Miðvikudagurinn 25. maí 2022

Malta - Ísland, ólíku saman að jafna


Björn Bjarnason
28. september 2010 klukkan 22:56

Joe Borg, fyrrverandi sjávarútvegsstjóri ESB, flutti erindi hér laugardaginn 25. september á vegum samtakanna Sterkara Ísland, sem berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann sagði frá reynslu sinni af viðræðum þjóðar sinnar á eyjunni Möltu um aðild að ESB. Borg leiddi viðræðurnar sem utanríkisráðherra og telur að sjálfsögðu, að góð niðurstaða hafi fengist.

Hann sagði, að sér hefði tekist að fá tímabundna aðlögun að ESB í í 76 tilvikum en í einu væri um varanlega sérlausn að ræða. Hún snýst um veiði smábáta innan 25 mílna lögsögu umhverfis Möltu á um 1.000 tonnum af fiski árlega. Með þessum hætti er tryggt, að hefbundin útgerð í þorpum á strönd landsins hverfi ekki úr sögunni. Fellur sérlausnin ekki síður að því að viðhalda atvinnuvegi í menningarlegu verndarskyni en halda úti útgerð, sem skipti aðrar ESB-þjóðir nokkru máli.

Þegar rætt var um aðild Möltu að ESB við Joe Borg í fjölmiðlum, skýrðist betur en áður, hvaða hagsmunir voru í raun í húfi að hans mati. Um það var að ræða, hvort Maltverjar ættu að halda áfram að leggja rækt við evrópska menningararfleifð sína eða falla enn frekar að menningarlegum hefðum þjóðanna á strönd Norður-Afríku. Með því að sækja um aðild að ESB var fyrri kosturinn valinn og fyrir honum reyndist að lokum meirihluti meðal landsmanna.

Lýsingar af þessu tagi eru forvitnilegar fyrir okkur Íslendinga, því að þær minna á, að annað og meira er í húfi við aðild að Evrópusambandinu en það, sem unnt er að reikna í krónum og aurum eða leggja á efnahagslega mælistiku.

Grikkir, Spánverjar og Portúgalir höfðu allir kynnst einræðisstjórnum, áður en þjóðirnar gengu í ESB. Þær litu á aðild að sambandinu sem tryggingu fyrir því, að lýðræðislegir stjórnarhættir hefðu fest þar rætur. Þeim yrði ekki rutt úr vegi af einræðisseggjum, á meðan löndin væru í ESB.

Finnar, Svíar og Austurríkismenn stilltu sér upp milli austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins, lýstu yfir hlutleysi í deilum aðildarríkja NATO annars vegar og Varsjárbandalagsins hins vegar. Þjóðirnar gripu fyrsta tækifæri sem gafst, eftir að Sovétríkin hrundu til að tengjast sem ríkjum Vestur-Evrópu sem bestum böndum. Aðild að ESB veitti þeim tækifæri til þess.

Þegar ríkisstjórnir kommúnista hrökkluðust frá völdum í fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna, vildu þjóðirnar þáttaskil í stjórnmálasögu sinni. Hún fékkst með aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og síðar ESB.

Sama er hve marga ræðumenn Sterkara Ísland eða Evrópusambandið fær frá nýlegum aðildarlöndum ESB til að lýsa rökum fyrir ESB-aðild þjóða sinna, þau eiga ekki við um Ísland.

Í fyrsta lagi vegna þess að Íslendingar standa ekki í þeim sporum að þurfa að árétta með hverjum þeir standa eða hvar menningarlegar eða stjórnarfarslegar rætur þeirra eru.

Í öðru lagi vegna þess að Íslendingar hafa samning við EES um það, sem mestu máli skiptir fyrir þá í samvinnu við Evrópusambandið. Allt í frekari samningum lýtur að eftirgjöf hagsmuna, sem er betur komið undir stjórn Íslendinga sjálfra en embættismanna í Brussel.

Í þriðja lagi vegna þess að um blekkingu er að ræða, þegar sagt er, að aðild að ESB sé forsenda þess, að Íslendingar nái stjórn á eigin efnahagsmálum eða njóti sín í samfélagi þjóða.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS