Miðvikudagurinn 25. maí 2022

ASÍ-ESB VI: Samþykkir þing ASÍ almenna atkvæða­greiðslu í öllum aðildarfélögum um afstöðuna til ESB?


Styrmir Gunnarsson
25. september 2012 klukkan 10:44
ASÍ
Merki Alþýðusambands Íslands

Þegar horft er til þeirrar eindregnu stefnumörkunar Alþýðusambands Íslands að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og niðurstöðu skoðanakannana um að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild hlýtur sú spurning að verða ofarlega á dagskrá 40. þings ASÍ, sem saman kemur um miðjan október, hvort félagsmenn verkalýðs- og launþegafélaganna, sem standa að þessum heildarsamtökum launafólks skeri sig úr og hafi allt aðra skoðun á þessu stóra máli en meginþorri þjóðarinnar. Það er ósennilegt að svo sé. Meiri líkur eru á að skoðanakannanir endurspegli afstöðu félagsmanna aðildarfélaga ASÍ ekki síður en þjóðarinnar í heild. Og í því tilviki er auðvitað ljóst, að forystusveit ASÍ hefur ekkert umboð frá félagsmönnum sinum til að fylgja þeirri stefnu, sem samtökin hafa mótað og fylgt á ársfundum sínum.

Búsáhaldabyltingin svonefnda var á margan háttað merkilegt þjóðfélagslegt fyrirbæri, sem ekki ber að gera lítið úr. Og ganga má út frá því sem vísu að félagsmenn aðildarfélaga ASÍ hafi verið burðarásinn í þeirri grasrótarhreyfingu, sem spratt upp á skömmum tíma og lét finna fyrir sér um skeið. Engum gat dulizt að ein meginkrafa búsáhaldabyltingarinnar var aukið lýðræði.

Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvort sú krafa nær inn í umræður á 40. þingi ASÍ, sem framundan er. Í ljósi tíðarandans blasir við að umræður fari fram á þingi ASÍ um það að efnt verði til almennrar atkvæðagreiðslu í öllum aðildarfélögum Alþýðusambandsins um afstöðu þeirra til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Verði stuðningur við núverandi stefnumörkun ASÍ í málinu samþykktur í slíkri atkvæðagreiðslu fer ekki á milli mála að forystusveit ASÍ hefur fullt umboð til að fylgja þeirri stefnu fram. Verði niðurstaða slíkrar allsherjaratkvæðagreiðslu sú, að yfirgnæfandi andstaða sé við aðild hlýtur ASÍ að breyta stefnu sinni í ESB-málum.

Eðlilegt hlýtur að teljast að undanfari slíkrar almennrar atkvæðagreiðslu í aðildarfélögunum verði víðtækar umræður á vettvangi þeirra allra, þar sem sjónarmið koma fram með og á móti.

Með framangreindum rökum verður það að teljast með miklum ólíkindum, að tillaga um slíka atkvæðagreiðslu í aðíldarfélögunum komi ekki fram á þingi ASÍ í október. Það yrði áhugavert að sjá, hvernig forystumenn ASÍ bregðast við slíkri tillögu. Getur verið að þeir leggist gegn því að svo lýðræðislega sé staðið að stefnumörkun í svo stóru máli á vettvangi Alþýðusambandsins? Það getur varla verið.

Í tengslum við slíkar umræður má telja líklegt að sú spurning vakni á þingi ASÍ hvort ekki sé tímabært að sams konar vinnubrögð verði viðhöfð við kjör á forseta ASÍ og öðrum trúnaðarmönnum svo og um stefnumörkun ASÍ í helztu hagsmunamálum félagsmanna aðildarfélaganna.

Hið sama á auðvitað við um lífeyrissjóðina. Það er löngu tímabært að félagsmenn lífeyrissjóðanna kjósi sjálfir í almennri atkvæðagreiðslu fulltrúa sína í stjórnir sjóðanna í stað þess að þeir séu tilnefndir af vinnuveitendum og stjórnum viðkomandi launþegafélag.

Tuttugusta öldin er liðin. Þau vinnubrögð, sem þá tíðkuðust heyra sögunni til. Ný öld er gengin í garð og vilji verkalýðsfélögin halda stöðu sinni í samfélaginu hljóta þau að laga sig að breyttum aðstæðum ekki síður en aðrir.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS