Hvað sem öðru líður, eru nú miklar líkur á, að vatnaskipti muni verða í viðskiptum Íslands við Evrópusambandið, ESB, í kjölfar komandi Alþingiskosninga í lok apríl 2013. Annaðhvort verður settur kraftur í ferlið, sem Alþingi heimilaði með semingi 16. júlí 2009, að gangsett yrði, og aðlögunina, sem Alþingi hefur aldrei samþykkt, eða hið raunverulega ferli verður stöðvað. Það er mikill munur á því ferli, sem leyfi var gefið til að hefja, og hinu raunverulega. Með öðrum orðum eru forsendur leyfisveitingarinnar til ríkisstjórnarinnar löngu brostnar. Þetta er að mati höfundar meginskýringin á samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 um að stöðva hið raunverulega ferli og að loka Evrópustofu, sem siglir undir fölsku flaggi Vínarsáttmálans um starfsemi sendiráða, en er í raun áróðursverktaki á vegum framkvæmdastjórnar ESB.
Ferlið, sem illa leikið Alþingi samþykkti, hefur gengið undir heitinu „að kíkja í pakkann“. Það snýst um, að fulltrúar utanríkisráðuneytisins setjist niður með fulltrúum stækkunarstjórans í framkvæmdastjórn ESB og festi niður á blað, hvaða skilmála ESB vilji bjóða Íslendingum við inngöngu. Þetta ferli er ekki til. Það leið undir lok árið 1994, þegar ESB undirbjó „Drang nach Osten“, sókn til austurs. Samþykkt Alþingis, 16. júlí 2009, var reist á ósannindum og þvingunum. Sagt var, að Íslendingum stæði til boða að fara á hraðferð inn í ESB og að umsóknin ein og sér mundi færa landsmönnum mikinn velvilja ESB og bættar efnahagshorfur, sem mundu létta landsmönnum róðurinn upp úr öldudal peningakerfishruns; evran yrði handan við hornið og að með gjaldmiðilsskiptum kæmust landsmenn fyrir vind á um tveimur árum.
Þetta var loddaraháttur af ómerkilegasta tagi, þar sem spilað var á tilfinningalíf særðrar þjóðar, og allt reyndust þetta staðlausir stafir spunaköngulóa ríkisstjórnarinnar. Forystumenn ESB hafa hvað eftir annað endurtekið, að alrangt sé að kalla ferlið samningaferli, því að ekkert sé til að semja um, sízt af öllu á sviðum sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem ESB fari með óskoruð völd yfir þjóðríkjum ESB. Ferlinu sé bezt lýst sem aðlögunarferli, þar sem fulltrúar ESB fari yfir það í einum málaflokki á fætur öðrum, hvernig umsóknarríki gangi að laga sig að regluverki ESB. Utanríkisráðherra hefur ekki viljað viðurkenna þetta, svo augljóst sem það er, heldur kosið að stinga skeggjuðum hausnum í sandinn að hætti strútsins. Hann hefur heldur ekki leyft kynningu á rándýrum afrekum „aðalsamningamanns“ og hjálparkokka hans.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 23. marz 2013, voru færðar sönnur á, að stjórnsýslan er á kafi í að aðlaga stjórnkerfi landsins að staðalkröfum ESB. Vitnað er til Ársskýrslu Tollstjórans: „Vinna vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu var í brennidepli hjá Tollstjóra árið 2011. ... Mikil vinna fór í undirbúning fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið á árinu ... .“ Árið 2012 auglýsti Ríkisskattstjóri eftir „verkefnisstjóra við aðlögun tölvukerfa embættisins að kröfum Evrópusambandsins“. Hér þarf ekki frekari vitnana við.
Nú skal ekki leggja neinn dóm á nytsemi þessarar vinnu, en þetta er allt annað en það, sem lagt var upp með í upphafi. Meginmálið er, að ríkisstjórnina hefur borið mjög af leið.
Ríkisstjórnin hefur farið á bak við Alþingi; það er beitt blekkingum, og óheiðarleg framganga utanríkisráðherra einkennir ferlið. Ferlið hefur mjög dregizt á langinn miðað við tímaáætlun ríkisstjórnarinnar, og margt bendir til, að ESB hagi málum þannig meðvitað til að þreyta fiskinn og knýja fram «fait accompli, þ.e. að landsmenn standi að lokum frammi fyrir lokinni gjörð og formsatriði eitt sé að samþykkja gjörninginn. Af þessum sökum er fullkomlega eðlilegt að hálfu Alþingis að binda enda á þetta ferli með því að afturkalla heimildina frá 16. júlí 2009. Þetta væri heiðarleg framkoma gagnvart ESB, og það er auðvelt að rökstyðja hana gagnvart þeim í fullri vinsemd. Núverandi ferli var aldrei heimilað af löggjafanum og framkvæmdavaldið er klofið til afstöðunnar til lokaafurðarinnar. Ferlið allt er þess vegna dónaskapur gagnvart íslenzku þjóðinni og gagnvart æðstu stofnunum ESB.
Helzti Akkilesarhæll ESB er lýðræðishallinn. Þjóðþingin eru neydd til að framselja sífellt meir af valdi sínu til framkvæmdastjórnarinnar í höfuðstöðvum ESB, Berlaymont. Þar á öll löggjöf ESB upphaf sitt hjá fólki, sem engum þarf að standa reikningsskap gerða sinna á lýðræðislegan hátt. Evrópuþingið er einhvers konar stimpilpúði fyrir framkvæmdastjórn ESB, þannig að annaðhvort er lagafrumvarp framkvæmdastjórnarinnar samþykkt þar eða því er hafnað. Fulltrúar ríkisstjórnanna móta stefnu ESB í leiðtogaráði þess og ráða ráðum sínum um hin stærstu mál, t.d. nú um örlög Kýpur.
Bretar hafa nú fengið sig fullsadda á téðum lýðræðishalla og stefna á samningaviðræður við embættismenn ESB í Berlaymont-byggingunni í Brussel um endurheimtur valds yfir nokkrum málaflokkum til brezka þingsins. Þingkosningar eru ráðgerðar til þings á Bretlandi árið 2015, og þessi mál verða rædd í kosningabaráttunni. Síðan hefur Cameron, forsætisráðherra, boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í ESB árið 2017. Eins og málin horfa nú við, eru meiri líkur en minni á, að Bretar rífi sig lausa frá ESB í kjölfar þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þessar mundir er allt á tjá og tundri innan ESB, og enginn veit, hvert stefnir. Við slíkar aðstæður en meira en lítið óskynsamlegt að berja upp á og leita inngöngu hjá fyrirbrigði, sem enginn veit, hvort muni stefna til sambandsríkis, tollabandalags eða einhvers annars fyrirkomulags.
Hamrað hefur verið á því hérlendis og með hvað háværustum hætti fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2009, að Íslendingar hefðu ekki lent í fjárhagsvanda sínum og kreppu haustið 2008, ef lögeyrir landsins hefði þá um hríð verið evran. Þetta var mantra ýmissa stjórnmálamanna og manna með fræðimannsstimpil úr háskólasamfélaginu, og reyndist raunar vera innantómt trúarstef. Í rauninni studdist þetta tal aldrei við neinar rannsóknir, sem staðið geta undir nafni, og reyndist vera yfirborðshjal gösslara í sjálfsupphafningu, sem reynslan hefur dæmt sem ómerkinga, bæði í Icesave-málum og gjaldeyrismálum, rúna fræðimannsheiðri sínum.
Nýjasta dæmið um þetta er þróun mála á Kýpur. Þar slagaði bankakerfið upp í að verða hlutfallslega jafnstórt hinu íslenzka sem hlutfall af landsframleiðslu, þó að fjármögnunin væri gjörólík. Nú er peningakerfi Kýpur hrunið án þess að evru-bankinn hafi enn gripið í taumana sem bakhjarl til þrautavara. Bankar hafa verið lokaðir í viku á Kýpur og boðað er, að þeir verði lokaðir í tvær vikur. Evrubankinn, Brüssel og Berlín, hafa ekki tekið á Kýpurbúum með neinum silkihönzkum, og stór orð hafa fallið og falla enn á báða bóga. Það verður ekki tekið út með sældinni að vera ferðamaður frá norðurhluta ESB á hinni notalegu Kýpur, ef marka má yfirlýsingar frá Kýpur, þar sem heitara er í kolunum en í Búsáhaldabyltingunni í Reykjavík á sinni tíð. Hingað til hafa Kýpurbúar ekki hlotið nokkurn stuðning frá evrubankanum, sem eitthvert halda sé í, og geta Íslendingar vel ímyndað sér, hvernig staða þeirra hefði verið með evru haustið 2008. Fjandsamleg afstaða Brüssel þá og síðar, sem kristallaðist í málaferlum ESA og ESB gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, sem lauk með dómsuppkvaðningu 28. janúar 2013, hefði ekki orðið mildilegri með Ísland sem hluta af ESB þá. Svo rammt hefur kveðið að fjandsemi ESB í garð Íslands, að þeir lýstu því yfir eftir téða dómsuppkvaðningu, að þeir mundu ekki virða dóminn. Hvílíkur hroki. Það mun enn sannast, að dramb er falli næst.
Garðabæ, 23. marz 2013
Bjarni Jónsson er fæddur í Reykjavík 19. janúar 1949, og voru foreldrar hans Húnvetningar, sem fluttust úr Miðfirði og Vatnsdal til Reykjavíkur í upphafi seinna stríðs. Bjarni varð stúdent frá stærðfræðideild MR 1969, nam við verkfræðideild HÍ 1969-1972 og útskrifaðist með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskóla Noregs, NTH, í Þrándheimi 1974 . Hann réðist til hönnunarstarfa hjá Kværner Engineering AS í Bærum í Noregi strax eftir nám. Til Íslands fluttist Bjarni ásamt fjölskyldu sinni haustið 1976 og hóf þá störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins við að reisa aðveitustöðvar m.a. í Byggðalínu. Haustið 1980 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður rafmagnsstjóra ISAL í Straumsvík og tók við stöðu rafmagnsstjóra fyrirtækisins 1. janúar 1981 og gegnir þeirri stöðu síðan að breyttu breytanda. Bjarni kvæntist Þuríði Stefánsdóttur, hjúkrunarforstjóra, 12. ágúst 1972. Þau eiga 4 börn og 6 barnabörn.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.