Mærsk Mc-Kinney Møller útgerðarmaður bjó á Mosehøjvej 4C í Charlottenlund í norðurhluta sveitarfélagsins Gentofte á Norður-Sjálandi í Danmörku. Hann var árum saman hæsti skattgreiðandi sveitarfélagsins og lagði árlega 130 til 150 danskar krónur 2,5 til 3 milljarða ísl. kr. til sveitarsjóðsins. Í næsta mánuði mun Gentofte fá 1,5 milljarð danskra króna, 30 milljarða ísl. kr., úr dánarbúi hans segir í frétt Berlingske Tidende föstudaginn 27. mars.
Mærsk Mc-Kinney Møller andaðist 98 ára að aldri hinn 16. apríl 2012 og var hann jarðsettur í kirkjugarðinum í Hellerup sem er í Gentofte. Þar hvíla foreldrar hans, tvö systkini og Emma, kona hans.
Mærsk Mc-Kinney Møller var sonur Arnolds Peters Møllers, stofnanda A.P. Møller-Mærsk Group, og bandarískrar móður, Chastine Estelle Roberta (fædd McKinney) Møller. Mærsk kvæntist skólasystur sinni Emmu Neergaard Rasmussen árið 1940 og bjuggu þau saman þar til hún andaðist árið 2005. Þau eignuðust þrjár dætur. Hann var talinn 557. auðugasti maður heims á lista Forbes árið 2007 og var auður hans talinn nema 142 milljörðum danskra króna. Til dauðadags var hann auðugasti maður Danmerkur.
Í frétt Berlingske segir að alls verði greiddir 4,6 milljarðar danskra króna í skatta og gjöld úr dánarbúinu í apríl og falli þriðjungur í hlut Gentofte.
Hin opinberu gjöld sem að líkindum gera Mærsk Mc-Kinney Møller að hæsta skattgreiðanda í Danmörku á árinu 2015 má einkum rekja til hlutafjáreignar í A.P. Møller – Mærsk. Þar fyrir utan má nefna hlutabréfaeign í öðrum félögum, landareignir í Charlottenlund, snekkjuna Klem VIII og einkafyrirtæki.
„Ég get staðfest að eignirnar að Mosehøjvej, snekkjan Klem VIII og einkafyrirtækin hafa verið seld. Um önnur málefni búsins tel ég að eigi að ríkja trúnaður,“ segir Lars-Erik Brenøe, bústjóri og fyrrverandi aðstoðarmaður Mærsks Mc-Kinneys Møllers.
Í Berlingske segir að sveitarfélagið Gentofte sé stórefnað áður en þetta fé rennur í sjóði þess. Bæjarstjórinn, íhaldsmaðurinn Hans Toft, vill ekkert segja um hvað gert verði við fúlguna úr dánarbúi hins gamla íbúa að Mosehøjvej 4C.
„Sveitarstjórnin í Gentofte hefur ekki neinn aðgang að búinu og ekki heldur að upplýsingum um búið hjá skattayfirvöldum. Ég get því ekkert sagt um hve há fjárhæð er þarna til ráðstöfunar eða hvað mikið af henni rennur til Gentofte,“ segir Hans Toft í skriflegu svari til Berlingske.
Blaðið upplýsir að í fjárhagsáætlun Gentofte fyrir árið 2015 sé gert ráð fyrir 7 m. d. kr., 140 m. ísl. kr., tekjum frá dánarbúum.
Árið 2004 hagnaðist Gentofte á sölu á hlutabréfum sínum í orkufyrirtækinu NESA til Elsam sem síðar varð hluti af DONG (Dansk Naturgas og Dansk Olie og Naturgas ) stærsta orkufyrirtæki Danmerkur. Fyrir hlut sinn fékk Gentofte 3,5 milljarða d. kr. eða um 50.000 d.kr., 1 m. ísl. kr., á hvern íbúa. Um 74.000 manns búa í Gentofte og renni þangað 1,5 milljarðar úr dánarbúi Mærsks Mc-Kinneys Møllers jafngildir það 22.000 d. kr. 440.000 ísl. kr. á hvern íbúa.
Í Berlingske er tekið fram að ekki gildi neinar jöfnunarreglur milli danskra sveitarfélaga vegna tekna af dánarbúum og þess vegna sitji Gentofte eitt að þessu fé.
Bj. Bj.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Þáttaskil - hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar
Þriðjudaginn 27. apríl 2010 sá vefsíðan Evrópuvaktin dagsins ljós. Nú er komið að þáttaskilum. Á Evrópuvaktinni hefur verið lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá hefu...
Klofingur meðal kristilegra í Þýskalandi vegna skuldavanda Grikkja
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði þriðjudaginn 31. mars að viðræður við Grikki um skuldamál væru svo flóknar að niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir lok apríl. Spenna vegna málsins er ekki aðeins á stjórnmálavettvangi í Grikklandi heldur einnig annars staðar á evru-svæðinu. Hefur s...
Alexis Tsipras: Ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf
„Við leitum eftir heiðarlegri málamiðlun við lánardrottna en ekki búast við skilyrðislausri uppgjöf,“ sagði Akexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, í ræðu í gríska þinginu í gær. Hann sagði að Grikkir hefðu lagt fyrir lánardrottna hugmyndir um að koma böndum á smygl á benzíni og tóbaki, eftirlit með fjármagnstilfærslum til erlendra banka og stöðvun vsk-svindls.
Síðdegis mánudaginn 30. mars höfðu evru-ráðherrahópnum og þríeykinu ekki enn borist tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að fullnægja skilyrðum til útgreiðslu á lánsfé svo að bjarga megi Grikklandi frá greiðsluþroti. Ljóst er að niðurstaða um fyrirgreiðslu til Grikkja fæst ekki fyrr...