríkisráðherra. Vandinn er hins vegar sá, að það er ekki víst að gerðir fylgi orðum. Ástæðan fyrir því að þetta er sagt er einfaldlega sú, að upplýsingagjöf ráðherrans sjálfs úr ræðustól á Alþingi í gærmorgun var með endemum. Hann leiddi markvisst hjá sér að svara spurningum, sem til hans var beint. Hann svaraði ekki ítrekuðum spurningum um ákveðna þætti varðandi kostnað við aðildarumsókn. Hann svaraði engu athugasemdum og spurningum varðandi samskipti okkar við 27 aðildarríki ESB, sem leggja mikla vinnu í að fjalla um umsókn Íslands en spyrja sig spurninga um, hvort alvara fylgi máli af okkar hálfu svo dæmi séu nefnd.

Þegar ráðherrann umgengst Alþingi sjálft af slíku virðingarleysi og virðist ekki telja sér skylt að svara efnislegum spurningum annarra alþingismanna fer ekki hjá því að menn velti því fyrir sér, hvort hugur fylgi máli í þeim kafla ræðu ráðherrans, sem hér hefur verið vitnað til. Eða hvort þessi orð voru sýndarmennskan ein.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS