„Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða“, segir í Hávamálum. Við fá lög hefur þetta átt betur við en lögin um Icesave. Mönnum finnst ýmist að lögin séu til heilla eða óheilla fyrir land og þjóð.
Talsmenn þess að þjóðin staðfesti lögin geta þess oft að Íslendingar eigi ekki annan kost en að greiða kröfur Breta og Hollendinga. Þeir telja að greiðum við ekki verði allir Íslendingar jafnt einstaklingar sem og fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið stimpluð sem óábyrgir viðsemjendur og fjárglæframenn. Það verði því útilokað fyrir Íslendinga að fá lán erlendis, nema í besta lagi á ofurvöxtum. Þjóðin verði einangruð og því útskúfuð úr samfélagi siðaðra þjóða.
Þetta eru þung orð. Börn eru oft hrædd með sögum um Grýlu og Leppalúða, en uppeldisfræðingar nútímans vara foreldra við að hræða börn með slíkum lygasögum því það geti leitt til þess að börnin fái martröð. Ekki fara þó allir foreldrar að ráði uppeldisfræðinga í þessu eða öðru, foreldrar eru misgóðir. Það er skoðun höfundar þessa pistils að fullyrðingar talsmanna íslenskra stjórnvalda og fylgifiska þeirra um fyrirsjáanlega einangrun Íslands og útskúfun sé óábyrgur þvættingur sem hafi ekki einungis valdið þjóðinni martröð heldur einnig varanlegum sálarmeinum. Þjóðin hefur einfaldlega verið lögð í einelti vegna Icesave af þeim sem hún ætti að geta treyst best, eigin stjórnvöldum.
Nei, Grýla og Leppalúði eru ekki til og okkur verður ekki útskúfað úr samfélagi siðaðra þjóða og við munum fá lán erlendis.
Ef þjóðin staðfestir ekki lögin heldur meðferð málsins áfram. Hugsanlega munu Bretar og Hollendingar skjóta málinu til Alþjóðadónstólsins í Haag í Hollandi. Ef svo fer er trúlega skynsamlegast fyrir okkur að fallast ekki á að dómstóllin hafi lögsögu í málinu. Eiga Bretar og Hollendingar þá ekki annarra kosta völ en að hefja mál á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan líklega fyrir Hæstarétti Íslands. Íslendingar sjálfir munu því eiga síðasta orðið ef málið fer í þennan farveg. Hugsanlega getur málinu einnig lyktað með sátt. Þá greiðum við Bretum og Hollendingum einhverja málamynda upphæð, en þeir skuldbinda sig til að sækja málið ekki frekar. Slík sátt gæti hugsanlega komið til fyrir tilstuðlan allþjóðadómstólsins eða sáttasemjara.
Milliríkjadeilur eru daglegt brauð og í mörgum tilvikum fylgjast almenningur í viðkomandi löndum og fjölmiðlar lítt með framvindu slíkra mála og þær gleymast skjótt. Hver man lengur deilur Íslendinga og Bandaríkjamanna út af flutningum til varnarliðsins eða deilur Íslendinga og Svía út af Loftleiðum? Ekki veit ég til þess að þessar deilur hafi skaðað samband Íslendinga og Bandaríkjamanna eða Íslendinga og Svía. Þessar deilur drógust þó báðar nokkuð á langinn.
Það er þess virði að huga að af hverju Bretar og Hollendingar buðu okkur betri kjör í samningaviðræðunum um Icesave 3 en í viðræðunum um Icesvae 2. Ástæðan er sú að samstaða þjóðarinnar um að hafna Icesave 2 gerði Bretum og Hollendingum ljóst að við látum ekki vaða ofan í okkur. Ef samingar ættu að takast yrðu þeir að gera okkur betra tilboð.
Íslendingar hafa ætíð barist með rökum og með vísan til sanngirni en ekki beitt vopnavaldi. Þannig endurheimtum sjálfstæði okkar bæði pólitískt og efnahagslegt. Engin sanngirni felst í því að við berum fjárhagslegan kostnað af því sem flemtri slegin hollensk og bresk stjórnvöld greiddu eigendum Icesave reikninga. Þetta undarlega uppátæki verður tæplega skýrt með því að þeim hafi verið umhugað hag og framtíð íslenska bankakerfisins eða Íslands. Fremur voru þau að forða áhlaupi sparifjáreigenda á hollenska og breska banka. Hvorki breskum né hollenskum stjórnvöldum bar að eigin sögn skylda til að greiða innstæðueigendum. Bresk og hollensk stjórnvöld eru því ekki aðilar að neinu máli vegna gjaldþrots Landsbankans og eiga því hvorki kröfur á þrotabú bankans eða á íslensk stjórnvöld.
Allt bendir til þess að þeir sem settu sparifé sitt inn á reikninga Icesave hafi flestir vitað um þá áhættu sem því fylgdi. Fæstir þeirra settu inn hærri upphæð en þá hámarksupphæð sem Tryggingasjóður innstæðueiganda og fjárfesta ábyrgðist. Sjóðurinn er samábyrgðarsjóður og er í eigu innstæðueigenda sjálfra og ekki í eigu ríkisins eins og margir halda. Ekki virðast allir sparifjáreigendur þó hafa gert sér grein fyrir því að sjóðurinn gæti orðið gjaldþrota. Það er ekki unnt að sjá allt fyrir.
Sú staðreynd að sjóðurinn tryggði innstæður Icesave breytir ekki þeirri hinu að þeir sem settu sparifé sitt inn á Icesave-reikninga voru að tefla á tvísýnu og þeim bar sjálfum skylda til að gera sér góða grein fyrir áhættunni sem þeir tóku. Innlánsvextir á þessum reikningum voru hærri en útlánsvextir annara banka í Hollandi og Bretlandi. Fólk gat því tekið lán hjá þessum bönkum og lagt andvirði lánsins inn á Icesave reikning og fengið vaxtamismun sem hagnað. Banki sem greiðir slíka ofur vexti af innlánum hlýtur að lána lánþegum með mjög lága lánshæfni, lánþegum sem aðrir bankar vilja ekki lána og eiga því ekki í önnur hús að venda en til Landsbankans og fá þar lán á ofurvöxtum.
Landsbankinn stofnaði Icesave og Kaupþing Edge vegna þess við mörgum íslenskum fyrirtækjum blasti sú kalda staðreynd að þau voru nær gjaldþrota og vantaði fé sem þeim var ókleift að fá á venjulegum lánskjörum. Varla þarf að minna lesendur á að eigendur þessara fyrirtækja voru einnig aðaleigendur Landsbankans og Kaupþings.
Framtíð Íslands og lánshæfi íslenska ríkisins og íslenskra fyrirtækja ræðst ekki nema af óverulegu leiti af því hvernig Icesave-deilan verður til lykta leidd. Framtíð Íslands ræðst að mestu af okkur sjálfum og af því hvort við berum gæfu til að hafna aðild að ESB.
Lánshæfi ríkis ræðst af greiðslugetu þess, aðgengi að erlendum gjaldeyri, ef lánið er tekið í erlendri mynt og af efnahagsútlitinu í landinu sjálfu og í heiminum almennt. Öll þessi atriði endurspeglast einnig í gengi gjaldmiðla. Verði Icesave 3 samþykkt aukast skuldir íslenska ríkisins enn frekar og endur- og vaxtagreiðslur kalla á aukið útstreymi erlends gjaldeyris. Þetta lækkar gengi íslensku krónunnar, sem mun auka verðbólgu, lækkar gengi krónunnar enn frekar. Þessi vítahringur spillit síðan enn frekar efnahagsástandi og efnahagshorfum þjóðarinnar. Lánshæfi íslenska ríkisins og íslenskra fyrirtækja minnkar, sem gerir það bæði dýrara og erfiðara fyrir Íslendinga að fá lán erlendis. Við þetta má síðan bæta að líklegt er að gengi sterlingspundsins hækki þegar efnahagslífið í Bretlandi réttir úr kútnum. Sú hækkun, ef af henni verður, hækkar Icesave-skuldina og endurgreiðslur þess í íslenskum krónum. Um gengi ervunnar er erfitt að spá, vart hækkar það að ráði, kynni hins vegar að lækka en þó ekki verulega.
Ef þjóðin staðfestir lögin um Icesave 3, dökkna efnahagshorfur á Íslandi. Með samþykkt minnka einnig vonir um endurnýjun á núverandi bankakerfi heimsins. Kerfið var hannað eftir síðustu heimsstyrjöld og er ekki lengur vandanum vaxið. Atburðir haustsins 2008 sýndu það glögglega og erfiðleikar bankanna á Írlandi, Spáni og Portúgal sýndu það aftur 2010.
Margir bankamenn binda vonir við að Íslendingar hafni kröfum Breta og Hollendinga því það muni gera enn frekar ljóst að þörf sé á að endurnýja bankakerfið. Ekki er lengur hægt að ætlast til þess að skattgreiðendur beri kostnað af gjaldþroti banka fremur en annara fyrirtækja. Við Íslendingar berum því ekki einungis ábyrgð því hvort efnahagslífið í landinu rís upp úr þeim öldudal líðandi stundar, heldur höfum við einstætt tækifæri til að verða umheiminum að liði. Ef við neitum að staðfesta Icesave 3 höfum við heillavænleg áhrif á þróun bankamála alls heimsins. Sjaldan hefur jafnmikil ábyrgð hvílt á öxlum jafn fárra.
Nafn: Sveinn Eldon Fæddur í Reykjavík 1950 Heimspekingur og hagfræðingur að mennt. Hefur starfað sem háskólakennari bæði á Íslandi og í Finnlandi þar sem hann starfar nú.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.