Föstudagurinn 20. maí 2022

Gerir ESB Íslandi tilboð, sem það telur ekki hægt að hafna?


Styrmir Gunnarsson
20. desember 2011 klukkan 07:12

Þótt ný utanríkisstefna Íslands á 21. öldinni byggist í grundvallaratriðum á hagsmunum þjóðarinnar eins og þeir horfa við okkur nú hlýtur hún líka að taka mið af þeim hættum, sem kunna að steðja að sjálfstæði Íslands og þær hættur eru kannski fleiri en ætla mætti við fyrstu sýn.

Fyrst ber að nefna að þjóðin komst mjög nálægt því að missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt í hruninu haustið 2008. Íslenzka þjóðarbúið var í nær þrjú ár á gjörgæzludeild hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Við vorum fyrst síðla sumars 2011 útskrifuð af þeirri deild og enn eru hættur á ferðum. Skv. yfirliti í sérútgáfu The Economist um horfur á árinu 2012 er Ísland enn í hópi þeirra ríkja heims, sem skulda mest sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Þegar horft er til baka er ljóst, að við vorum nánast að missa fjárhagslegt sjálfstæði okkar fyrir glannaskap og kannski að einhverju leyti þekkingarleysi á harðri viðskiptaveröld hins stóra heims en líka vegna þess að innviðir þjóðarbúsins voru byrjaðir að fúna, þótt ósanngjarnt væri að kalla þá innviði danskar fúaspýtur eins og Sveinn Benediktsson kallaði húsin á Bernhöftstorfunni forðum daga. Danir áttu engan þátt í því að hér komu fram merki úrkynjunar vegna fámennis, kunningsskapar og ættartengsla.

Við sluppum fyrir horn en stóra spurningin er sú, hvort við lærðum okkar lexíu eða hvort þjóðin fær aftur glýju í augun ef hún sér einhvers staðar peninga. Það er því miður ekki hægt að útiloka það. Viðbrögðin við hugmyndum Huang Nubo sýna það.

Þess vegna er hættan á að missa fjárhagslegt sjálfstæði ein af þeim hættum, sem við þurfum að varast. Eitt er þótt þjóðarbúið skuldsetji sig innanlands, annað ef það verður um of skuldbundið öðrum þjóðum. Þótt staða Ítalíu sé veik um þessar mundir er hún þó sterkari en hún lítur út fyrir vegna þess að mikið af skuldum Ítalíu er við Ítala sjálfa.

En auðvitað er öguð fjármála- og efnahagsstjórn forsenda fyrir því, að við lendum ekki í slíku feni á ný. Í þeim efnum getum við mikið lært af Þjóðverjum.

Önnur hætta og ekki síður alvarleg er sú, sem fólgin er í samningaviðræðum okkar við Evrópusambandið, sem í raun eru aðlögunarviðræður en ekki samningaviðræður. Þær eru eins konar samningar um það hvernig við aðlögumst kerfi Evrópusambandsins.

Augu sumra þeirra, sem ábyrgð bera á aðildarumsókninni eru að opnast fyrir því, að allt er þetta ferli flóknara og dýpra en þeir héldu. Eftir því sem lengra líður á þetta ferli verður Ísland stöðugt flæktara inn í margslungið samstarfskerfi Evrópusambandsins og stöðugt erfiðara að losna út úr þeim farvegi, sem við erum komin í. Einn góðan veðurdag mun Evrópusambandið koma með tilboð, sem það telur, að Íslendingar geti ekki hafnað og þá reynir á hvort núlifandi kynslóð Íslendinga lætur kaupa sig og fórnar þar með hagsmunum óborinna kynslóða í þessu landi.

Evrópusambandið reyndist mjög stíft í samningaviðræðum við Norðmenn á 10. áratug síðustu aldar varðandi tímabundnar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB. Í tilviki Íslands er alveg eins líklegt að það verði miklu sveigjanlegra. Ástæðan er sú, að Evrópusambandið á svo mikilla hagsmuna að gæta í Nýja Norðrinu að komast þar að borðinu, að það kann að vera tilbúið til að bjóða nánast hvað sem er til þess að ná því marki.

Einhvers staðar í innsta kjarna ráðandi afla Evrópusambandsins verður við slíkar aðstæður tekin ákvörðun um að gera Íslendingum tilboð, sem þeir telja að landsmenn geti ekki hafnað.

Verður slíku tilboði hafnað?

Hin unga kynslóð íslenzkra bankamanna fyrir hrun hélt að hún kynni flest betur en kollegar þeirra í öðrum löndum. Hin unga kynslóð íslenzkra útrásarvíkinga fyrir hrun hélt það sama. Í ljós kom að þeir voru nytsamir sakleysingjar.

Þótt samningamenn Íslands við Evrópusambandið séu vel menntað fólk og mörgum kostum búið fer því hins vegar fjarri að það hafi sambærilega reynzlu af slíkum samningum þjóða í milli og starfsmenn Evrópusambandsins, sem eru orðnir þrautþjálfaðir á þessu sviði. Og yfirmenn samningamannanna eru augljóslega „sveitamenn“ í þeim skilningi, sem einu sinni var lagt í það orð. Þeir eru fákunnandi svo að ekki sé meira sagt í hinum stóra heimi alþjóðlegra stjórnmála.

Einn þáttur í sálarlífi smáþjóða er að þær verða upp með sér af því að komast í námunda við stórþjóðirnar. Það hefur verið landlæg veila í sálarlífi starfsmanna íslenzku utanríkisþjónustunnar frá upphafi að þeir hafa löngum talið að útlendingar hefðu frekar rétt fyrir sér en þeir sjálfir og hlytu að vita betur. Þetta heitir minnimáttarkennd og er ein af ástæðunum fyrir því, hvað starfsmenn utanrikisþjónustunnar fyrr og nú hafa haft sterka tilhneigingu til að missa tengslin við íslenzkan veruleika. Þeir eru margir Glæsivellir samtímans.

Þótt hér sé alhæft eru að sjálfsögðu heiðarlegar undantekningar frá þessari reglu!

Þetta eru hætturnar í samskiptum við aðrar þjóðir, sem eru raunverulegar og blasa við og þær birtust með ýmsum hætti á tímum þorskastríðanna. Þá var það þrýstingur heima fyrir, sem kom í veg fyrir að of langt væri gengið í undanlátssemi við útlendinga.

Slíkur þrýstingur þarf að gegna sama hlutverki nú.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS